miðvikudagur, mars 29, 2006

Blogga segiði...

Ég er hress að vanda, þótt lítið hafi verið um blogg hjá mér undanfarið. Ástæða? Hmmm... ég veit barasta ekki. Lífið er gott hér í San Francisco, en dvölin okkar fer sko heldur betur að styttast í annan endann. Það er akkúrat mánuður eftir! Tveir þriðju búnir, og maður er næstum kominn heim aftur. Það verður gott að koma heim þótt ég viti líka að ég eigi eftir að sakna San Francisco, þetta er frábær borg.

Við hér í Area 51 (eins og við köllum íbúðina okkar) héldum partý síðasta laugardag. Við buðum öllum NoMA-lingunum að sjálfsögðu, og slatta af fólki sem við höfum kynnst hérna í SF. Þetta varð hörku partý og mikil gleði. Hún var meira að segja aðeins of mikil, og það lýsti sér í töluvert minni gleði daginn eftir. En maður var nú ekki lengi að komast yfir það.

Fólkið fer að týnast heim næstu vikurnar. Paw og Rasmus, dönsku sambýlingarnir okkar, fara fyrstir manna núna á fimmtudaginn. Svo fara Íslendingarnir að fara einn af öðrum, en við sem ætlum á ráðstefnuna í lok apríl förum síðust heim. Biggi ætlar að kíkja í heimsókn í apríl og því ætla ég lítið að vinna yfir páskana þegar hann verður í heimsókn. Það er líka allt í lagi því tæknilega séð er starfsnámið að enda núna í mars. Það verður gaman að rifja upp túrista-taktana okkar Bigga frá því í heimsreisunni fyrir tveimur árum. Vá það eru heil tvö ár síðan. Mikið líður tíminn hratt.

"Til hamingju Ósk með að hafa unnið keppnina í brúarsmíði!" Ég er rosalega stoltur af kærustunni minni. Hún og Máni vinur hennar rústuðu keppninni og kennararnir höfðu aldrei séð svona háan stuðul, þ.e. að svona létt brú hafi þolað svona mikinn þunga. Ekkert smá gaman að eiga svona klára kærustu. ;)

En já allt gott að frétta. Leiðinlegt veður samt. Kuldinn fór, en við tók rigning. Hvað á það að þýða að skella á okkur leiðinlegasta vetri í manna minnum? Við erum í Californiu, það á að vera sól og hiti alla daga. Það er eins gott að apríl verði skárri svo maður hafi nú eitthvað til að monta sig af. :) En nóg af mér, hvað segið þið gott?
Maggi.

sunnudagur, mars 19, 2006

Ocean Beach

Í dag fór ég í göngutúr á ströndinni með iPoddinn minn, myndavélina, linsurnar mínar (bæði í augunum og á myndavélinni), og góða skapið að vopni. Ég tók tæplega 400 myndir og leyfi ykkur að sjá einhvern slatta af þeim. Þær er að finna hérna.

Í gær gerðum við smá tilraun í stúdíóinu. Það var mjög áhugavert.
Maggi.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Göngutúr

Eftir vinnu hjá Elastic í dag rölti ég um miðbæinn þegar sólin var að setjast og tók nokkrar myndir. Þegar ég kom heim fiktaði ég aðeins með nokkrar þeirra í Photoshop. Ég setti þær á netið, enn engir þumlar, og meira að segja mun stærri myndir. Þið sem eruð með hægar nettengingar verðið bara að vera þolinmóð. :) Myndirnar eru hérna.
M.

mánudagur, mars 13, 2006

Myndir, myndir, myndir!

Já, það er kominn tími á fleiri myndir. Í gær héldu David og Tom vinur hans saman uppá afmælin sín. Ég var með myndavélina á lofti og setti inn nokkrar myndir til að leyfa ykkur að vera með! :) Þær eru hér.
Maggi.

laugardagur, mars 11, 2006

Fleiri myndir!

Dagurinn í dag var nú ekki merkilegur en ég hélt áfram að leika mér með myndavélina mína og er að komast uppá lagið með stillingarnar á uppáhalds linsunni minni. Á meðan ég nenni og hef gaman að þá held ég áfram að henda inn myndum hérna á bloggið mitt. Þannig að hérna er næsti skammtur!
Maggi.

föstudagur, mars 10, 2006

Langþráð...

Eins og glöggir lesendur bloggsins míns þá hef ég ekki verið mjög duglegur að setja inn myndir sem ég hef tekið. Ein helsta ástæða þess er að ég týndi myndavélinni minni í apríl sl. Ég hef síðan þá leitað að verðugum arftaka Canon PowerShot G5 vélarinnar minnar og það var ekki fyrr en núna á mánudaginn sem ég fjárfesti loksins í nýrri myndavél. Hún heitir því mikilfenglega nafni Pentax *ist DL (nei ég veit ekki heldur hvað stjarnan þýðir) og er stafræn SLR vél, sú minnsta sinnar tegundar. Hún er líka frekar ódýr miðað við Canon vélar, en í mjög svipuðum gæðaflokki. Margir telja Pentax linsurnar meira að segja vera þær bestu á markaðnum. Ég hef undanfarna daga verið að leika mér að taka myndir og er mjög sáttur með arfta heittelskuðu G5 vélarinnar minnar.

Strax á mánudaginn, sama dag og ég keypti vélina, fann ég notað flass á netinu og ferðaðist langan spöl í lest (tæpan klukkutíma) í austur til að sækja það. Á þriðjudaginn fann ég svo ágæta linsu á eBay og pantaði hana og fæ hana eftir nokkra daga vonandi. Í gær (miðvikudag) fann ég svo linsu á netinu hjá manni sem á heima frekar langt frá borginni, en ég ákvað að skella mér, norður í þetta sinn, og kaupa af honum linsuna. Þegar ég kom þangað eftir rúma klukkutíma rútuferð þá var hann með þrjár linsur sem hann seldi mér fyrir spottprís. Það kom á daginn að ein þeirra var Canon, en það gerir lítið til, ég sel hana bara aftur og fæ eflaust hærra verð fyrir. Í dag keypti ég svo adaptor fyrir linsurnar mínar nýju því þær eru svo gamlar og með öðruvísi festingar en myndavélin mín getur tekið við. Þessi adaptor sem ég keypti þrusuvirkar og ég er búinn að vera að leika mér í dag og prófa mig áfram. Ein linsan sem ég keypti er strax komin í uppáhald. Hún er mjög góð í litlu ljósi, og getur líka tekið myndir með mjög litlu fókus svæði. En eigum við ekki að leyfa myndunum að tala? Hérna eru myndir frá síðustu dögum.
Magnús.

laugardagur, mars 04, 2006

Aaaand... Action!

Á morgun (lau) fer ég á tökustað auglýsingar til að hjálpa til. Shane, gaur sem vinnur hjá Elastic, bauð mér að koma og hjálpa til fyrir 50 dollara. Ég þáði það að sjálfsögðu, ekki fyrir peninginn, heldur að fá að fylgjast með og sjá hvernig svona production gengur fyrir sig. Þetta er auglýsing fyrir einhverja tösku fyrir krakka sem lítur út eins og bíll (eða það held ég amk, eitthvað álíka). Það verða ss krakkar í aðalhlutverkum í þessari auglýsingu. Annars veit ég mest lítið um hvernig þetta verður. Ég segi betur frá þegar þetta er búið. En það er gaman að fá tækifæri til að fylgjast með alvöru upptökum, sama hvað er verið að taka upp.

Það er allt fínt að frétta fyrir utan smá veikindi. Hálsinn á mér sem ég hélt að væri búinn að lagast tók uppá því að versna aftur, þannig að ég er búinn að hanga heima í mestallan dag til að laga þessa hálsbólgu svo ég komist í tökuna á morgun. Veðrið þessa vikuna er búið að vera frekar leiðinlegt eins og spáð hafði verið. Maður bíður spenntur eftir vorinu, en það er vonandi handan við hornið hérna hjá okkur í Californíu. Þið bíðið með vorið heima á Íslandi þar til ég kem heim í lok apríl. Það eru reyndar ekki nema tæpar átta vikur þangað til! Ótrúlegt að ég sé búinn að vera hérna úti í fimm vikur nú þegar. Mikið verður nú gott að komast heim. Hugurinn leitar þangað oft á dag. Af hverju er aldrei hægt að gera allt sem mann langar til í einu? Bless bless, og ekkert kex.
Maggi.