þriðjudagur, júlí 08, 2003

Stelpumál á Hróarskeldu


Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri á Hróarskeldu 2004, semsagt það var liðið ár og ég var mættur aftur á svæðið. Það var eitthvað búið að breyta svæðinu og ég held ég hafi verið að leita að strákunum. En svo fór ég að hugsa, bíddu það er ekkert svo langt síðan ég var úti, það er ekki sjens að það sé liðið heilt ár! Mig bara hlýtur að vera að dreyma. En í stað þess að vakna þá ákvað ég að nýta tímann og læra inná nýja skipulagið fyrst ég var nú einu sinni mættur þarna og ætla að fara að ári. Svona getur maður verið skrítinn. Ég vissi að mig væri að dreyma en fattaði samt ekki að mig gat ekki mögulega verið að dreyma svæðið eins og það verður á næsta ári! Eða hvað...

Ég fékk símhringingu í dag. Það var æstur aðdáandi bloggsins míns sem heimtaði framhald af Hróarskeldusögunni (ok ég ýki smá, en símtalið átti sér stað). Ætli ég tali ekki bara um stelpumálin núna. Ef þú þekkir mig eitthvað þá býstu eflaust við því að þau hafi verið algjörlega misheppnuð. Og það er alveg laukrétt. Ég er farinn að halda að það vaki yfir mér illur andi sem lokar algjörlega á alla sigra í þeim málunum. Allavega. Áður en hátíðin sjálf byrjaði, ég held það hafi verið á miðvikudeginum, þá kynntumst ég og Stony nokkrum dönskum stelpum. Við röltum með þeim um svæðið og spjölluðum við þær og kíktum með þeim í eitthvað tjaldbúðapartý hjá dönsku fólki sem þær þekktu. Ég varð soldið skotinn í einni þeirra, köllum hana bara Louise, því hún heitir það. Louise var voða sæt og saklaus stelpa eitthvað en mjög skemmtileg og var alveg að fíla mig líka. Ég held amk að það hafi ekki verið bara í hausnum á mér (þótt ég hafi verið búinn með nokkra bjóra). En auðvitað um leið og ég var farinn að fíla hana þá segir hún (eða vinkona hennar) mér að hún eigi kærasta! Go figure! Auðvitað, hlaut að vera. Hann var ekki á svæðinu, og þrátt fyrir tilraunir mínar til að sannfæra hana um að hann væri ekki nógu góður fyrir hana (ekki mjög göfugmannslegt kannski, en bjórarnir áðurnefndu voru farnir að segja til sín) þá fékkst hún ekki einu sinni til að kyssa mig. Og ég hitti hina dönsku Louise ekki aftur.

Á laugardagskvöldinu þegar ég og Stony vorum búnir að hitta slatta af nýjum vinum frá Keflavík og sátum fyrir utan eitthvað tónleikatjald, þá sá ég þessa líka sætu stelpu sem hljóp um og safnaði glösum. Ég ætti kannski að minnast á að maður fékk 1 kr. danska fyrir hvert plastbjórglas sem maður skilaði inn (12 kr. ísl) þannig að maður var ekki lengi að komast upp í ágætis summu. Ég gerði þetta tildæmis eitt kvöldið og drakk frítt það kvöld en nennti þessu svo ekki lengur. En það voru margir sem gerðu þetta að ganni sínu og hún var ein af þeim. Við vorum með nokkur bjórglös þarna þannig að ég safnaði þeim saman og hljóp til hennar til að gefa henni. Rómantískt finnst ykkur ekki? Ég fór svo auðvitað að tala við hana og þá kom í ljós að hún var jafnaldri minn, lítil sæt norsk stelpa sem heitir Kamilla. Ég bauðst auðvitað til að hjálpa henni að safna fleiri glösum og við röltum saman um stórt svæði og spjölluðum saman þangað til að hún fann vini sína. Þau ætluðu svo að fara að sjá Blur og buðu mér að koma með sem ég þáði auðvitað. Ég hékk með þeim í svolítinn tíma, örugglega tæpa tvo klukkutíma og það var bara gaman. Ekki sáum við mikið af Blur en það var allt í lagi. Laugardagurinn var hvort sem er slakasti dagurinn tónleikalega séð. En þegar Kamilla var orðin of full (hún keypti sér líka bjór fyrir peningin af glösunum eins og ég hafði gert) fór hún og ældi. Þá var maður ekki alveg jafn spenntur en hélt að hún myndi kannski jafna sig og verða ekki jafn full eftir það. En þegar hún kom til baka varð allt eins og þegar konan stakk lyklinum í litla boxið í Mulholland Drive. Það varð allt stórfurðulegt og meikaði ekkert sens! Hún misskildi eitthvað sem ég sagði og vinkona hennar var ekkert að fíla mig og þær fóru bara að bulla eitthvað og ég var að reyna að útskýra sjálfan mig en hún henti húfunni minni burtu og var bara fúl! Og þegar ég fór að leita að húfunni dró vinkona hennar hana í burtu! Hún kallaði á mig að koma líka (sem ég skil ekki heldur) en ég ákvað að mig langaði meira að finna húfuna mína aftur því þetta var hvort eð er dauðadæmt eftir þetta kjaftæði. Og ég sá þau aldrei aftur. En húfuna fann ég eftir dúk og disk. Úff hvað ég er alltaf heppinn. Eeeeeða þannig.

Síðasta kvöldið var svo stelpa sem ég var alveg að fíla. Hún var líka frá Noregi og talaði ensku með breskum hreim. Með geggjað hár, eldrauða dreadlocks og var mjög skemmtileg og gáfuð stelpa. En það var einhver gaur að dandalast í kringum hana þannig að ég kom mér í burtu. Hún var samt alveg að fíla mig og ég veit það, en ég vissi að þetta yrði hvort sem er alveg jafn dauðadæmt og allt hitt. Djöfullinn að vera svona óheppinn alltaf. Og í hvert einasta skipti sem eitthvað svona kemur fyrir mig (og það er ekki sjaldan) þá fer ég að efast um sjálfan mig og það er verst af öllu. Maybe it's me. Maybe it's me...
..:: just me ::..
blog comments powered by Disqus