laugardagur, febrúar 27, 2010

Kristjánshöfn

Bike
Þá er austurríska ævintýrinu lokið. Síðustu dagarnir okkar áður en við fórum aftur til Danmerkur voru heldur betur viðburðaríkir. Við fórum á handboltaleik, fórum á skíði og héldum partý eins og ég minntist á í síðustu færslu. Ég fékk skíðabakteríu eftir að við fórum á skíði og við ákváðum að nýta tækifærið fyrst skíða-útsölurnar voru byrjaðar og kaupa handa mér skíði! Þannig að við skelltum okkur til Linz og ég fékk mér svaka flottar græjur á hálfvirði, og ég hlakka ótrúlega mikið til að fara til Akureyrar um páskana og prófa þær. Við nýttum ferðina til Linz vel því við skelltum okkur líka á Ars Electronica safnið með Hannesi og það var virkilega skemmtilegt. Með skemmtilegri söfnum sem ég hef komið á.

Eftir þessa viðburðaríku viku tók við helgi sem var undirlögð verkefnavinnu. Við þurftum að klára stóra verkefnið okkar og áttum ansi mikið eftir. Einu pásurnar sem við tókum voru til að horfa á undanúrslitaleikinn við Frakkland í EM, og úr því að við töpuðum honum þá lentum við á móti Póllandi í leiknum um þriðja sætið. Það var lán í óláni hjá okkur því Rafa l vinur okkar er frá Póllandi og okkur langaði mikið að horfa á Ísland - Pólland einu sinni í keppninni. Við horfðum á leikinn hjá Rafal og það var mjög gaman, sérstaklega af því að við unnum! :)

Okkur tókst að klára verkefnið okkar og eftir helgina sýndum við kennaranum okkar það. Við fórum líka á tvær aðrar kynningar á verkefnum og þær tókust bara vel. Við tókum semsagt engin próf heldur áttum bara að skila verkefnum í öllum áföngunum. Svo voru öll verkefnin sýnd á sérstökum kynningum og við fengum spurningar frá kennurunum og nemendum um vinnslu verkefnisins. Við misstum þó af þremur kynningum því við þurftum að koma okkur aftur til Danmerkur og byrja á næstu önn. Við þurftum að kveðja alla nýju vini okkar sem var frekar sorglegt, en vonandi munum við hitta þau flest aftur. Við vitum í það minnsta að bestu vinir okkar úr Hagenberg munu koma til Danmerkur eða Íslands einhvern daginn, en suma mun maður aldrei hitta aftur.

Áður en við flugum frá Austurríki stoppuðum við tvo daga í Vín hjá Mandý og fjölskyldu. Það var gaman að fá að hitta þau einu sinni í viðbót, við áttum heldur betur margar góðar stundir með þeim í Vín og Nóru og fjölskyldu í Passau á önninni. Á föstudeginum 5. febrúar flugum við svo til Danmerkur. Við vorum með hvorki meira né minna en níu töskur og eitt par af skíðum! Það var frekar skrautlegt að taka lestina uppá flugvöll, við tvö að drösla tíu hlutum með okkur. Við vorum þó búin að borga fyrir töskurnar fyrirfram þannig að við þurftum enga auka yfirvikt að borga. Reyndar stálumst við með allt of mikinn handfarangur, en það slapp einhvernvegin fyrir horn. :)

Það er voða gott að vera komin aftur í íbúðina okkar. Við þurftum að flytja allt dótið okkar aftur heim, því það var í geymslu hjá Jóa og Rakel, og það tók nokkra daga að koma okkur fyrir aftur. Fyrstu dagarnir, og því miður vikurnar, fóru í að skrifa skýrslur um önnina okkar fyrir skólann hér í Köben. Við þurftum að gera eina skýrslu um verkefnin sem við unnum og aðra um aðstæðurnar í Hagenberg.

Um miðjan mánuðinn héldum við svo partý sem var hálfgert afmælispartý fyrir Birnu sem átti afmæli fyrr í mánuðinum. Við buðum íslensku vinum okkar og vinum okkar úr Medialogy líka. Það var mjög vel heppnað og eiginlega ótrúlegt að engir nágrannar hafi kvartað! :)

Ég er búinn að kaupa mér mánaðarkort í líkamsrækt, og sú líkamsrækt snýst ekki um að lyfta lóðum eða hlaupa á hlaupabretti. Ég get valið milli þess að fara í Kickboxing, Jiu Jitsu, Rosstraining, Kettlebells eða Mixed Martial Arts. Ég er búinn að prófa nokkra mismunandi tíma og þetta er hörku fjör, sérstaklega þar sem ég fer þarna með Jóa og Andrési sem drógu mig með í þetta. Ég er allur marinn og blár og rispaður, en það er bara partur af programmet. Vonandi kemst maður í ágætis form við þessi læti.

Það eina sem við eigum að vera að hugsa um núna er að koma mastersverkefninu okkar á skrið, en það hefur gengið mjög hægt svona til að byrja með. Það er bara allt of gaman að búa í Köben! Þetta reddast samt allt vonandi einhvernvegin, það gerir það vanalega. :)

Myndin efst í póstinum er tekin hér á Christianshavn á miðnætti fyrir viku síðan. Það var mjög fallegt og stillt veður og ég ákvað að fara út með þrífótinn og myndavélina og taka nokkrar myndir. Útkoman er á flickr.

Maggi.