fimmtudagur, júlí 03, 2003

Framhald...

Á föstudeginum sáum við Murderdolls (svipaði til Stone Sour, einhver úr Slipknot líka) og Asian Dub Foundation (skrítið rapp eitthvað, hélt þeir væru öðruvísi). Eftir það dösuðum við bara í sólinni á einhverjum bekk og drukkum bjór og horfðum á mannlífið. Um kvöldið var svo komið að Iron Maiden og við fórum snemma á þá þannig að við náðum að vera fremst. Það var fínt, ég er enginn aðdáandi en það var gaman að sjá að gömlu kallarnir kunna ennþá að rokka. Þeir eiga líka nokkur fín lög og alltaf gaman að svona rokktónleikum, sérstaklega þar sem söngvarinn er svona ofvirkur. Ég var þar þó bara í þrjú kortér því ég vildi drífa mig á SigurRós sem voru að fara að byrja. Ég mætti snemma á þá líka og náði að vera fremst. Það að maður náði að vera fremst þýddi miklu minni troðning því það var bara hleypt inn í hólf sem voru fremst fyrir framan hvert svið ákveðið mörgum þannig að það var rúmt um mann. SigurRós voru góðir að vanda, en þó þótti mér þeir betri í desember í Háskólabíói. Kannski var það af því að áhorfendurnir (það sáu 20 þús. manns þessa tónleika) voru iðnir við að klappa inní miðjum lögum og vera með læti sem fór í taugarnar á mér. Svo var gaur beint fyrir framan mig sem ætlaði að vera svo sniðugur að kasta vatni yfir fólkið fyrir aftan sig (það voru rétt vatnsglös til þeirra sem voru fremst og var heitt) en það tókst ekki betur til en að hann sturtaði öllu vatninu beint yfir mig og ég stóð þarna rennblautur á SigurRósartónleikum með krosslagðar hendur og boraði gat á hausinn á gaurnum með augnaráðinu. Ég var næstum búinn að hjóla í hann en taldi uppá tíu og hugsaði með mér að ég myndi ekki láta hann eyðileggja fyrir mér þessa tónleika. Eftir SigurRós voru Coldplay að spila en ég sá lítið af þeim því ég er nýbúinn að sjá þá tvisvar hérna heima og fór frekar niðrí tjaldbúðir og fór í hlýrri föt því það var stundum svoldið svalt á kvöldin. Ég kíkti þó á restina á Coldplay þegar ég kom til baka og þeir voru mjög fínir bara. Ég fór svo yfir í Metropol (techno tjaldið) þar sem Darren Emerson var að spila og dansaði þar einn (en nottla með fullt af fólki) því ég var búinn að týna strákunum eins og gengur og gerist. Fann þá svo aftur ég ég hafði litla orku í meira djamm eftir útrásina sem ég fékk í technoinu.

Innskot:
Á tónleikasvæðinu var líka rosalega margt hægt að gera til að drepa tímann og leika sér. Ég nenni ekki einu sinni að fara í það allt. Þetta var mjög stórt svæði með sex stórum tjöldum þar sem var tónlist mest allan tímann, og svo fullt af svæðum til að hanga á eða gera eitthvað snðiugt. Alla dagana var fólk labbandi um með einhverja gjörninga, ástarofurhetjurnar voru sniðugar, gengu um og föðmuðu alla og gáfu fólki "License To Love" límmiða. Fullt af fólki í allskonar búiningum sem vildi bara fá fólk til að hlæja og það tókst oftast. Mjög skemmtileg stemmning bæði á tjaldsvæðunum og tónleikasvæðinu allan tíman.

Laugardagurinn var slakasti tónleikadagurinn. Ég sá eitthvað smá af Xploding Plastix, Melvins, Tomahawk og Fu Manchu. Ekkert af þessu var að gera neina snilldarhluti, en var heldur engin leiðindi nema Melvins sem mér þóttu leiðinlegir og varla hægt að kalla tónlist. Um kvöldið voru svo Blur og The Cardigans en ég sá ekkert af þeim útaf stelpuveseni á mér, tala kannski meira um það seinna. Ég frétti líka að þeir hefðu verið leiðinlegir þannig að ég missti víst ekki af miklu. Ég nennti lítið að djamma því ég var á einhverjum bömmer (útaf fyrrnefndu veseni) og fór því að sofa. Þó var gaman frá því að segja að ég hitti skemmtilegt fólk sem ég þekki þarna um kvöldið og hékk smá með þeim, og það voru einmitt þau sem kynntu mig fyrir borgurunum ómótstæðilegu.

Á sunnudeginum hékk ég með Tomma Young Hróarskeldugúrú og fólkinu hans og var það fín tilbreyting. Við kíktum á The Thrills, Xibit og vorum fremst á Queens of The Stone Age. Þetta voru allt ágætis tónleikar, en ég fór af Queens til að fara á Bonnie 'Prince' Billy og Massive Attack. Hvorugir voru að gera neinar rósir en það var gaman að heyra Teardrop með Massive Attack læv. Eftir það hitti ég Halldór Karl og Geira og var með þeim restina af kvöldinu. Við fórum að sjá Björk og þar gerðist svolítið sem ég átti alls ekki von á. Hún stal senunni algjörlega og var með lang bestu tónleikana á hátíðinni! Þeir voru alveg æðislegir og ekkert nema snilld! Hún er nottla frábær söngkona og tónlistarmaður og hefði það verið nóg til að halda uppi þessum tónleikum, en hún var líka með svo æðislegt show í kringum þetta allt að maður bara gapti! Brjáluð flugeldasýning fyrir ofan sviðið og eldur útum allt á sviðinu, og þegar ekki var allt vaðandi í eld og flugeldum þá voru mjög flott myndbrot á risatjaldi aftast á sviðinu sem fönguðu steminguna í laginu sem var verið að spila. Taktarnir hjá henni eru svo flottir og það ætlaði allt að brjótast út í reif stemmningu þegar hún var að spila sum lögin. Þetta voru án efa bestu tónleikarnir á hátíðinni, og meira að segja þeir bestu sem ég hef farið á. (Að vísu verð ég að undanskilja tvenna SigurRósar tónleika ('99 og '02)því þeir voru allt öðruvísi góðir). Maður var stoltur af að vera Íslendingur þarna þótt maður sé eiginlega hættur að hugsa þannig um Björk. Ég er barasta orðinn Bjarkar aðdáandi núna held ég bara svei mér þá.

Eftir þessa æðislegu tónleika fór ég með strákunum á þeirra tjaldsvæði og hitti nýja Íslendinga og djammaði með þeim eitthvað fram eftir nóttu. Daginn eftir fórum við inní Köben og fundum okkur ódýrt en gott hótel því við áttum ekki flug fyrr en daginn eftir. Kíktum auðvitað á pöbbarölt á Strikinu og það var skemmtilegt síðasta kvöld. Þriðjudagurinn fór svo í bið eftir fluginu sem var ekki fyrr en seint um kvöldið. Ég komst með og ekki nót með það þá var ég á Saga Class! Djöfull var það næs, endalaust pláss og dekrað við mann alla leiðina. Það var gott eftir læti vikunnar þar á undan. Þó var ég kominn með hálsbólgu og er enn með en það verður víst að hafa það. Þá er ég búinn að lýsa öllum dögunum fyrir sig og held ég láti þetta nægja í bili því mér er farið að verkja í puttana og ég er búinn að skrifa allt allt of mikið! Ég á þó eftir að skrifa meira en það kemur seinna.

Vil bara enda með því að undirstrika hvað þetta var frábært. Stemmningin á svæðinu, fólkið, veðrið, tónleikarnir, þetta var allt alveg frábært og er engin spurning að ég verð þarna á næsta ári. Og þar á eftir og þar á eftir. Þið sem öfundið mig af að hafa farið, ég skil ykkur alveg og þig megið alveg vera öfundsjúk! En ekki blóta mér fyrir að hafa farið, þið skulið frekar bara ákveða að fara á næsta ári, því ég veit um svo marga sem hefur langað lengi að fara en ekki látið verða af því. Drífðu þig bara! Það er ekkert flókið! Ég lofa þér því, þú sérð ekki eftir því.
..:: brand new roskilde fan ::..
blog comments powered by Disqus