mánudagur, september 05, 2005

Þetta er nottla engin frammistaða!

Það er nú fokið í flest skjól þegar netfíkill með meiru nennir ekki að blogga. En hvað um það. Gleðilegan september!

Fyrir rúmri viku síðan fórum ég, Birna, Lára og Elva til Horsens í heimsókn til hans Jóa. Tilefnið var miðaldavestival og það var virkilega gaman að sjá það. Eina helgi á hverju ári er allur miðbærinn undirlagður af þessu miðaldaþema og allt umbreytist og virðist vera mörg hundruð ára gamalt! Stór hluti af bæjarbúum klæðist fötum frá þeim tíma, sölubásar eru settir upp útum allt með vörum sem minna á gamla tíma, haldnar eru leiksýningar og um allan bæ er fólk í hlutverkaleik og þykist vera betlarar eða kóngar og allt þar á milli. Við skemmtum okkur rosalega vel alla helgina, drukkum bjór úr leirkrúsum og skylmdumst með trésverðum við hvort annað og ýmsa riddara. Stór rauð regnhlíf kom líka mikið við sögu annað kvöldið og við erum enn að hlægja að mörgum eftirminnilegum atvikum helgarinnar.

Núna á föstudaginn var nýnemadagur í skólanum þar sem allt var gert til að skemmta nýjustu nemendum skólans. Við á öðru árinu lékum við þau í Legeparken þar sem var farið í hinar ýmsu íþróttir og um kvöldið var partý á Republikken. Jói kíkti í heimsókn til okkar frá Horsens og var svo óheppinn að veskinu hans var stolið úr vasanum hans. Hann var ekki lengi að hugsa sig um heldur hljóp þjófinn uppi, tæklaði hann og náði veskinu sínu aftur! Magnað kvöld alveg hreint.

Í gær komst ég í kynni við gátu-leik á netinu sem ég verð bara að mæla með. Hann heitir Not Pron og snýst einfaldlega um að koma sér á næstu þraut með öllum ráðum. Fólk þarf vera ágætlega að sér í netnotkun, fara í View Source til dæmis og sækja þar vísbendingar sem hjálpa til við að koma fólki í næstu þraut. Stundum á maður að nota Google til að hjálpa sér og leita þar að upplýsingum sem gætu komið manni í næsta borð. Oftar en ekki á að finna rétt notendanafn og lykilorð sem gengur að næstu síðu. Endilega lesið reglurnar og prófið ykkur svo áfram. Leikurinn er hér. Góða skemmtun!
Maggi.
blog comments powered by Disqus