miðvikudagur, desember 17, 2003

Samfélag

Æi hvað íslenskt samfélag er eitthvað að fara meira í taugarnar á mér þessa dagana heldur en vanalega. Allt þetta með eftirlaunafrumvarpið og það dót er bara fáránlegt. Björn Bjarnason og fleiri gera sig að fíflum í sjónvarpinu. Ég er næstum kominn á þá skoðun að Björn sé ekki bara ljótasti maður á landinu heldur að hann sé innrættur í stíl. Hef sem betur fer ekki séð mikið af honum en í viðtölum um þetta mál kom hann út eins og leiðinlegur hrokagikkur, spilltur af völdum og eigin spegilmynd.

Ég las söguna hans Togga sem birtist í Mogganum og hún snart mig auðvitað eins og flesta. Það er alveg ótrúlegt að þetta samfélag, sem að mínu viti hefur möguleika á að vera betra en flest önnur, getur hundsað svona mál og fleiri. Ekki bara mál geðveikra, heldur líka fatlaðra og fátækra til dæmis. Það þarf ekki svo mikinn pening til þess að redda þessum málum ef mið er tekið af veltu þessa samfélags. Mér finnst að menn sem skaffa sjálfum sér og samstarfsmönnum mörg hundruð milljónum hver í eftirlaun á meðan svo mikil eymd er ríkjandi í þjóðfélaginu ættu að skammast sín. Þetta eru mennirnir sem ráða og segjast auðvitað vera í góðum tengslum við þjóðfélagið.

Æi, ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu þegar ég fjalla um stjórnmál. Eins barnaleg og auðveld þér þykir sú skoðun mín vera, þá hef ég bara óbeit á stjórnmálum yfir höfuð. Auðvitað hef ég mínar skoðanir, en ég reyni að leiða hjá mér svona vitleysu því ég er bara einn maður og get litlu breytt. Auðvitað er hægt að segja að ef allir hugsuðu svona þá væri sjálfkrafa engu hægt að breyta, en ég leyfi mér að fullyrða að mín skoðun er ekki sú sem kemur öllu í samt lag. Það er auðveldara að þykjast vita betur úr fjarlægð.
..:: maghcen ::..
blog comments powered by Disqus