Það eru tímamót í mínu lífi. Mér finnst ég standa á krossgötum og mér finnst ég ekki sjálfur eiga völina hvert ég mun halda. Kannski á maður alltaf völina, en þannig er búið um hnútana að sumir valkostirnir eru ekki ákjósanlegir þó þeir séu fræðilega mögulegir. Jæja, kannski fínt að tala ekki of lengi undir rós heldur að koma sér að efninu. Annað hvort mun ég flytja aftur heim til Íslands eða halda áfram að búa í Danmörku. Nú eða ekkert að ofangreindu og ég flyt í eitthvað annað land eða hoppa fyrir lest. Þeir valkostir hljóma ekkert spennandi í mínum augum. Ég hef prófað að búa í fjórum löndum og ferðast helling þannig að ég er ekkert hungraður í að prófa nýtt land, og mig langar mjög mikið að þeysast um á þessari jarðkringlu í nokkra tugi ára til viðbótar þannig að lestin er heldur ekki í boði.
Mér líður vel í Danmörku og ég gæti alveg hugsað mér að búa hér eitthvað áfram. Hér á ég vini, hef réttindi og jafnvel atvinnumöguleika ef ég væri byrjaður að leitast eftir því. Sá galli er á gjöf Njarðar að mig langar ekki að festast, mig langar að enda á Íslandi áður en langt um líður. Ég sakna fjölskyldu minnar og vina heima á klakanum og líður vel að vera Íslendingur á eyjunni okkar fögru. Akkuru flyt ég þá ekki bara aftur á klakann eftir sex og hálft ár í útlöndum? Jú, ég er hræddur um að atvinnuástandið sé ekkert sérstakt í mínum bransa frekar en öðrum og ég hef ekki rétt á bótum á Íslandi á meðan ég væri að leita mér að vinnu því ég hef verið svo lengi í burtu. Þannig að staðan mín er sú að ég sæki um vinnu á báðum stöðum og þar sem ég fæ vinnu þar enda ég í bili. Ef engin vinna gefst þá verð ég eitthvað áfram hjá baununum því þeir myndu nenna að halda mér uppi. Kannski ekki skrítið að mér finnist ég ekki ráða alveg yfir eigin örlögum.
Ég kláraði mastersprófið mitt fyrir tæpri viku síðan. Það er örlítið skrítið að vera búinn með þetta langa nám en samt ekki jafn skrítið og ég hafði búsist við. Himininn var alveg jafn blár eftirá og rónarnir á Christianshavn voru alveg jafn fullir. Óneitanlega er það skemmtileg tilhugsun að þurfa aldrei að hugsa um heimavinnu eða lokaverkefni. Við taka öðruvísi verkefni og aðrar skyldur þegar þar að kemur. Ég nýtti tækifærið sem útskriftin bauð og hélt veislu fyrir vini mína á skemmtistað hér í miðbæ Kaupmannahafnar. Það var virkilega vel heppnað kvöld og sérstaklega gaman að hrella dönsku vini mína með hákarli og brennivíni sem ég hafði komið með frá Íslandi eftir jólafríið. :)
Nú styttist í aðra Íslandsförina á skömmum tíma. Hver veit nema ég rambi á einhverja vinnu á meðan ég er á klakanum! Ég hlakka að minnsta kosti til því það verður nóg að gerast og heimsóknin verður eflaust fljót að líða.
Maggi.