Það dreif margt á daga mína í júlí þó ég hafi nú ekki verið iðinn við að rita það á þessa síðu. Ætli það sé ekki besta sönnunin fyrir því að ég hef haft í nógu að snúast, enginn tími til að blogga. Það ber helst að nefna AfmælisTaðinn sem haldinn var með pompi og prakt í tilefni þess að aðeins er eitt ár þar til ég verð kvart-aldargamall. Það var, pardon my french, ógeðslega gaman og þakka ég öllum fyrir komuna sem.. komu.
Helgina eftir Taðinn fórum ég og Ósk í grillveislu hjá XFM og fengum geggjaðan mat. Á laugardeginum fórum við svo saman í rafting ásamt fullt af vinum okkar því hún Camilla vinnur einmitt hjá Arctic Rafting. Það var geggjað gaman og eftir það var farið í heitan pott, grillað og spjallað. Svo var haldið aftur til höfuðborgarinnar í partý hjá Ísaki sem var mjög skemmtilegt.
Fyrir rúmri viku síðan hélt ónefnd vinkona mín, hún Elva Sara, uppá afmælið sitt. Það var um borð í bát, eða lítilli snekkju réttara sagt, og var það mjög vel heppnað teiti og allir skemmtu sér vel. Sumir skemmtu sér meira að segja svo vel að þeir höfðu ekki hugmynd um að þeir hefðu skemmt sér vel!
Í síðustu viku fór ég líka á tvenna SigurRósar tónleika. Þeir fyrri voru á Ólafsvík og voru alveg geggjaðir. Ég, Kristinn og Biggi fórum saman og sátum fimm metra frá sviðinu og ég tók yfir 200 myndir. Þeir seinni voru á Klambratúni og voru þeir skiljanlega öðruvísi en hinir enda ekki jafn mikil nálægð. En þeir voru góðir engu að síður.
Næstu helgi er lengsta helgi ársins að nafninu til, en það er hin sjö atkvæða Verslunarmannahelgi. Ég, Óskin mín og Biggi höfum í ár ákveðið að heiðra Siglfirðinga og nærsveitamenn með nærveru okkar, og aldrei að vita nema fleiri bætist í hópinn. Síldarhátíðin er málið í ár.
Þessa dagana kemst fátt annað að en pælingar í sambandi við húsnæði í Köben. Ég, Ósk, Biggi og Arndís ætlum að búa saman og vantar því að leigja 4ra herbergja íbúð, helst miðsvæðis. Ef þú eða einhver sem þú þekkir eigið eina slíka á glámbekk þá þætti mér mjög vænt um að þú létir mig vita.
Maggi.
E.s: Hvað ætlar þú að gera um Verslunarmannahelgina?