miðvikudagur, maí 14, 2003

Skrímsli


Ég ætlaði að blogga svo mikið og merkilegt núna. En svo ákvað ég að sleppa því. Það var aðallega röfl og væl og ég er að reyna að venja mig af því. Það er ekkert leiðinlegra (ok það er fullt af hlutum mun leiðinlegri en maður tekur svona til orða) en fólk sem röflar yfir tilgangslausum hlutum sem oftast er ekki hægt að breyta. Ég nenni ekki að vera þetta fólk. Ég ákvað líka á sama tíma að reyna að dæma fólk ekki fyrirfram. Ég var hálfsofandi í vinnunni í dag og það var kona sem ég fíla ekkert allt of mikið en hef þó ekkert á móti í raun sem stóð hjá sófanum sem ég var sofandi í (eða það hélt hún). Hún hafði haft augastað á þessu svefnstæði og var eitthvað fúl af því að ég lá þar og las þegar hún gat legið þar og sofið. Fyrstur kemur fyrstur fær eru reglurnar sem gilda þarna og því ætlaði ég ekkert að fara að færa mig fyrir hana. Allavega, sagði hún við einhvern "hann sefur þarna enn... með bókina sína." (bókin lá við hliðina á mér). Einhver las titilinn á bókinni og þau sögðu örfá orð og svo segir hún "mér finnst þessi leiðinlegur." Ég lá bara þarna, þó nær vöku en svefni, en hún vissi ekkert um það, ég hefði getað verið glaðvakandi! Ég var hissa á þessu kommenti frá henni. Ég meina ég hef aldrei talað við hana og kannski er það ástæðan fyrir því að henni finnst ég leiðinlegur, en maður á ekki að dæma fólk svona fyrirfram. Ég hélt ég yrði ekkert fúll en ég var það smá. Manni er aldrei sama um hvað fólki finnst um mann. Ég hef látið það vera að kynnast fólki í vinnunni. Það gerir það mun einmannalegra en ég bara get það ekki. Þetta fólk er ekki eins og ég. Ég veit að það er lélegt að segja þetta og þú heldur kannski að ég líti stórt á sjálfan mig (sem ég geri ekki) en ég á bara ekki samleið með þessu fólki. Núna er ég að dæma þau fyrirfram því ég þekki þau ekki í raun, en ég held ég þekki þau nóg til að segja þetta. Eflaust halda margir þarna að ég sé ýkt heimskur því ég þegi meira en ég tala. Mun meira. En ég slekk á sjálfum mér í vinnunni og vinn bara. Æi ég er hættur að röfla um þetta. Fyrirgefðu að ég hafi "látið" þig lesa þetta bull. Vinna er vinna. En þar sem ég er kominn í mótsögn við sjálfan mig frá því í byrjun þessarar færslu þá held ég að það sé kominn tími til að hætta, og fara ekki að lesa bókina mína því ég gleymdi henni í vinnunni! Dem.
..:: mags ::..
blog comments powered by Disqus