miðvikudagur, janúar 06, 2010

Jólin og nýtt ár

Þessi jól og áramót voru öðruvísi en áður. Í stað þess að fara til Íslands vorum við Ósk hér í þýskumælandi löndunum með systrum Óskar og fjölskyldum þeirra. Fyrst fórum við til Nóru og fjölskyldu í Passau í Þýskalandi, rétt við landamæri Austurríkis, og vorum þar í tæpa viku. Þar héldum við jólin hátíðleg og höfðum það virkilega gott. Við komum með risa ferðatösku með okkur fulla af pökkum, bæði pökkum frá okkur til fjölskyldnanna tveggja sem voru með okkur og pökkum til okkar frá Íslandi. Maður hefði haldið að fyrst við vorum ekki á klakanum þá fengjum við töluvert færri pakka en vanalega en sú var nú ekki raunin! Ég bjóst líka við því að sakna matarins á Íslandi meira, en við fengum svo gott að borða að það var lítill tími til að velta sér uppúr hangiketsleysi. :)

Planið hafði svo verið að kíkja á skíði með Hannesi og Helenu en úr því að það rigndi svo mikið fyrir jólin að það var voða lítill snjór og við ákváðum að fresta því. Í staðinn fyrir það kíktum við á heimaslóðir Helenu nálægt Salzburg. Salzburg er virkilega flott borg og gaman að heimsækja hana. Við sáum flottustu byggingarnar, borðuðum ekta austurrískan mat og fórum á geggjaðan útýnisstað þar sem við sáum yfir alla borgina.

Yfir áramótin vorum við svo í Vín hjá Mandý og fjölskyldu. Þar héldu veisluhöldin áfram, fengum rosa gott að borða, þ.á.m. súkkulaði-fondu í fyrsta sinn sem var rosa gott. Það var meira sprengt af flugeldum í Vín en við áttum von á, og á miðnætti dönsuðum við vals. Það er hefð í Austurríki, allar útvarpsstöðvarnar spila vínarvals og allir dansa heima í stofu eða hvar sem þeir eru. Áður en við fórum heim aftur til Hagenberg skelltum við okkur öll saman á skauta sem var voða gaman. Við Ósk fórum líka í bíó að sjá Avatar sem var mikil upplifun að sjá í 3D.

Við Jói ákváðum að fara í smá keppni sem byrjaði um áramótin. Kannski er betra að kalla það tilraun. Það snýst um að taka eina mynd á dag og setja hana á netið. Jói er líka kominn með iPhone og því er það frekar lítið mál, bara spurning um að muna eftir þessu. Við notum Tumblr bloggþjónustuna til að pósta myndunum. Ég sett líka hlekk á nýjustu myndina hér til hægri á síðunni.

Myndasíða Magga

Myndasíða Jóa

Ég er líka kominn með nýtt kommentakerfi hér á síðuna. Haloscan hætti og vildi láta mann borga fyrir nýja þjónustu og því fór ég yfir til Disqus. Ekki vera feimin við að nota nýja kerfið! ;)

Nú erum við komin aftur til Hagenberg og lokatörnin er er hefjast. Við förum aftur til Danmerkur þann 5. febrúar. Við erum líka komin með flug til Íslands um páskana! Allt að gerast.

Maggi.
blog comments powered by Disqus