fimmtudagur, desember 28, 2006

Gleðilegt ár!

Ég hef ekki verið mikið fyrir að strengja áramótaheit gegnum tíðina. Finnst það kjánalegt að mörgu leyti. Jújú, fínt að bæta sjálfan sig í hinu og þessu en þarf maður afsökun eins og áramót til þess?

Já, kannski þarf maður það. Maður notar allskonar hluti sem afsakanir til að hjálpa manni að bæta sig og af hverju ekki að nota áramótin? Ég ætla nú samt að byrja rólega í að strengja einhver heit. Ég ætla að bæta mig í hinu og þessu sem ég hef verið að hugsa um, en eina sem ég ætla að strengja heit um er að halda betur utanum fjármálin mín. Ég hef ekki verið nógu duglegur í því, og er pínu forvitinn hvert peningarnir mínir eru að fara.

Hátíðarnar hafa verið æði. Mikill matur, góður félagsskapur, afslöppun og svo meiri matur. En Adam var ekki lengi í Paradís. Nú er það bara prófalestur og próftaka út mánuðinn. Við höldum til DK 4. janúar og fyrsta prófið er daginn eftir. Fjögurra tíma skriflegt próf í forritun. Jább, skriflegt, s.s. með blað og blýant. Skrifa forrit án þessa að nota tölvu, það er bara eins og menn gerðu á miðöldum. En þetta er gert til að fólk svindli ekki og maður hlýtur að skilja það.

En eins og ég segi, nú er það bara próflestur þannig að ég hef engan tíma til að skrifa blogg! :) Vonandi eruði södd og sátt eftir hátíðarnar.
Maggi.

sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól!

Vonandi verða jólin þín kærleiksrík og góð, full matar og drykkjar í góðum félagsskap.
Maggi.

sunnudagur, desember 17, 2006

Andvökunótt

Nú eru verkefnin okkar í skólanum loksins að klárast. Við komum heim á klakann á mánudaginn, en þangað til er brjálað að gera að klára skýrsluna og allt sem þarf að gera áður en við skilum. Ég klippti saman vídjó í dag af prófununum á leiknum okkar sem fóru fram fyrir rúmri viku síðan. Við ætlum að sýna það í prófinu og líka á mánudaginn þegar nemendur fá að sýna hverjum öðrum verkefnin sem þeir gerðu. Hér fyrir neðan er vídjóið! Vonandi hafiði gaman af því. Endilega kommentið ef þið sjáið eitthvað sem má betrumbæta.

Maggi.




þriðjudagur, desember 12, 2006

Stolnar blóðnasir

Og ég fæ blóðnasir
en ég stend alltaf upp.

Þetta eru tvær línur úr laginu Hoppípolla með SigurRós. Ég var fyrst að átta mig á því í dag að þetta er ekkert annað en ritstuldur. Ekki hélt ég að strákarnir í SigurRós yrðu uppvísir að þessu. Það voru einmitt strákarnir í eðalbandinu Chumbawamba sem mæltu þessi orð í laginu Tupthumping frá árinu 1997:

I get knocked down,
but I get up again.

Og strákarnir í Chumbawamba halda áfram:

He sings the songs that remind him
of the good times,
he sings the songs that remind him
of the better times...

Strákarnir í SigurRós gera sér lítið fyrir og stela þessu líka:

Brosandi,
hendumst í hringi,
höldumst í hendur...

Kannski ekki orðrétt en hugtökin eru bersýnilega þau sömu. Ég held við ættum að fara varlega þegar við áfellumst Hannes Hólmstein um ritstuld þegar svona vinnubrögð viðgangast beint fyrir framan nefið á okkur.
Maggi.

E.s: Takk allir fyrir gott partý á laugardaginn!

fimmtudagur, desember 07, 2006

Ósk á afmæli í dag! :)

Til hamingju með daginn ástin mín! :*

Maggi.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Bomberman Evolved

Núna er tölvuleikurinn okkar fullgerður, eða í það minnsta eins fullgerður og hann mun verða, því nú standa yfir prófanir á honum fyrir lokaverkefnið okkar. Við erum með stóra kennslustofu að láni og fólk kíkir í heimsókn til okkar, prófar leikinn og svarar nokkrum spurningum sem munu hjálpa okkur við skýrslugerðina. Tilgangurinn er auðvitað aðallega til að kynnast svona prófunum en við látum sem þetta sé til að við getum þróað leikinn áfram.

Ég setti saman smá vídjó um uppsetninguna á leiknum og má það finna neðst í færslunni. Við tökum líka upp vídjó um prófanirnar og kannski endar það líka á þessari síðu, hver veit.
Maggi.



sunnudagur, desember 03, 2006

Fyrsta árið

Á föstudaginn var ár liðið frá því að ég og Ósk byrjuðum saman. Það hefur ansi mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og ætli stærstu breytingarnar séu ekki að núna búum við saman í Kaupmannahöfn og lærum bæði Medialogy í útibúi Álaborgarháskóla (eins og flestir ættu að vita). Til hamingju með daginn ástin mín. :)

Þegar ég bloggaði síðast vorum við á leiðinni í jólaföndur í skólanum. Það var ansi gaman og föndrið okkar heppnaðist svo vel að við vorum með flottasta skrautið og unnum keppnina! Við vissum reyndar ekki að það væri keppni en það breytti því ekki að við unnum tvo miða á jólahlaðborð sem var haldið í skólanum núna á föstudaginn! Þannig að við ákváðum að eyða afmælinu okkar í að njóta vinningsins og mættum á skólabarinn og gæddum okkur á dönskum jólamat. Hann stóð undir væntingum og var bara ekkert sérstaklega góður. En í heildina litið var föstudagurinn frábær og verður lengi í minnum hafður.

Umferðarljósa-partýið daginn eftir jólaföndrið var haldið á skemmtistað sem höfðaði ekki mikið til okkar og því fórum við snemma heim. Of mikill reykur og fáránleg tónlist spilaði þar stærstan part. En fyrrihluti kvöldsins var vel heppnaður og vorum við langt frá því að vera ósátt með kvöldið.

Nú eru bara tvær vikur þangað til við komum heim! Það er nú ekki mikið búið að plana jólin eins og er, en það verður gaman að koma heim og hitta fjölskyldu og vini. Ólíkt undanförnum árum þá mun ég þurfa að læra mikið fyrir lokaprófin í janúar því þetta nám er heldur erfiðara en það sem ég var í. Þannig að það verður nóg að gera þessar rúmu tvær vikur sem við verðum heima. Sjáumst fljótlega!
Maggi.

E.s: Gleðilega aðventu! :D