miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Fun in the Sun!

Veðrið hefur ekki eyðilagt stemmninguna hér í Kolding undanfarna daga. Þvílík blíða! Um síðustu helgi var menningarhelgi hér í Kolding og við skemmtum okkur konunglega bæði föstudag og laugardag. Við fórum tvisvar í uppáhalds tívolítækið mitt, stóru róluna sem snýst í hringi og sveiflast í leiðinni. Í seinna skiptið bað Ísak um að fá að vera á míkrófóninum og hann fékk það og talaði bull-dönsku og íslensku allan tímann ofaní dúndrandi tónlistina meðan ég, Elva og Lára vorum í tækinu að deyja úr hlátri. Svo var auðvitað djammað fram á rauða nótt.

Eftir skóla á mánudaginn fórum við á ströndina í steikjandi hita og sól, og lágum þar um stund og busluðum smá í sjónum. Það tekur um 45 mínútur að labba að ströndinni og það er bara fínasti göngutúr þegar veðrið er svona gott. Við stóðumst ekki freistinguna á leiðinni heim og fengum okkur ís þótt sumir hafi ætlað að neita sér um allt svoleiðis á virkum dögum. Nefnum engin nöfn.

Í gær var svo ansi bissí dagur! Eftir skóla fór ég í strandblak með bekkjarsystkinum mínum í fyrsta sinn síðan síðasta haust. Það var gaman að rifja upp gamla takta og við ætlum að vera dugleg í blakinu á þessari önn. Eftir blakið fór ég til tannlæknis og þessi eilífa sápuópera með tönnina mína heldur áfram. Ég lét laga brotið sem var stærra en það hefur áður verið, þannig að vonum að fyllingin hafi náð góðri festu núna. Tönnin pirrar mig ekki neitt þannig að tannsinn minn stóð sig rosalega vel, þetta hefur aldrei gengið svona vel áður.

Seinni partinn fórum við svo í Go Kart í tilefni þess að Lára átti afmæli! Til hamingju með daginn í gær Lára! :) Við vorum fimm sem keyrðum (ég, Elva Sara, Lára, Elva Rut og Ísak) og við borguðum kringum 3000 kr. íslenskar á mann fyrir að keyra tæplega 50 hringi á brautinni! Fyrst var upphitun, svo voru tímatökur, og loks úrslit þar sem fólki var raðað á ráspóla eftir því hvernig gekk í tímatökunni. Ég byrjaði fyrstur í úrslitunum og hélt foristunni allan tímann og sigraði því með glæsibrag! Að vísu var ég eini vani Go Kart ökumaðurinn en það þarf ekkert endilega að fylgja sögunni. :p

Eftir ótrúlega skemmtilegan kappakstur fórum við á Munkegade þar sem við borðuðum ljúffengan pestókjúkling að hætti Elvu Söru. Hann klikkar aldrei, og ekki var kakan síðri sem við fengum í eftirrétt. Svo hengum við og sötruðum bjór og spjölluðum saman fram á nótt. Mjög skemmtilegur dagur í alla staði.

Í dag var aftur strandblak eftir skóla enda verður að nýta þetta æðislega veður til fullnustu. Svo eyddi ég deginum í að klára endanlega að koma öllu á réttan stað í herberginu mín og tók til og ryksugaði alla íbúðina (sem er ansi stór). Það er orðið mjög fínt hjá mér og ég er ánægður með allt hér á Helligkorsgade.

Fólkið í kringum mig er búið að vera duglegt að setja myndir á netið frá því sem við höfum verið að bralla saman. Allt frá Þingvöllum fyrstu helgina í júní og að síðasta djamminu hér í Kolding! Ég set hér nokkra linka á myndasíðurnar þeirra Láru, Ísaks og Elvu Söru. Þið getið séð hvernig ég lít út með nýju gleraugun mín sem ég keypti í fríhöfninni á leiðinni út! Þess má geta að ég er mjög ánægður með þau og nota þau miklu meira en linsurnar. En hérna koma myndirnar! Later!
Maggi.

- Þingvellir í júní

- AfmælisTaður 2005!

- Kveðjupartýið hjá Láru

- Sólardagur og djamm í Kolding

- Menningarnótt í Kolding

- Nokkrar myndir hjá Elvu Söru úr Go Kartinu
blog comments powered by Disqus