fimmtudagur, janúar 28, 2010

Hálfleikur

Ísland er að vinna Noreg með tveimur mörkum þegar þetta er skrifað. Vonandi vinnum við þennan leik og komumst í undanúrslit! Það væri geggjað. Við Ósk fórum á leik um daginn, sáum Ísland - Austurríki hér í Linz. Það var virkilega gaman þrátt fyrir að hafa misst unnin leik úr höndunum á okkur á síðustu mínútunni. Það var samt gaman að sjá austurrísku áhorfendurna tryllast þegar boltinn lak í markið í lokin, þakið ætlaði að rifna af!

Þetta er ekki það eina sem við erum búin að gera undanfarið, við erum búin að vera ótrúlega iðin, bæði í skólanum og utan hans. Við fórum á skíði á eitt af flottustu skíðasvæðum Austurríkis. Vá hvað það var flott. Endalaust margar brekkur, kringum 40 lyftur, aldrei biðraðir, góður snjór og við fengum mjög gott veður. Það besta var þó eiginlega útsýnið, því hvert sem maður leit sá maður ótrúlega falleg fjöll og snævi þakta skóga. Þetta var ævintýri líkast. Því miður gátum við bara verið þarna einn dag. Ég væri mikið til í að fara í skíðaferðalag hingað einhverntíman seinna, og hitta þá austurrísku vini okkar í leiðinni.

Sama dag og við fórum á skíði var haldið Bad Taste partý í skólanum. Þemað þýddi að allir áttu að klæða sig eins asnalega og mögulegt var. Við Ósk höfðum keypt okkur föt sérstaklega fyrir partýið. Við eyddum þó ekki miklum pening því þetta voru ljótustu fötin sem við fundum á útsölu í H&M. Það var mjög gaman í partýinu þrátt fyrir að við höfum verið virkilega þreytt eftir skíða-ævintýri dagsins.

Við héldum líka partý, það fyrsta og síðasta sem við höldum hér í Hagenberg. Það var fyrir skiptinemana vini okkar og það var mjög vel heppnað. Við spiluðum og drukkum og spjölluðum og skemmtum okkur mjög vel. Þetta er mjög skemmtilegt fólk frá hinum ýmsu löndum hér í Evrópu. Vonandi eigum við eftir að hitta einhver þeirra aftur.

Það er margt annað búið að gerast en leikurinn er að byrja aftur og ég klára að segja frá síðar! ÁFRAM ÍSLAND! :D

Maggi.

þriðjudagur, janúar 12, 2010

Þotuliðið

Í dag eru 24 dagar þar til við förum aftur til Danmerkur. Við eigum s.s. flug frá Vín til Köben þann 5. febrúar! Reyndar byrjar önnin okkar 1. febrúar í Danmörku en tæknilega séð er önnin okkar hérna ekki búin fyrr en 11. febrúar eða jafnvel seinna, þannig að við þurftum að gera smá málamiðlun. Missa smá af hvorri önn. Við þurfum ekki að taka nein próf hér úti þannig að það skiptir ekki öllu máli. Við tökum próf þegar við komum aftur til Danmerkur.

Fyrst maður er að nefna dagsetningar á fullu þá er hægt að minnast á að við erum líka búin að bóka flug til Íslands! Þann 23. mars förum við til Íslands og verðum í þrjár vikur! Við ætlum að nýta tímann og vinna að verkefninu okkar, sem er mjög gott að gera á Íslandi (ef maður er að vinna í samvinnu við íslenskt fyrirtæki) og það spillir ekki fyrir að páskarnir eru akkúrat á þessum tíma! Slá fullt af flugum í einu höggi.

Það gengur vel hjá okkur Jóa, við erum enn að pósta einni mynd á dag á Tumblr síðurnar okkar. Ég (eða öllu heldur nördinn í mér) bætti litlum glugga við hér til hægri á síðunni þar sem sjá má nýjustu myndina sem ég setti inn. Sumir skilja ekkert í mér að þurfa að tengja allt svona saman, en ég hef bara gaman að því. Það skaðar í það minnsta ekkert að hafa þetta þarna. :)

Mig langar að benda á bloggið hennar Óskar, hún skrifaði svaka annál um árið 2009 með myndum og vídjóum og alles. Ég ætla ekki að gera slíkt hið sama heldur læt hennar annál nægja, við gerðum hvort sem er nokkurnvegin nákvæmlega það sama. :)

Maggi.

miðvikudagur, janúar 06, 2010

Jólin og nýtt ár

Þessi jól og áramót voru öðruvísi en áður. Í stað þess að fara til Íslands vorum við Ósk hér í þýskumælandi löndunum með systrum Óskar og fjölskyldum þeirra. Fyrst fórum við til Nóru og fjölskyldu í Passau í Þýskalandi, rétt við landamæri Austurríkis, og vorum þar í tæpa viku. Þar héldum við jólin hátíðleg og höfðum það virkilega gott. Við komum með risa ferðatösku með okkur fulla af pökkum, bæði pökkum frá okkur til fjölskyldnanna tveggja sem voru með okkur og pökkum til okkar frá Íslandi. Maður hefði haldið að fyrst við vorum ekki á klakanum þá fengjum við töluvert færri pakka en vanalega en sú var nú ekki raunin! Ég bjóst líka við því að sakna matarins á Íslandi meira, en við fengum svo gott að borða að það var lítill tími til að velta sér uppúr hangiketsleysi. :)

Planið hafði svo verið að kíkja á skíði með Hannesi og Helenu en úr því að það rigndi svo mikið fyrir jólin að það var voða lítill snjór og við ákváðum að fresta því. Í staðinn fyrir það kíktum við á heimaslóðir Helenu nálægt Salzburg. Salzburg er virkilega flott borg og gaman að heimsækja hana. Við sáum flottustu byggingarnar, borðuðum ekta austurrískan mat og fórum á geggjaðan útýnisstað þar sem við sáum yfir alla borgina.

Yfir áramótin vorum við svo í Vín hjá Mandý og fjölskyldu. Þar héldu veisluhöldin áfram, fengum rosa gott að borða, þ.á.m. súkkulaði-fondu í fyrsta sinn sem var rosa gott. Það var meira sprengt af flugeldum í Vín en við áttum von á, og á miðnætti dönsuðum við vals. Það er hefð í Austurríki, allar útvarpsstöðvarnar spila vínarvals og allir dansa heima í stofu eða hvar sem þeir eru. Áður en við fórum heim aftur til Hagenberg skelltum við okkur öll saman á skauta sem var voða gaman. Við Ósk fórum líka í bíó að sjá Avatar sem var mikil upplifun að sjá í 3D.

Við Jói ákváðum að fara í smá keppni sem byrjaði um áramótin. Kannski er betra að kalla það tilraun. Það snýst um að taka eina mynd á dag og setja hana á netið. Jói er líka kominn með iPhone og því er það frekar lítið mál, bara spurning um að muna eftir þessu. Við notum Tumblr bloggþjónustuna til að pósta myndunum. Ég sett líka hlekk á nýjustu myndina hér til hægri á síðunni.

Myndasíða Magga

Myndasíða Jóa

Ég er líka kominn með nýtt kommentakerfi hér á síðuna. Haloscan hætti og vildi láta mann borga fyrir nýja þjónustu og því fór ég yfir til Disqus. Ekki vera feimin við að nota nýja kerfið! ;)

Nú erum við komin aftur til Hagenberg og lokatörnin er er hefjast. Við förum aftur til Danmerkur þann 5. febrúar. Við erum líka komin með flug til Íslands um páskana! Allt að gerast.

Maggi.