fimmtudagur, janúar 20, 2005

Nú er mér öllum próflokið

Prófin eru búin! Þetta tók nú fljótt af, þrjú próf á þremur dögum og gott að vera búinn. Seinni tvö prófin voru öðruvísi en það fyrsta. Það var erfiðara að undirbúa sig fyrir þau því efnið var ekki svo mikið. Próf númer tvö sem var á þriðjudaginn var í Interaction og þar vorum við spurð út úr kóðanum á síðunni okkar. Þessi próf snúast voða mikið um hvað maður nær að kjafta sig vel útúr þeim (enda heita þau munnleg próf) en ekkert endilega um hversu fær maður er í viðkomandi fagi. Ég fékk níu í þessu prófi og var bara þokkalega sáttur við það, en ég klúðraði einni spurningu í lokin eftir að hafa staðið mig mjög vel. Ég átti alveg að vita svarið en það bara datt útúr mér í smá stund á besta tíma eða þannig. Gústi sem kóðaði vefinn og er betri en ég í þessu fékk átta og stelpa sem er nýbyrjuð í þessu og hefur ekkert komið nálægt kóða áður fékk níu. Þannig að það má alveg deila um sanngirni þessa prófs.

Þriðja og síðasta prófið var svo í gær og var nokkuð furðulegt. Það var Design og við vorum tekin inn eitt í einu og spjölluðum við einn af Design kennurunum, en þess má geta að hann er félagslega þroskaheftur. Það er rosalega erfitt að tala við hann en hann má nú eiga það að það var aðeins auðveldara en vanalega í þessu prófi. Nema hvað. Hann gaf okkur ekki einkunn um leið og hver og einn var búinn í prófinu heldur beið hann með það þangað til við vorum öll búin og tók okkur svo inn öll í einu. Það var ekki svoleiðis í hinum prófunum og það var ekki svoleiðis í Design prófinu hjá öllum hópunum sem voru á undan okkur! Það er auðvitað fáránlegt að nota ekki sömu aðferð við að dæma alla en hann sagði að hann hefði ekki getað gert þetta öðruvísi því hann var í svo miklum vafa með okkur.

Hann var vægast sagt óánægður með vefinn, setti útá öll smáatriði sem hann fann og talaði ekki um neina kosti. Það er mjög erfitt að gera þessum manni til geðs og við vorum svo sniðug að hitta á alla veiku punktana hans, gerðum allt sem hann hatar að sjá á vefsíðum. Heildarútlitið á síðunni okkar var gott, og það segi ég eftir að hafa heyrt það frá öllum sem hafa séð hana. En honum fannst það ekki, eða honum fannst það amk ekki skipta máli. Hann gaf okkur sex sem er lægsta einkunn án þess að falla. Og hann leit út eins og hann langaði að fella okkur! Þannig að þetta dró niður meðaleinkunina mína sem stefndi í að vera ansi góð. En niðurstöðurnar liggja fyrir, Business & Communication = 10, Interaction = 9 og Design = 6. Núna er byrjuð fjögurra daga helgi og hún verður vel nýtt í að fagna próflokum. Á föstudaginn er partý hjá Láru og Elvu til að fagna próflokum og afmælinu hennar Kollu og það er strandþema í partýinu þannig að það mæta allir með sólgleraugu og íbúðin verður skreytt hátt og lágt! Það verður eflaust gaman. :D
Maggi.
blog comments powered by Disqus