Starkaður og Hróbjartur
----- 3. hluti -----
Þetta þarf að lesa hægt.
Stóri guli sandkassinn hefur athygli okkar aftur. Strákarnir okkar sitja þar og halla sér upp að brún hans og horfa upp í skýin. Þeir eru einir úti því hinir krakkarnir eru farnir inn að lúra í oggustund.
Hróbjartur. Veistu hvað?
Starkaður. Já. Ég veit hvað. Það var að renna upp fyrir mér. Þetta er ekki svo ýkja flókið. Við erum. Það er ekki mikið meira að segja um það. Allt sem við upplifum er bara spunnið í kringum þessa einu vitneskju í heiminum. Hvort sem þetta er allt draumur, hvort sem við mannverurnar séum það eina sem skiptir máli og mælikvarði alls, þetta breytir ekki það miklu. Auðvitað er enginn raunveruleiki eins og við hugsum um hann. Um leið og einhver dettur niður á góða lausn á öllu saman þá er einhver annar mættur um leið til að draga hana í efa og finna á henni galla. Og það er engin lausn. Við erum alin upp í raunveruleika sem er ekki til. Það sem við skynjum er ekki til. Þegar þú horfir í spegil, ert það í raun þú sem þú ert að horfa á? Auðvitað ekki og það eru örugglega flestir sammála um það. Það er bara spegilmyndin af þér. En afhverju eru þá allir svona blindir á það að það sem þeir upplifa dags daglega er ekkert annað en spegilmyndin af því sem við höldum að sé til. Þegar þú horfir á eitthvað þá helduru að þú sjáir það. En það eina sem er að gerast er að heilinn í þér er að vinna úr einvherri skynjun sem augun í þér fengu frá einhverju. Hvað þetta eitthvað er veit enginn. Enginn. Og líklegast er það ekki neitt, eða að minnsta kosti ekkert sem við getum nokkruntíman skilið því við erum svo takmörkuð. Af hverju er það sem þú sérð eitthvað raunverulegra en það sem þú sérð gegnum spegilinn. Það sem þú sérð þar er ekki í speglinum í raun heldur bara mynd af því. Það sem þú telur þig sjá í raunveruleikanum er ekki þar heldur bara í hausnum á þér. Þú sjálfur ert inní hausnum á þér og getur ekki annað. Þú munt aldrei komast þaðan. Hvort sem við tveir sem liggjum hérna og horfum uppí himininn erum til í raun eða erum bara persónur í skáldsögu, skiptir það í raun máli? Við erum til. Við erum í hausnum á einhverjum. Hvort sem það er ég, Starkaður Ágústsson, eða bara ég, hugarburður einhvers annars, og hvort sem ég er í hausnum á einni persónu eða hundrað milljón manns, þá er ég til. Engu minna en þú og allir hinir. Raunveruleikinn er eitthvað sem er ekki til. Þetta er allt ímyndun. Og mín ímyndun er engu verri en þín. Við horfum uppí skýin og segjum frá því sem við sjáum. Ég segist sjá fíl en þú sérð regnhlíf. Samt erum við að horfa á sama skýið. Ætlar einhver að koma hingað og segja okkur að annar hvor okkar hafi rangt fyrir okkur? Eða að við höfum báðir rangt fyrir okkur og að það sé einhver mynd sem er þarna í raun? Nei. Aldeilis ekki. Við höfum báðir rétt fyrir okkur. Ég sé fíl og þú sérð regnhlíf. Það er enginn raunveruleiki sem annar okkar er að horfa framhjá. Ég er bara í hausnum á þér og þú ert bara í hausnum á mér. Þannig að nei. Ég breyti svarinu mínu. Ég veit ekki hvað. Hvað ætlaðiru aðeins að segja?
Hróbjartur. Ég man það ekki.
Starkaður. Þarna sérðu.
..:: m ::..
Halló heimur!
Fyrir 2 árum