laugardagur, júní 18, 2005

1.270 orð

Loksins get ég sest niður og skrifað færslu á bloggið mitt. Fúff! Það er búið að vera mikið að gera.

Prófið
Þegar ég kom heim frá Íslandi síðustu helgi hófst undirbúningur fyrir próf. Hann fólst aðallega í að semja upphafsræðu fyrir prófið því ef hún er góð þá er restin auðveldari. Á miðvikudaginn vaknaði ég svo snemma og fór beint upp í skóla til að taka próf því ég var fyrstur þann daginn. Þetta eru hálftíma munnleg próf úr öllum fjórum fögunum okkar í einu. Einkuninn er svo gefin útfrá lokaverkefninu okkar (skýrslunni og vefsíðunni), kynningu nemandans í byrjun prófsins (5 mín) og svo prófinu sjálfu þar sem kennarar og prófdómari spyrja útúr verkefninu og námsefninu (20 mín). Kynningin mín gekk bara vel og ég gat svarað spurningunum þeirra, og fékk tíu í einkunn. Danska kerfið er auðvitað svolítið spes, þannig að tíu er eins og níu í kerfinu heima. Ellefu í þessu danska kerfi myndi ég segja að væri eins og tíu heima, og svo er hægt að fá þrettán sem er alveg ofur-gott og gerist bara næstum aldrei og maður þarf að sýna framá gríðarlega umframkunnáttu í efninu til að fá það. En ég er sáttur með tíuna mína. Við í hópnum vorum allir með níu eða tíu og vorum mjög ánægðir með það.

Símanúmerið
Eftir að hafa farið niður í bæ og fagnað með því að fá okkur bjór og að borða á kaffihúsi þá fór ég og keypti mér nýtt símanúmer! Ég týndi nefnilega danska SIM kortinu mínu á Íslandi og því er ég búinn að skipta um númer! Nýja númerið mitt er auðvelt og ég borga mun minna fyrir að hringja og senda SMS þannig að þetta var lán í óláni! Númerið er: +45 285 285 12

Flutningurinn
Svo fórum við og fögnuðum aðeins meira með því að kíkja á annað kaffihús og entumst þar eitthvað fram eftir degi. Eftir að hafa svo misst tvisvar af strætó labbaði ég uppeftir og hófst handa við að henda öllu dótinu mínu í kassa eða poka. Henda, hrúga, eða skófla, skiptir ekki öllu, en ég var amk ekki að pakka! Rebekka og Gústi höfðu byrjað fyrr um daginn og gengið frá öllu sameiginlega dótinu. Svo kom Caroline vinkona Rebekku á stórum bíl og hjálpaði okkur að flytja allt dótið okkar niður í bæ. Dótið hennar Rebekku til Gústa og mitt niður á Munkegade (íbúð Láru, Elvu, Rósu og Snorra) þar sem ég fæ að geyma það fram í ágúst. Ég fæ líka að sofa þar fram að Hróarskeldu. Takk æðislega fyrir mig krakkar!

Ræstitæknarnir
Á miðvikudagskvöldinu var svo stefnt á að fara í smá próflokapartý en Lára og Elva voru að pakka langt fram á nótt og ég var mjög þreyttur eftir daginn þannig að við gerðum ekkert. Stelpurnar fóru svo til Íslands á fimmtudagsmorgninum en ég fór uppá Knud Hansensvej með Rebekku og Gústa til að þrífa íbúðina. Það tók næstum allan daginn og var hver krókur og kimi í íbúðinni þrifinn. Við fengum svo húsvörðinn okkar í heimsókn til að kíkja á ástandið og hann var bara sáttur með íbúðina en sagði okkur að ef við myndum ekki mála sjálf þá væri dreginn 10.000 kall af tryggingunni okkar og málara borgað fyrir að gera það! Hundrað þúsund íslenskar takk fyrir! Þannig að við ákváðum að sjálfsögðu að mála.

Coyote Ugly
Á fimmtudagskvöldið kíkti ég út í klukkutíma því aðal barinn sem krakkarnir úr skólanum fara á er beint á móti Munkegade 6 þar sem ég bý núna þessa vikuna. Ég fékk mér einn bjór og spjallaði við vini mína úr skólanum. Við sátum við barinn og barþjónarnir fóru að raða upp skotglösum á barinn, 30 eða 40 skotum! Við hugsum bara "Vá, hver er að fara að kaupa sér mörg skot?!" en þegar þeir eru búnir að fylla öll glösin af Fishermans þá öskra þeir yfir staðinn "Þeir fyrstu sem koma að barnum fá ókeypis skot!!!" Það varð uppi fótur og fit og allir fóru til að sækja sér skot. Við gipum okkur auðvitað líka, maður fúlsar nú ekki við fríu áfengi. Svo þegar öll staupin voru búin stóð einn barþjóinninn uppá barnum með heila flösku af Fishermans og hellti uppí alla sem vildu! Það fór auðvitað áfengi útum allt, minnst uppí fólkið, en þetta var bara stemmning! Eins og klippt útúr Coyote Ugly.

Málararnir
Á föstudagsmorgninum fórum við svo í málningarbúð og keyptum okkur málningu og allar græjur og hófumst handa við að mála hvíta veggi íbúðarinnar enn hvítari. Camilla vinkona okkar kom og hjálpaði okkur og þetta gekk rosalega vel. Við vorum frá hádegi og fram að kvöldmat að mála alla veggi og loft í íbúðinni. Eftir það fórum við heim til Gústa og Rebekku þar sem við grilluðum barbeque rif og banana með súkkulaði og ís í eftirrétt. Gústi gerði líka kartöflurétt með þessu og þetta var ekkert smá gott allt saman! Ég borðaði yfir mig, en það var samt þess virði! Svo spiluðum við smá og ég og Camilla kíktum svo á Lucca niðrí bæ þar sem útskriftarnemendurnir úr skólanum okkar voru að fagna. Við stoppuðum stutt þar enda mjög þreytt eftir hörku vinnu um daginn.

1.000.000 °C!
Í dag (laugardag) er svo alveg æðislegt veður, heiðskýrt og rúmlega 20 gráðu hiti úti. Ég, Camilla og Johanna fórum uppað kastala í sólbað og fengum okkur svo að borða úti. Það er of heitt ef maður er ekki í skugga! Úff, maður er alls ekki vanur svona hita. Ég er flúinn inn og er að borða frostpinna og ákvað að blogga um undanfarna viku því ekki hef ég haft tíma til þess hingað til! Nú tekur bara við bið eftir Hróarskeldu. Sú bið verður þó hvorki löng né leiðinleg. Ég fer til Horsens í næstu viku og verð með Jóa og Kristjönu og Eyjó sem ætlar að taka forskot á sæluna og mæta í heimsókn nokkrum dögum fyrir Hróarskeldu.

Hróarskeldan
Það er bara vika í hátíðina og það er kominn mikill fiðringur í mann! Ég og Camilla vorum að tala um hvað það er sorglegt að það eru ekki fleiri að fara úr skólanum okkar. Við erum bara þrjú, ég hún og Bjarni, og við erum akkúrat þau sem hafa farið áður! Það er ástæða fyrir því held ég, því ef maður fer einu sinni þá langar mann ekkert að missa af þessu nokkurntíman aftur. Stemningin á svæðinu er svo æðisleg að allir tónleikarnir eru bara bónus ofan á það! Sem er alveg magnað því tónleikarnir sjálfir eru auðvitað geðveikt skemmtilegir líka. Ég er svooo oft búinn að reyna að segja fólki hvað er gaman að vera þarna, en það skilur það bara enginn. Það er ekki hægt að bera þetta saman við neitt á íslandi, maður verður að upplifa þetta sjálfur til að skilja þetta. Þjóðhátíð er frábær, en hún er bara ekki neitt í samanburði við Hróarskeldu! Ég vildi að ég væri betri í að sannfæra fólk að fara því það er ekki sjens að það myndi sjá eftir því. En nóg um þetta. Ef þú sem lest þetta ert að fara á Hróarskeldu þá hlakka ég til að sjá þig þar!

Club Stazi
Í kvöld er eitthvað svaka klúbbakvöld á Republikken sem er kaffihús / bar / skemmtistaður hér í bæ og búist við fullu húsi og mikilli stemmningu. Johanna vinkona hannaði auglýsingarnar og vefsíðuna fyrir þennan stað og því verðum við öll VIP í kvöld og fáum að fara í eitthvað VIP herbergi og svona! :p Alltaf gaman að þykjast vera merkilegri en allir hinir. :D Til hamingju þeir sem nenntu að lesa þetta allt. Kveðja í góða veðrið á klakanum frá góða veðrinu í Danmörku!
Maggi.
blog comments powered by Disqus