þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Sjaldan er ein báran stök

Það var ofsaveður í Danmörku í síðustu viku. Það heitir a.m.k. ofsaveður á danskan mælikvarða en þætti nú ekki stórmál á Íslandi. Í Danmörku er nefnilega enginn á vetrardekkjum og Danir kunna ekki fyrir sitt litla líf að keyra í snjó. Það fara allar samgöngur á annan endann og allt er ómögulegt. Það kom okkur samt á óvart að við skyldum fá póst frá skólastjórnendum á miðvikudaginn um að öll kennsla yrði felld niður daginn eftir. Við vorum ánægð með þær fréttir enda var ég að drukkna úr vinnu bæði frá skólanum og vinnunni minni hjá Víkurfréttum. Ég fékk því aukadag til að sinna þeim skyldum.

Á fimmtudaginn var svo fínasta veður, og við hefðum fengið samviskubit yfir því að mæta ekki í skólann á svona degi ef ekki hefði verið fyrir það að okkur var skipað að vera heima. En það kom okkur virkilega á óvart að fá aftur póst um það að öll kennsla væri felld niður á föstudeginum líka! Við sáum því fram á rólega fjögurra daga helgi og ákváðum að horfa á bíómyndirnar sem eru tilnefndar til Óskarsverðlauna yfir helgina. En...

Það vildi svo óheppilega til að hleðslutækið mitt fyrir tölvuna eyðilagðist. Það var of mikið álag á snúruna og hún juðaðist í sundur. Það væri svosem allt í lagi því Ósk á eins tölvu og eins hleðslutæki. En sama dag eyðilagðist líka hleðslutækið hennar! Það of-hitnaði því það lenti undir sæng og vildi ekki virka eftir það. Við vorum því tölvulaus á föstudeginum og ákváðum að fara niður í bæ í Apple búðina að athuga hvort þeir vildu laga þetta fyrir okkur. Þeir vildu heldur betur ekki samþykkja það og það var ekki fyrr en Hilmar, pabbi hennar Óskar, fór í Apple búðina á Íslandi og athugaði þetta fyrir okkur að þeir loksins samþykktu að taka við biluðu hleðslutækjunum. Það var íslenskur kvenskörungur sem vinnur hjá Apple sendi þeim harðort bréf þannig að þeir gátu ekki annað en samþykkt þetta.

Við ætluðum svo að redda bíómyndamaraþoninu með því að sækja myndirnar uppá nýtt og horfa á þær í tölvunni hans Bigga. Biggi sótti myndirnar og við hófumst handa við maraþonið á laugardeginum með The Queen sem var tilnefnd sem besta mynd. En þegar myndin var tæplega hálfnuð slökkti skjávarpinn á sér! Ég reyndi allt sem mér datt í hug til að koma honum í gang, en það kom í ljós að peran er ónýt! Hún var ekki einu sinni búin að duga eins lengi og hún átti að gera, heldur sprakk hún bara eða eitthvað. Svona pera kostar vel yfir 20 þúsund kr. Þannig að við fórum að þrífa húsið í staðinn. Bíómynda-maraþonið hélt svo áfram á 14 tommu skjánum hans Bigga, ekki alveg það sama og 110 tommurnar sem skjávarpinn sýndi.

Óskarsverðlaunin redduðust líka, horfðum á þau í tölvunni hans Bigga og það var mjög gaman að hafa séð svona mikið af myndunum sem voru tilnefndar. En þessi óvænta fjögurra daga helgi varð ekki jafn skemmtileg og hún hefði getað orðið. Raftækin voru ekki með okkur í liði.
Maggi.
blog comments powered by Disqus