þriðjudagur, maí 27, 2003

Það líður að jólum...


Rauðhærður drengur. Skrifborðsstóll og tölva. Heyrnartól og lyklaborð. Tónlist og tikk. Herbergi með bláum og hvítum veggjum á víxl og svartar mublur. Smá drasl, föt, geisladiskar og bækur. Óumbúið rúm. Rauðhærður ráðvilltur drengur. Hann skrifar eitthvað inn í tölvuna. Eitthvað um umhverfið í kringum sig. Af hverju, veit hann ekki. Kannski af því að honum datt ekkert annað í hug... Neeeii... Það hefði verið einfaldasta lausnin og sú sem flestir hefðu giskað á en það er rangt. Ástæðan er örlítið flóknari. Þessi fjörurra ára drengur (þótt standi á fæðingarvottorðinu hans að hann verði tuttuguogeins árs í sumar) hefur nefnilega ýmislegt að segja frá en honum finnst eins og hann hafi sagt frá því áður og væri bara að endurtaka sig. Hann hefur haldið því fram áður að hann sé eins og ólétt kona. Ekki af því að hann er með stóran maga og borðar fyrir tvo (því það er ekki raunin), heldur af því að hann hefur skapsveiflur á við nashyrning. Kannski er óléttu konu dæmið ekki svo góð samlíking. Hann er frekar eins og unglingur. Unglingur sem veit ekkert hvað hann vill, með rokkandi sjálfsálit eins og býfluga og... ægifagurt rauðleitt hár sem minnir á sólarlag á Bali. Mér finnst að hann ætti að skrifa bók. Og í við biðjum til guðs að hann skrifi ekki um sjálfan sig því það væri ekki skemmtileg lesning. Þá myndi enginn kaupa bókina og þá myndi aumingja strákurinn með rauða hárið sem er jafn rautt og tómatar eru grænir áður en þeir verða rauðir hafa enn meiri ástæðu til að efast um sjálfan sig. Viðurkenning er kannski það eina sem vantar hér. Kannski frekar léleg ástæða til að gera nokkurn skapaðan hlut en hey, ert þú fullkomin/n? Hélt ekki.
..:: drengurinn með hárið sem er jafn rautt og rauða hafið er blátt ::..
blog comments powered by Disqus