laugardagur, október 24, 2009

Ungverjaland

Afskaplega lítið veit ég um Ungverjaland. Ég veit þó að það er eitt af... fjölmörgum löndum sem eiga landamæri að Austurríki og þau landamæri eru í austri Austurríkis. Á morgun er för okkar heitið til Búdapest, höfuðborgar Ungverjalands, og því munum við vakna eldsnemma (fyrir klukkan sjö!) og fara til Linz þar sem bíður okkar langferðabíll. ("Þetta er engin helvítis rúta, þetta er langferðabíll!")

Planið er að skoða þessa (eflaust) flottu borg með túristarútum (sem eru líklega á tveimur hæðum og efri hæðin opin), kíkja út á lífið, versla jafnvel svolítið, og hvað annað sem okkur dettur í hug. Reyndar hefur þetta verið allt ákveðið fyrirfram af einhverjum í skólanum okkar en við höfum ekki fengið að sjá nákvæma dagskrá ennþá. Vonand er hún góð og hótelið okkar líka. Þetta er pínulítið eins og óvissuferð því við vitum svo lítið hvernig þetta verður! Ef þú ert búinn að lesa þessa færslu þá veistu nákvæmlega jafn mikið og ég um ferðina. Ef þú hefur komið til Búdapest veistu eflaust meira.

Myndavélin verður á lofti og ég set eflaust myndir á Facebook. Vonandi verður helgin ykkar góð, og ef þú sérð þetta Halla, skilaðu kveðju til Jóns Arnars og vonandi líður honum ágætlega í puttanum. Pabbi sagði mér hvað gerðist og ég vorkenni honum alveg afskaplega mikið! En hann er stór og sterkur og tekst eflaust á við þetta eins og sannur karlmaður. :)

Maggi frændi.

sunnudagur, október 18, 2009

Stöcklgraben 5, Hagenberg im Mühlkreis

Jæja, við erum komin með netið heima þannig að það er ekkert annað í stöðunni en að byrja að blogga! Við erum búin að vera í Hagenberg í þrjár vikur og það gengur bara mjög vel. Það eru allir ótrúlega almennilegir, skólafélagar okkar og kennarar, fólkið sem leigir okkur og sérstaklega vinir okkar Hannes og Helene. Þau eru búin að bjarga okkur svo oft, ég veit ekki hvað við hefðum gert hér án þeirra. Það er margt skemmtilegt framundan, næstu helgi t.d. erum við að fara til Búdapest með skiptinemum hér úr skólanum og vinir okkar ætla að koma með okkur. Ósk er búin að vera dugleg að nota netið í skólanum til að blogga, þannig að kíkið endilega þangað til að sjá hvað við erum búin að vera að bralla.


Húsið okkar. Skólinn er upp og til vinstri, þar sem stendur Softwarepark.

Maggi.