miðvikudagur, janúar 19, 2011

Schadenfreude

Ég sá grein í íslenskum fréttamiðli á netinu um daginn þar sem vitnað var í forsetann okkar sem sagði að við gætum nú huggað okkur við það að það væru mörg ríki í Evrópu sem stæðu verr heldur en við í kjölfar efnahagshrunsins. Mér finnst ég hafa heyrt eitthvað í þessum dúr margoft áður og mér finnst það alltaf jafn afkáralegt. Þetta er schadenfreude eins og Þjóðverjarnir kalla það, að gleðjast yfir óförum annara. Er það ekki bara sorglegt að ástandið í mörgum löndum sé virkilega slæmt útaf efnahagshruninu? Það huggar mig að minnsta kosti lítið. Ég skil þá hugsun að "misery loves company", að það sé kannski gott að vita af því að við erum ekki eina þjóðin sem er að berjast í bökkum. Það nær þó ekki lengra en það og maður ætti aldrei að þakka fyrir að einhverjir aðrir hafi það þó verr en maður sjálfur. Það er alls ekki það sama og að vera þakklátur fyrir að maður hafi það gott.

***

Það styttist í skólalok hjá mér! Ég tek eitt próf nú í bláendann á janúar og svo er ég hættur að mennta mig í bili. Það er skrítin tilhugsun og líka sú staðreynd að ég veit ekkert hvað tekur við. Einhvern veginn er ég samt orðinn vanur þeirri tilhugsun að vita afskaplega lítið hvað er framundan og því tek ég þessu öllu saman bara með stóískri ró. Kannski flyt ég til Íslands fljótlega og kannski verð ég aðeins lengur í Danaveldi. Kemur í ljós.

Ég átti frábært og viðburðaríkt jólafrí. Mig langar að telja upp eitthvað af því sem ég gerði eins og ég gerði í lok sumars. Á rúmum þremur vikum í jólafríinu mínu: fór ég á ferna tónleika, þar af þrjá þar sem ég þekkti flytjendurna. Tveir af þeim voru með klassískri tónlist og tveir örlítið poppaðri. Ég fór á tvenn litlujól með vinahópum mínum. Ég hélt gleðileg jól með fjölskyldunni með öllum tilheyrandi hefðunum og fór í jólaboð. Ég fór í frábæra skíðaferð með vinunum til Akureyrar og átti þar líka góðar stundir með fjölskyldunni minni þar. Ég hélt auðvitað uppá áramót og átti magnað ógleymanlegt móment sem slúttaði árinu á fullkominn hátt. Ég djammaði með vinum mínum oftar en einu sinni og oftar en þrisvar, þar á meðal á pub quiz á fimmtudögum, í gamlárs- og nýárspartýjum, á öðrum í jólum og aðra daga sem voru fallnir til þess í þremur mismunandi bæjum og borgum. Ég eyddi tíma með systrum, frænkum og frændum. Fór í bíó, fór í sund, hélt pókerkvöld, og eflaust sitthvað fleira sem ég er að gleyma. Þannig að það má sjá að ég sat ekki auðum höndum!

Annað má segja um janúar þar sem það eina sem ég hef fyrir stafni er að horfa á handboltann og undirbúa prófið mitt. Febrúar verður eflaust viðburðaríkari þar sem ég verð staddur á Íslandi mestallan mánuðinn.

Áfram Ísland! :D

Magnús.