miðvikudagur, nóvember 14, 2012

Kaffi frá Guatemala

Ég sit á kaffihúsi á Jagersborggade og sötra kaffibolla sem kostaði mig 38 krónur danskar, eða um 836 krónur íslenskar. Kaffið er víst voðalega fínt og vinsælt á þessu kaffihúsi sem heitir Coffee Collective. Það kemur alla leið frá Guatemala. Kaffibarþjónninn sagði að þetta væri hans uppáhalds kaffi og notaði mörg flott orð til að lýsa því. Mér finnst það súrt, en þó alveg ágætt. Misjafn er smekkur manna. Ef ég hefði smakkað nákvæmlega sama kaffi undir öðrum kringumstæðum, til dæmis ef vinur minn hefði keypt sér kaffibolla á götuhorni og leyft mér að smakka með þeim formerkjum að kaffið væri handónýtt þá hefði ég eflaust líka fussað og sveiað yfir því. Allt er afstætt. Líka kaffi.

Ég átti merkilegan dag í gær. Hann var ansi erfiður og skapið mitt vildi ekki láta að stjórn. Ef mér liði svona í lengri tíma en einn dag þá væri eflaust hægt að stimpla mig sem þunglyndan ef fólk væri með stimplana sína á lofti. Ég hafði þó ekki miklar áhyggjur að festast í þessu fari og leyfði því þessari tilfinningu bara að vera og treysti á að ef ég streittist ekki of mikið á móti þá myndi hún hverfa. Eftir samtal við Supriyju, rifrildi við Cathrine og netsamræður um trúmál við Einsa þá held ég að lærdómurinn sem ég eigi að draga af þessum degi sé:

 What you resist, persists. 

Þetta var einmitt setning í lagi eftir Björk sem ég heyrði í morgun. Fyrir mér þýðir þetta að ef þú streitist á móti einhverju þá viðheldur þú hugmyndinni um það. Ef þú vilt losna við eitthvað, hættu þá að hugsa um það og það mun hverfa. Við nánari eftirgrenslan þá var það Carl Jung sem gerði þessa setningu fræga. Hann, ásamt mörgu öðru, er þemað mitt undanfarin misseri. Ég tek eftir því að sömu hlutir skjóta upp kollinum hvað eftir annað í ákveðinn tíma. Stundum í mánuð, stundum í einn dag. Við búum til þennan heim og við sjáum ekki heiminn eins og hann er heldur eins og við erum. Þannig að ég býst við að þessi þemu séu vísbendingar til mín um að kíkja betur á viðkomandi efni og veita þeim athygli. Follow your path of highest excitement. Allt bendir til þess að besta leiðin til að lifa lífinu sé að leyfa því að gerast sem vill gerast. Follow the white rabbit. Segðu já. Ögraðu sjálfum þér. Gerðu það sem þér finnst rétt hverju sinni. Lærðu af fortíðinni en veltu þér aldrei uppúr henni, því hún er ekki til. Gerðu plön og hafðu framtíðardrauma ef þig langar, en aldrei festast í þeim og mundu að þeir gætu breyst á svipstundu.

Ég er greinilega ekki vanur að drekka kaffi. Ég kláraði ekki einu sinni kaffibollann minn og mig svimar. Hversu mikil hæna er hægt að vera?! Kaffi er eiturlyf eins og svo margt annað. Nú skil ég betur fólk sem er ómögulegt ef það fær ekki kaffibollann sinn, þetta hefur ansi sterk áhrif á líkamann. Ég er vanur að drekka bara kaffi sem eftirrétt eftir stóra máltíð og þá líður mér ekki svona. Nóg um það.

Annað sem ég geti lært af gærdeginum er að það þurfa ekki allir að vera sammála mér eða líka vel við mig. Ef ég geri mitt besta þá er allt í lagi að aðrir séu ekki á sama máli og ég, þeir sjá hlutina út frá sínu sjónarhorni alveg eins og ég og það er allt í góðu. Fyrir mér þýðir það að gera sitt besta að fylgja sinni sannfæringu, bera virðingu fyrir öllu fólki og raunar öllu í umhverfi manns, og taka lífinu ekki of alvarlega.

Reyndar held ég að allir geri alltaf sitt besta. Þetta "besta" er bara hugtak eins og hvað annað, alveg eins og "rétt" og "fullkomið", nú eða andstæður þessara orða sem við túlkum sem neikvæðar. Við ákveðum sjálf hvað þetta allt saman þýðir. Við mannfólkið bjuggum til þessi orð og merkingar þeirra breytast í sífellu. Ég hugsa of til baka til annarinnar í heimspeki sem ég tók vorið 2003 í Háskóla Íslands. Þar ræddum við meðal annars fram og til baka hvað vitneskja væri og hvernig væri hægt að vita eitthvað "í raun og veru". Haha! En kjánaleg umræða. Rætt var hvernig vitneskja væri rétt útfrá allskonar skrítnum aðstæðum. Eftirá að hyggja var þetta ekki meiri speki en það að velta sér uppúr orðum eins og þau hefðu einhverja merkingu í raun og veru. En ætli það megi ekki eyða tímanum í það eins og hvað annað. Ég held ég láti þetta gott heita í bili.

 Maggi.
blog comments powered by Disqus