mánudagur, apríl 04, 2011

Hlustaðu

Þú ert ekki hugsanir þínar heldur meðvitundin þar á bakvið. Egóið talar án afláts í hausnum á þér en þú ert hlustandinn.

miðvikudagur, mars 23, 2011

Af jörðu ertu kominn

Líf myndaðist á jörðinni fyrir ansi löngu síðan þegar aðstæðurnar voru ákjósanlegar. Við mennirnir komum til sögunnar töluvert síðar sem afleiðing af því lífi sem skapaðist. Við höfum með hjálp tækninnar okkar útrýmt ansi mörgum tegundum af dýrum og plöntum og ef við pössum okkur ekki þá gætum við gert þessa plánetu óbyggilega fyrir manninn og jafnvel fyrir þær flestar aðrar tegundir lífs. Þetta er ekki svartsýni heldur staðreyndir. Allt í góðu með það.

Mín pæling er, hvar kemur inní þessa atburðarás sú hugmynd að við séum ekki jörðin okkar? Ef „við“ gerum eitthvað er jörðin þá ekki að gera það sjálf? Er það að við séum með sjálfsvitund nóg til að við séum eitt og jörðin annað? Ef við myndum sprengja jörðina í loft upp, væri hún þá ekki að sprengja sig sjálf?

Er gasið í sólinni ekki sólin? Eru gígarnir á tunglinu ekki tunglið? Er allt ekki partur af öllu? Af hverju höldum við að við séum undanskilin?

„Við erum gestir og hótel okkar er jörðin,“ sagði Tómas Guðmundsson í sínu frábæra ljóði. Þannig líður okkur og kannski er það allt í góðu lagi. Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þetta. Ætli ég sé ekki bara að reyna að segja það sama og oft áður. Það þýðir ekki að taka hlutunum of alvarlega heldur njóta bara ferðarinnar. :)

Maggi.

fimmtudagur, febrúar 03, 2011

Ekkert er í eðli sínu gott eða slæmt

Er ekki gott að vita það? ;)

Maggi.

miðvikudagur, febrúar 02, 2011

Magister

Það eru tímamót í mínu lífi. Mér finnst ég standa á krossgötum og mér finnst ég ekki sjálfur eiga völina hvert ég mun halda. Kannski á maður alltaf völina, en þannig er búið um hnútana að sumir valkostirnir eru ekki ákjósanlegir þó þeir séu fræðilega mögulegir. Jæja, kannski fínt að tala ekki of lengi undir rós heldur að koma sér að efninu. Annað hvort mun ég flytja aftur heim til Íslands eða halda áfram að búa í Danmörku. Nú eða ekkert að ofangreindu og ég flyt í eitthvað annað land eða hoppa fyrir lest. Þeir valkostir hljóma ekkert spennandi í mínum augum. Ég hef prófað að búa í fjórum löndum og ferðast helling þannig að ég er ekkert hungraður í að prófa nýtt land, og mig langar mjög mikið að þeysast um á þessari jarðkringlu í nokkra tugi ára til viðbótar þannig að lestin er heldur ekki í boði.

Mér líður vel í Danmörku og ég gæti alveg hugsað mér að búa hér eitthvað áfram. Hér á ég vini, hef réttindi og jafnvel atvinnumöguleika ef ég væri byrjaður að leitast eftir því. Sá galli er á gjöf Njarðar að mig langar ekki að festast, mig langar að enda á Íslandi áður en langt um líður. Ég sakna fjölskyldu minnar og vina heima á klakanum og líður vel að vera Íslendingur á eyjunni okkar fögru. Akkuru flyt ég þá ekki bara aftur á klakann eftir sex og hálft ár í útlöndum? Jú, ég er hræddur um að atvinnuástandið sé ekkert sérstakt í mínum bransa frekar en öðrum og ég hef ekki rétt á bótum á Íslandi á meðan ég væri að leita mér að vinnu því ég hef verið svo lengi í burtu. Þannig að staðan mín er sú að ég sæki um vinnu á báðum stöðum og þar sem ég fæ vinnu þar enda ég í bili. Ef engin vinna gefst þá verð ég eitthvað áfram hjá baununum því þeir myndu nenna að halda mér uppi. Kannski ekki skrítið að mér finnist ég ekki ráða alveg yfir eigin örlögum.

Ég kláraði mastersprófið mitt fyrir tæpri viku síðan. Það er örlítið skrítið að vera búinn með þetta langa nám en samt ekki jafn skrítið og ég hafði búsist við. Himininn var alveg jafn blár eftirá og rónarnir á Christianshavn voru alveg jafn fullir. Óneitanlega er það skemmtileg tilhugsun að þurfa aldrei að hugsa um heimavinnu eða lokaverkefni. Við taka öðruvísi verkefni og aðrar skyldur þegar þar að kemur. Ég nýtti tækifærið sem útskriftin bauð og hélt veislu fyrir vini mína á skemmtistað hér í miðbæ Kaupmannahafnar. Það var virkilega vel heppnað kvöld og sérstaklega gaman að hrella dönsku vini mína með hákarli og brennivíni sem ég hafði komið með frá Íslandi eftir jólafríið. :)

Nú styttist í aðra Íslandsförina á skömmum tíma. Hver veit nema ég rambi á einhverja vinnu á meðan ég er á klakanum! Ég hlakka að minnsta kosti til því það verður nóg að gerast og heimsóknin verður eflaust fljót að líða.

Maggi.

miðvikudagur, janúar 19, 2011

Schadenfreude

Ég sá grein í íslenskum fréttamiðli á netinu um daginn þar sem vitnað var í forsetann okkar sem sagði að við gætum nú huggað okkur við það að það væru mörg ríki í Evrópu sem stæðu verr heldur en við í kjölfar efnahagshrunsins. Mér finnst ég hafa heyrt eitthvað í þessum dúr margoft áður og mér finnst það alltaf jafn afkáralegt. Þetta er schadenfreude eins og Þjóðverjarnir kalla það, að gleðjast yfir óförum annara. Er það ekki bara sorglegt að ástandið í mörgum löndum sé virkilega slæmt útaf efnahagshruninu? Það huggar mig að minnsta kosti lítið. Ég skil þá hugsun að "misery loves company", að það sé kannski gott að vita af því að við erum ekki eina þjóðin sem er að berjast í bökkum. Það nær þó ekki lengra en það og maður ætti aldrei að þakka fyrir að einhverjir aðrir hafi það þó verr en maður sjálfur. Það er alls ekki það sama og að vera þakklátur fyrir að maður hafi það gott.

***

Það styttist í skólalok hjá mér! Ég tek eitt próf nú í bláendann á janúar og svo er ég hættur að mennta mig í bili. Það er skrítin tilhugsun og líka sú staðreynd að ég veit ekkert hvað tekur við. Einhvern veginn er ég samt orðinn vanur þeirri tilhugsun að vita afskaplega lítið hvað er framundan og því tek ég þessu öllu saman bara með stóískri ró. Kannski flyt ég til Íslands fljótlega og kannski verð ég aðeins lengur í Danaveldi. Kemur í ljós.

Ég átti frábært og viðburðaríkt jólafrí. Mig langar að telja upp eitthvað af því sem ég gerði eins og ég gerði í lok sumars. Á rúmum þremur vikum í jólafríinu mínu: fór ég á ferna tónleika, þar af þrjá þar sem ég þekkti flytjendurna. Tveir af þeim voru með klassískri tónlist og tveir örlítið poppaðri. Ég fór á tvenn litlujól með vinahópum mínum. Ég hélt gleðileg jól með fjölskyldunni með öllum tilheyrandi hefðunum og fór í jólaboð. Ég fór í frábæra skíðaferð með vinunum til Akureyrar og átti þar líka góðar stundir með fjölskyldunni minni þar. Ég hélt auðvitað uppá áramót og átti magnað ógleymanlegt móment sem slúttaði árinu á fullkominn hátt. Ég djammaði með vinum mínum oftar en einu sinni og oftar en þrisvar, þar á meðal á pub quiz á fimmtudögum, í gamlárs- og nýárspartýjum, á öðrum í jólum og aðra daga sem voru fallnir til þess í þremur mismunandi bæjum og borgum. Ég eyddi tíma með systrum, frænkum og frændum. Fór í bíó, fór í sund, hélt pókerkvöld, og eflaust sitthvað fleira sem ég er að gleyma. Þannig að það má sjá að ég sat ekki auðum höndum!

Annað má segja um janúar þar sem það eina sem ég hef fyrir stafni er að horfa á handboltann og undirbúa prófið mitt. Febrúar verður eflaust viðburðaríkari þar sem ég verð staddur á Íslandi mestallan mánuðinn.

Áfram Ísland! :D

Magnús.