miðvikudagur, júní 10, 2009

Hagenberg


IMGP2198, originally uploaded by Magnús Sveinn.

Við höfum staðið í því núna alla önnina að finna góðan skóla eða fyrirtæki til að eyða skiptiönninni okkar hjá. Næsta önn, sem er sú níunda og næstsíðasta í náminu, er skiptiönn og því eiga allir að finna sér eitthvað annað að gera þá önnina. Það hefur gengið á ýmsu hjá okkur, en það sem okkur langaði mest var að fara til Hagenberg í Austurríki. Þar er skóli sem heitir The Upper Austria University of Applied Sciences, og hann kennir akkúrat það sem okkur langar mest að læra. Það er animation og post-produtction og fög tengd því.

Þetta ferli er búið að vera þvílíkur rússíbani, við höfum haldið svo oft að þetta væri að ganga upp, en alltaf klikkaði það. Svo vorum við alveg búin að gefa þetta upp á bátinn þegar okkur var tjáð að það væri enginn sjéns fyrir okkur að taka þátt í mastersnáminu þeirra. En núna fyrir nokkrum dögum kom skólastjórinn þeirra með þá hugmynd að við myndum taka fimmtu önnina í bachelor náminu þeirra. Einn af kennurunum í skólanum stakk svo uppá því að við gætum setið tímana en ekki tekið prófin (því einhver þeirra gætu verið á þýsku) og skrifað þess í stað ritgerð um reynslu okkar og farið í próf hér í Danmörku. Þessi tillaga rann í gegn og allir aðliar samþykktu þetta, bæði í Austurríki og skólinn okkar hér í Danmörku.

Við erum semsagt á leiðinni til Austurríkis í haust til að vera í heila önn! Við erum hæst ánægð með þetta, námið er ótrúlega spennandi og skólinn lítur vel út. Ekki nóg með það, heldur eiga systur hennar Óskar heima rétt hjá okkur! Mandý í Vín í tveggja tíma fjarlægtð og Nóra í Passá í Þýskalandi, einn og hálfan tíma í hina áttina.

Það er fleira sem gerir þetta að hinu fullkomna tækifæri. Það eru tveir skiptinemar frá þessum skóla með okkur á þessari önn í Medialogy. Þau heita Hannes og Helene, og þau verða á staðnum í haust og geta ekki beðið eftir að sýna okkur allt þarna í kring og kynna okkur fyrir vinum sínum. Þau eru bæði mjög skemmtileg og við erum ánægð að þekkja nú þegar fólk í skólanum! Við munum líka fá herbergi á kollegí sem er við hliðina á skólanum, og það er líkara hóteli en kollegíi! Herbergin eru þrifin reglulega og það er skipt um á rúmunum fyrir mann! Svo er mötuneyti í húsinu þar sem maður getur fengið sér að borða fyrir lítinn pening.

Þannig að þetta er allt saman bara draumur í dós og við hlökkum ótrúlega mikið að fara þangað. Skólinn byrjar ekki fyrr en í október sem þýðir að við fáum extra langt sumarfrí á Íslandi, langt fram í september. :)

Myndin efst er úr Kjarrmóanum, ég tók hana á gamlársdag. Ef þið smellið á myndina þá getiði séð fleiri myndir af skýjunum. Ég snerti myndirnar ekkert í Photoshop, þær komu svona beint úr vélinni. Ótrúlegir litir. :)

Maggi.

blog comments powered by Disqus