Love is in the air...
En ekki fyrir mig samt. Mér finnst ég samt alltaf verða var við ást útum allt og það getur verið svolítið pirrandi. En samt ekki. Gott að vita að það eru ekki allir jafn óheppnir og ég. Vá hvað ég hljóma eins og gamall bitur piparsveinn, en það er ekki tilgangur þessarar færslu. Mig langaði að tala um fólk sem ég sá á Hróarskeldu. Ekki bara fólk almennt, heldur tvær manneskjur sem ég sá þegar ég var að horfa á Massive Attack spila lög sín í Arena tjaldinu. Mér fannst þeir ekkert sérstakir og horfði því mikið á fólkið í kringum mig, og bara rétt fyrir framan mig var par. Hann var hvítur, með skegg, í stuttbuxum, kannski svona þrítugur. Hún var aðeins dekkri á hörund, leit út fyrir að vera frönsk eða eitthvað, aðeins eldri en hann en ekki mikið. Hún var voða lítil og hann virkaði stór miðað við hana þótt hann hafi bara verið svona meðalmaður.
Það skiptir svosem ekki máli hvernig þau litu út, ég var bara að segja frá því til að benda á hversu ólík þau voru. Þau litu út fyrir að vera frá sitthvoru landinu og sitthvorri menningunni. Þau gætu þess vegna bæði hafa verið dönsk, ég minnist ekki að hafa heyrt í þeim tala þannig að ég veit það ekki. Mest allan tímann stóð hún þétt uppað honum og snéri að honum og horfði upp á andlit hans og brosti. Ég hef aldrei séð jafn mikla ást skína úr augum og andliti einnar manneskju áður. Augun hennar tindruðu og hún brosti og var svo hamingjusöm í faðmi hans að ég bara gat ekki hætt að horfa á þau. Þau voru alein í heiminum, horfðu bara á hvort annað og kysstust stundum. Þau voru svo ástfangin að það var æðislegt.
Ég veit ekki hvort þau kynntust þarna um daginn eða höfðu þekkst allt sitt líf. Ég giska á eitthvað þar á milli, frekar nýlegt par sem fór saman á Hróarskeldu, en hefðu getað verið hvar sem er, bara ef þau væru saman þá væru þau jafn hamingjusöm. Myndin af andliti hennar er alveg gróin í huga mér. Kannski náði ég ekki að lýsa þessu alveg nógu vel, en mér fannst alveg frábært að sjá þau saman og langaði að reyna að deila því með ykkur. Mig langar í svona.
Þið getið alveg búist við fleiri sögum af Hróarskeldu fljótlega, so stay tuned! Og á morgun fæ ég myndirnar sem ég tók (og sem ég eyddi morð fjár í að framkalla) og það er aldrei að vita nema ég nenni að skanna eitthvað af þeim og setja á netið ef þær eru flottar, en þetta voru einnota myndavélar svo það gæti brugðið til beggja vona. Vonum það bezta.
..:: max ::..
Halló heimur!
Fyrir 2 árum