sunnudagur, desember 07, 2008

Til hamingju með afmælið elsku Ósk! :D

Við Ósk, afmælisbarn dagsins, höfum verið að fylgjast með breska X-factor núna í haust og það er flott skemmtun. Leona Lewis, sigurvegarinn í X-factor fyrir tveimur árum, kom í þáttinn um daginn og söng lag sem hún var að gefa út. Þegar ég heyrði hana byrja að syngja lagið þá var ég ekki alveg að kaupa það, því lagið er Run með Snow Patrol, sem er virkilega flott lag og ég hef hlustað á það margoft. En hún er ótrúlega hæfileikarík og tók lagið alveg virkilega vel og því ákvað ég að skella því hérna á bloggið mitt.

Maggi.



föstudagur, desember 05, 2008

Styttist í annan endann

Nú er þessi önn senn á enda liðin! Það var ekki lengi gert. Síðustu tvær vikurnar í hverju lokaverkefni eru iðulega uppspretta mikils álags, svefnleysis og mataræðis sem er ekki uppá marga fiska. Bókstaflega. Það verður ákaflega gott að komast heim í frí.

Maggi.

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

MGMT

Uploaded by www.cellspin.net

föstudagur, nóvember 14, 2008

Makkinn mættur!

Þá er biðin langa á enda! Á miðvikudagskvöldið fékk ég í hendurnar nýju tölvuna mína. Sú er búin að láta bíða eftir sér. Ég ætlaði að kaupa mér nýja tölvu í ágúst en frétti þá af því að það væri meiriháttar uppfærsla á fartölvum frá Apple handan við hornið. Ég bjóst við að þurfa að bíða í nokkrar vikur, kannski mánuð eftir því, en auðvitað létu þeir bíða eftir sér fram í miðjan október. Það hefði svosem verið í lagi hefði íslenski efnahagurinn ekki tekið uppá því að hrynja akkúrat á þessum tíma! Afleiðingin var að þrátt fyrir að ég átti pening til að kaupa tölvuna þá gat ég það ekki því hann var fastur á Íslandi og engin leið að koma honum yfir til Danmerkur.

Að lokum myndaðist glufa og ég gat sent peninginn yfir. Auðvitað tók viku fyrir beiðnina að fara í gegn, aðra viku fyrir peninginn að komast yfir til Danmerkur og þá gat ég loksins pantað tölvuna! Þá tók við enn önnur viku bið því það þurfti að senda tölvuna til mín. Allt þetta er nú yfirstaðið sem betur fer og ég er orðinn alvöru tölvu-njörður á ný.


Við fyrstu sýn og notkun er tölvan alveg frábær! Þrusuvirkar og er rosalega flott. Ég er hæstánægður og vona að það haldist þannig. Ég var hræddur um að skjárinn myndi fara í taugarnar á mér því hann er glansandi en ekki mattur. Ég hefði tekið mattan ef það stæði til boða. En ég verð að segja að það fer lítið sem ekkert í taugarnar á mér og skjárinn er mjög flottur, og bjartur. Lyklaborðið er svart og það er svört umgjörð um skjáinn. Þetta er töluverð útlitsbreyting frá eldri týpunni. Þetta er öðruvísi og venst eflaust fljótt. Hvort þetta sé flottara skal ég ósagt látið, kannski langaði þá bara að breyta til, sem er auðvitað svolítil áhætta því fyrri týpan er virkilega flott.

iMagg.

miðvikudagur, október 15, 2008

Mal

Uploaded by www.cellspin.net

þriðjudagur, október 14, 2008

Second Hand Smoking

Þetta er útkoman úr verkefni sem við Ósk unnum saman. Verkefnið snerist um að bæta tölvugerðum hlut inn í alvöru myndskeið.



Maggi.

sunnudagur, október 12, 2008

Risakisa líður vel hjá okkur :)

Uploaded by www.cellspin.net

mánudagur, október 06, 2008

Meira haust í Köben - Ósk labbar ad strætóstoppinu

Uploaded by www.cellspin.net

laugardagur, október 04, 2008

Kisinn er kominn og hann er frábær! :D

Uploaded by www.cellspin.net

fimmtudagur, október 02, 2008

Haustlitir í Köben

Uploaded by www.cellspin.net

þriðjudagur, september 23, 2008

Risakisi

Við Ósk erum bæði miklar kisumanneskjur og söknum þess að eiga kisu. Ef við myndum fá okkur kisu hér úti myndi kosta um 200 þúsund að flytja hana heim, og ekki myndum við vilja skilja hana eftir. Því auglýstum við á nokkrum vefsíðum hér í Danaveldi eftir kisu til að passa í nokkra mánuði. Nokkrum dögum síðar fengum við svar! Kisueiganda vantaði einhvern til að passa kisuna hennar þar til í mars því þá flytur hún í húsnæði þar sem hún getur haft kisuna. Þannig að eftir eina viku fáum við til okkar kisu sem verður hjá okkur þar til í mars! :)

Kisan er strákur og heitir Bandit. Hann er fimm ára og er risastór eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan! Við hlökkum mikið til að hafa kisu á heimilinu, þótt við fáum ekki að eiga hana.

Maggi.

fimmtudagur, september 11, 2008

iPhone

Er ekki kominn tími á ad endurlífga tetta blogg? Er ad skrifa tetra á nyja símanum mínum sem Ósk gaf mér í afmælisgjöf! Takk fyrir mig ástin mín! Meira sídar. :)

Maggi.

miðvikudagur, júlí 16, 2008

26 ára BSc

Þá er maður orðinn gamall. Ég er kominn með háskólagráðu og orðinn 26 ára frá og með deginum í dag! Svona líður þetta. :)

Maggi.

föstudagur, júní 20, 2008

The Sinking City of Atlantis

Þá er þessi önn á enda! Ég tók lokaprófið ásamt hópfélögum mínum á mánudaginn og það gekk bara mjög vel! Kennararnir og prófdómarinn voru mjög ánægð með verkefnið okkar og töluðu vel um það. Ég fékk tíu í einkunn og er mjög sáttur með þá útkomu, hvernig er annað hægt. :)

Einkunnirnar á önninni voru líka í hærri kantinum í þetta skiptið, og var það mjög verðskuldað. Virkilega flott verkefni hjá öllum hópunum og allir mjög vel undirbúnir. Hér er vídjóið sem við bjuggum til um leikinn okkar sem við sýndum á prófinu. Það útskýrir í mjög grófum dráttum útá hvað verkefnið snýst.



Til að sýna ykkur hvað hinir voru að gera þá eru hér nokkrir linkar á verkefni samnemenda minna. Efsti liknkurinn er fyrir DigiBoard sem er verkefni hópsins hennar Óskar, sem var mjög vel heppnað. :)

- DigiBoard
- Deathmatch Chronicles
- Oculusia: Multi-touch gaming

Svo er það bara Hróarskelda eftir rétt rúma viku! Það er komið á hreint að við munum ekki borga neinn aðgang í þetta skiptið heldur vinna okkur fyrir miðanum með því að safna dósum fyrir gott málefni. Við þurfum að taka þrjár átta tíma vaktir og spörum þennan tæpa þrjátíu þúsund kall sem kostar inná hátíðna samkvæmt genginu í dag! Vonum nú bara að það rigni ekki eins og í fyrra. :)

Maggi.

fimmtudagur, júní 12, 2008

maggi.tk heyrir fortíðinni til... :(

Eins og einhverjir hafa sjálfsagt tekið eftir þá er linkurinn maggi.tk ekki virkur lengur. Í það minnsta sendir hann gestina ekki á bloggsíðuna mína eins og venjan hefur verið undanfarin... tjah... sex ár eða svo. Það er þýsk heimasíða fatafyrirtækisins Espirit sem birtist þegar maggi.tk er slegið inní vafrann. Því legg ég til sjö ára viðskiptabanni allra lesenda þessarar síðu við Espirit og öll möguleg dóttur- og móðurfyrirtæki.

Ástæðan fyrir því að þessi fjandsamlega yfirtaka á léninu mínu átti sér stað er að fyrir rétt rúmum þremur árum borgaði ég fyrir að losna við auglýsingar á síðunni minni. Ég borgaði tæpa 20 dollara fyrir að hafa síðuna án auglýsinga í þrjú ár. Þar sem ég stofnaði þennan aðgang fyrir fjöldamörgum árum síðan þá er hann á mjög gömlu netfangi og það er ástæðan fyrir því að ég fékk engin boð um að endurnýja áskriftina (get ég mér til um). Eitthvað fyrirtæki hefur séð sér leik á borði og stolið undan mér þessu ágæta léni og sankað að sér fleiri tugum gesta í viku hverri. Svona getur fólk verið óprúttið.

Fyrir utan þessa óheppilegu atburðarás, sem verður til þess að ég þarf að breyta nafninu á blogginu mínu, þá er allt gott að frétta. Við skiluðum lokaverkefninu síðasta miðvikudag og vorum bara mjög sátt með það! Því var svo fagnað með ýmsu móti, tónleikum, strandferðum, ferðalagi til Helsingör svo fátt eitt sé nefnt. Í byrjun vikunnar komu svo Halla, Biggi, Bragi Már og Jón Arnar í heimsókn til Köben og voru í tvo daga. Við fórum saman í Tívolí, oft í öll tækin (flestir þorðu í fallturninn), og svo út að borða um kvöldið. Rosalega gaman að fá þau í heimsókn. Takk kærlega fyrir heimsóknina! ;)

Nú á mánudaginn er lokapróf og nú snúast allir dagar um að undirbúa það. Við (ásamt einum öðrum) erum fyrsti hópurinn á önninni sem tekur prófið og það verður voða gott að klára. Við tekur svo að það þarf að mála íbúðina, flytja og þess á milli að vinna í nýju sumarvinnunni minni. Ég hef nefnilega ákveðið að vera "freelancer" í sumar! Er eitthvað annað orð til yfir það á íslensku en "verktaki"? Verktaki hljómar eins og ég sé að taka að mér að byggja tuttugu raðhús í Innri-Njarðvík. Það er ekki það sem ég ætla að gera, heldur mun ég búa til vefsíður, vinna í Flash, og sitt lítið af hverju. Það þýðir að ég get byrjað strax að vinna hér úti, og er reyndar nú þegar byrjaður. Það er tæplega hægt að segja að maður sitji auðum höndum.

maggi (ekki .tk)

sunnudagur, júní 01, 2008

Light at the end of the tunnel

Jæja það styttist í skil! Tveir dagar eftir til að fínpússa skýrsluna og svo er törnin búin! Í bili. Við taka nokkrir dagar til að fagna og slappa af og svo beint í að undirbúa lokaprófið. Þetta gengur mjög vel hjá okkur, lokaspretturinn hefur oft verið erfiðari, en samt hefur þetta tekið á. Ég tók 18 tíma törn á laugardaginn, frá sjö um morguninn til tvö um nóttina, í að lesa og leiðrétta góðan part af skýrslunni. Hún er um 130 síður og á eftir að lengjast eitthvað smá, en endar eflaust í kringum 140 síður í heildina með öllu aukaefni. Hún er bara nokkuð þétt að mínu mati. Ég hlakka liggur við til að fara í prófið því ég get svarað flestum spurningum held ég sem ég gæt verið spurður um verkefnið okkar.

Ef þú ert ekki búinn að sjá Charlie The Unicorn þá mæli ég með því ef þú fílar steiktan húmor. Framhaldið er ekki síðra, og meira að segja betra að mínu mati. Ekki er öll vitleysan eins. :)

Maggi.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Twitter er skenntilet

Glögg augu hafa kannski tekið eftir því að það er kominn nýr kassi hér til hægri sem heitir Twitter Míkróblogg. Twitter er einföld þjónusta sem biður fólk um að svara spurningunni "Hvað ert þú að gera?" með 140 stöfum. Þannig er hægt að fylgjast með öðru auganum með þeim sem maður þekkir! Mjög óþarfar upplýsingar svosem, en samt skemmtilegt. Verst er að ég er frekar einmanna þarna, þannig að endilega vertu með. :)

Maggi.

mánudagur, maí 26, 2008

Lokaverkefni

Jæja! Bloggiblogg!

Það er brjálað að gera í skólanum nú þegar endamarkið nálgast. Við skilum lokaverkefninu okkar þann 4. júní. Svo er það eitt stykki Bachelor lokapróf þann 16. júní og útskrift 27. júní! Ég kem svo heim 9. júlí eftir að hafa kíkt á Roskilde. Bara ef einhver hefði áhuga á dagsetningunum sem skipta máli á næstunni hjá mér. :)

Lokaverkefnið gengur bara vel, við prófuðum það á föstudaginn og fengum virkilega góð viðbrögð. Fyrir þá sem ekki vita (og ætli það séu ekki flestir) þá gerðum við tölvuleik sem veit hvernig spilandanum líður! Þetta hugtak kallast Affective Gaming og er virkilega áhugavert. Það er reyndar ekki komið svo langt að við getum látið tölvuna vita hvernig þér líður, en í þessu verkefni mældum við vöðvaspennu í höndum spilandans og fengum þannig upplýsingar um hversu afslappaður eða æstur spilandinn var. Ef fólk varð of æst þá hægði leikurinn á sér til að fólk gæti komist áfram auðveldlega, og ef fólk var of afslappað þá fór leikurinn hraðar til að fólki leiddist ekki. Fólkið sjálft vissi ekki að leikurinn væri að stjórnast af því hvernig því leið, það átti bara að fá á tilfinninguna að það væri gott "flæði" í leiknum, og það heppnaðist mjög vel samkvæmt niðurstöðum föstudagsins.

Í viðbót við þetta, til að láta fólk hafa sterkari viðbrögð við leiknum, þá létum við fólkið klæðast vesti sem gaf því "haptic feedback", þ.e.a.s. bætti við snertiskynjun í leikinn. Ef leikmaður klessti á óvini þá fékk hann vægt högg frá vestinu, og ef leikmaður dó þá fann hann fyrir því bæði á bringunni og bakinu með potum frá vestinu. Fólki fannst þetta virkilega skemmtielgt og áhugaverð viðbót við leikinn. Leikurinn sjálfur er mjög einfaldur, takmarkið er að komast upp allt borðið með því að hoppa á milli palla og forðast óvini og hindranir. Neðst á skjánum er vatn og vatnsborðið hækkar smám saman og ef maður er ekki nógu fljótur þá dettur maður í vatnið. Vatnið fór semsagt hraðar eða hægar eftir því hversu æst fólkið var þegar það spilaði.

Endum þetta á snilldar Youtube vídjói frá Weezer.



Ef þú vilt sjá öll vídjóin sem var vísað í þá eru þau hér.

laugardagur, maí 03, 2008

Free Hugs

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Henry Ford sagði...

Hvort sem þú trúir að þú getir eða trúir að þú getir ekki þá hefurðu rétt fyrir þér.

Mikið til í því.

Maggi.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Ekkert vín, bara Vín

Við höfum ekki enn náð að fagna próflokum með almennilegu djammi! Vorum í rólegheitunum um helgina bara og það var mjög næs. Í fyrramálið fljúgum við svo til Vínar að heimsækja Mandý og fjölskyldu. Komum heim á sunnudaginn, og svo byrjar næsta önn strax á mánudaginn! Best að fara að sofa í hausinn á sér svo maður vakni til að ná fluginu.

Maggi.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Próflok

Það er rétt hjá Höllu, ég má ekki hætta að vera duglegur að blogga þótt vikan sé liðin! :)

Nú eru prófin búin! Loksins! Loksins! Síðasta prófið mitt var á mánudaginn og það gekk alveg glimrandi vel! Allur hópurinn minn fékk 10 í einkunn. Við voru farnir að efast um að einkuninn okkar yrði góð, því það var mjög margt ábótavant í skýrslunni sem við skiluðum inn. Á prófinu bentum við hinsvegar á alla hlutina sem hefðu mátt fara betur og hvernig við hefðum gert það og það gaf okkur helling af stigum. Í einstaklings hlutanum af próinu stóðum við okkur allir mjög vel líka og það náði að hækka einkunnina upp í tíu!

Prófið fer s.s. þannig fram að fyrst er klukkutíma kynning á verkefninu, og svo er hálftíma munnlegt einstaklingspróf á mann. Fyrir þá sem eru á Íslandi og kunna lítið á danska einkunnakerfið, þá er það nú ekki skrítið því það er fáránlegt. Á síðasta ári tóku þeir sig til og gerðu það ennþá fáránlegra! Í gamla skalanum voru mögulegar einkunnir:

00 03 5 6 7 8 9 10 11 13

Þessar tölur þýddu:

00 03 5 = fall.
6 7 8 9 10 11 = náð, ellefu "hæsta" einkunn.
13 = frábærlega æðislegt (mjög sjaldgæft).

Í nýja skalanum eru bara sjö skref:

-3 00 02 4 7 10 12

Þessar tölur þýða:

-3 00 = fall.
02 4 7 10 12 = náð, tólf er hæsta einkunn.

Já þeir eru ótrúlegir þessir Danir. Stökkin milli einkunna eru ekki einu sinni jöfn, stundum munar tveimur og stundum þremur. Núllin á undan sumum tölunum eru sett til að fólk geti ekki skrifað inná einkunnaspjaldið og til dæmis breytt tveimur í tólf. Að geta fengið mínustölu á prófi er líka alveg magnað! Þetta eru húmoristar.

Við vorum semsagt með 7 fyrir skýrsluna, en stóðum okkur svo vel í kynningunni og í prófinu að við náðum að klóra okkur upp í 10! :D

Óskar hópur fer í prófið í dag. Vonandi gengur þeim vel. Ég hef enga trú á öðru. :) Jæja, nú þarf ég að drífa mig í klippingu. Tveggja vikna fríið þar til næsta önn byrjar er vel nýtt. :)

Maggi.

sunnudagur, janúar 20, 2008

Próóóóf

Jæja, þá er maður á leið í próf enn einu sinni. Sem betur fer síðasta prófið í þessari prófatörn. Ég er búinn að vera hér uppí skóla síðan tíu í morgun og ætla að gista hér. Prófið er svo kl. 9 í fyrramálið og ég fæ að vita einkunnina beint eftir prófið því þetta er munnlegt próf. Gangi mér vel! :)

Maggi.

laugardagur, janúar 19, 2008

Meira YouTube

Þetta er ansi fyndin barátta tveggja sjónvarpsþáttastjórnenda í Bandaríkjunum, Conan O'Brien og Stephen Colbert, um hver þeirra á meira í framboði Mike Huckabee til forseta.




Skelli með öðru myndskeiði þar sem Conan fer í hafnarbolta árið 1864. :)





Maggi.

föstudagur, janúar 18, 2008

Törnin næstum búin

Þessir dagar fara í fátt annað en að undirbúa stóra prófið sem er á mánudaginn. Það fer þannig fram að hópurinn heldur kynningu í klukkutíma (í mesta lagi) og eftir það fara allir hópmeðlimir inn einn í einu og eru þá spurðir spurninga um verkefnið. Inni í prófinu eru tveir kennarar úr skólanum sem voru okkar umsjónarkennarar í vetur, og einn prófdómari sem að þessu sinni er kennari frá DTU. Það er pínu ógnvekjandi að þurfa að sitja fyrir framan þrjá kennara og svara spurningum um þessi fög sem maður hefur bara haft þessa einu önn til að læra. Það fer vonandi allt saman vel. :)

Hér er önnur teiknimynd sem við kynntumst í tíma á önninni, hún heitir Billy's balloon.

Maggi.


fimmtudagur, janúar 17, 2008

Falleg teiknimynd

miðvikudagur, janúar 16, 2008

I'm lovin' it

Stundum er bara einfaldast að láta Makkann sjá um þetta. Það er í lagi svo lengi sem stundum breytist ekki í oft. :)


MaggDónalds.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Loudness war

Hér til hliðar, í krækju-dálkinum mínum, setti ég tvær krækjur á síður sem fjalla um The Loudness War sem er í gangi í tónlistariðnaðinum. Það er ekkert nýtt að tónlistariðnaðurinn snýst um að búa til peninga, og þar sem framleiðendurnir hafa tekið eftir því að fólk er líklegra til að kaupa tónlist sem er með hátt loudness þá hefur hljóðblöndun fyrir geisladiska snúist um það í auknum mæli að framleiða háa tónlist.

Skalinn sem geisladiskar og annað stafrænt efni (t.d. DVD diskar) er hinsvegar ekki gerður til að vera nýttur í botn, heldur á að heyrast munur á hljóðum sem eru há og þeim sem eru lág. Tökum dæmi:


Bryan Adams - Cuts Like a Knife (1983)




Ricky Martin - Livinig La Vida Loca (1999)



Tónlist í líkingu við seinna dæmið er sorglega algeng og eyðileggur upplifunina. Fólk verður meira að segja þreytt og fær hausverk af því að hlusta á tónlist þar sem enginn munur er á hæstu og lægstu hljóðunum. Þetta er ein af ástæðunum af hverju mörgum finnst LP plötur hljóma betur en geisladiskar. Ef þú hefur ekki skoðað það nú þegar, kíktu á þetta afbragðs dæmi frá YouTube um hvernig tónlistin breytist.

YouTube - The Loudness War

Eftir að ég komst á snoðir um þetta skildi ég loksins hvað vinur minn Bob Dylan átti við þegar hann sagði að það hefði ekki komið út plata í áratugi sem hljómaði vel. Vonandi fer tónlistariðnaðurinn að átta sig á þessu fljótlega og snýr þessari þróun við svo tónlist geti aftur farið að hljóma eins vel og hún getur.

Maggi.



Þessi stelpa er ekki sátt við tónlistariðnaðinn.

mánudagur, janúar 14, 2008

Mánudagur

Ef maður ætlar að blogga einu sinni á dag í viku, er þá ekki upplagt að byrja á mánudegi?! :p

Nú er prófatörn hjá okkur Dönunum, tvö próf búin og eitt (og það stærsta) eftir. Stærðfræði og forritun gengu bara ágætlega hjá okkur báðum og nú er bara að massa þriðja prófið sem er eftir viku.

Fríið okkar er svo vel skipulagt. Eftir prófið eru tvær vikur þar til næsta önn hefst og til að byrja með fáum við Dagnýju vinkonu Óskar í heimsókn yfir helgina. Það verður eflaust þrusu-stuð hjá okkur, enda próflokadjamm og svona. Eftir að Dagný fer aftur heim kíkjum við Ósk svo til Austurríkis! Þar ætlum við að heimsækja Mandý og fjölskyldu, en hún er systir hennar Óskar. Um leið og við komum svo aftur heim til Köben þá hefst Bachelor-önnin okkar! Jább, við útskrifumst í vor með Bachelor gráðu! Alveg magnað.

Það þýðir samt ekkert að slá slöku við, því í haust ætlum við að halda áfram og fara í masterinn. Vorið 2010 verðum við semsagt með meistaragráðu í Medialogy! (ef allt fer að óskum)

Jæja, þýðir ekki að segja frá öllu, þá hefur maður ekkert að segja á morgun.

Maggi.


Vissir þú að árið 2008 er hlaupár?

laugardagur, janúar 12, 2008

Ein...

...færsla á dag í viku? Jú ég held að það sé málið. Koma smá lífi í þetta. Bíðið spennt.

Maggi.