mánudagur, maí 30, 2005

Surprize!!!

Það er víst ekkert leyndarmál lengur! Kallinn er kominn á klakann! Fyrir rúmri viku síðan ákvað ég að fara til Íslands að heimsækja nýja fjölskyldumeðliminn og auðvitað alla hina líka. Ég ákvað á sama tíma að segja engum frá því að ég væri að koma og mæta bara óvænt. Það heppnaðist líka svona vel.

Fjóla systir var sú eina sem vissi þetta og hún sótti mig á völlinn. Svo tók ég til við að hrella alla fjölskylduna mína sem hafði ekki hugmynd um að ég ætlaði að koma, allir héldu að ég kæmi ekki fyrr en eftir rúman mánuð. Það er meira segja til á vídjó þegar ég birtist og skaut fólki skelk í bringu. Vonandi fæ ég það og get sett á netið því það er rosalega fyndið.

Núna ætla ég að reyna að fá að vinna eitthvað svo ég geti komið út í plús úr þessu ævintýri. Ég næ að vera tvær vikur á klakanum, allt upplestarfríið. Svo fer ég út til að taka próf og fara á Hróarskeldu! Það eru bara 27 dagar í Hróarskeldu! :D Kveðja úr Keflavík,
Maggi.

föstudagur, maí 27, 2005

Rjómablíða

Það er þvílíkt gott veður í Kolding þessa dagana. Yfir tuttugu stiga hiti, og á morgun er spáð 28 stiga hita yfir daginn! Ótrúlegar tölur finnst manni því maður er ekki vanur þessu. Við kláruðum verkefnið í gær! Eða svo gott sem. Við prentuðum skýrsluna og svo á mánudaginn klárum við að gorma hana eða eitthvað sniðugt svo hún verði nú flott þegar við skilum verkefninu inn. En ég er farinn niður í bæ til að sleikja sólina og kaupa mér ís og eitthvað sniðugt. :D Kveðja,
Magnús.

fimmtudagur, maí 26, 2005

It's almost over...

Það styttist í verkefnaskil og það er það eina sem kemst að þessa dagana. Skiladagur er á mánudaginn og ef okkur tekst að klára fljótlega þá náum við að fagna verkefnalokum núna um helgina. Eftir smá pásu frá skóladóti tekur svo við undirbúningur fyrir próf! Það eru nefnilega ekki allir svo heppnir að vera búnir í prófum í maí eins og þið heima á klakanum. En það má segja að tilhugsunin um Hróarskeldu haldi í manni á réttri braut! Búinn að kaupa miða og alles. Það verður frábært! :D En við hér í Danaveldi höfum það nú ekki svo slæmt þótt við eigum eftir að fara í próf. Viljiði bara kíkja á veðurspána fyrir næstu daga! Ekki slæmt.
Maggi.

mánudagur, maí 23, 2005

Lítill frændi!

Í gærkvöldi eignuðust Halla systir og Biggi lítinn strák. Öllum heilsast vel og mikil gleði er með nýjasta fjölskyldumeðliminn. Hún er engu minni hér í Kolding, ég get ekki beðið eftir að komast heim í sumar til að sjá litla frænda! Til hamingju með litla prinsinn Halla og Biggi og allir! :D Hér eru myndir af litla krílinu.
Magnús frændi.

sunnudagur, maí 22, 2005

Say Hallelujah

Ég hélt Evróvisjón partý í gær þrátt fyrir að Ísland tæki ekki einu sinni þátt. Steinunn var samt flott og stóð sig vel þegar hún las upp stigin. Við vorum dugleg í staupunum og sumir fóru verr útúr því en aðrir! En planið var að gera þetta almennilega því þetta var fyrsta og síðasta partýið sem við höldum í þessari íbúð. Ég kíkti svo niður í bæ eftir það en endaði á því að fara ekki á neina staði heldur bara á Munkegade að spjalla og hlusta á Tracy Chapman.

Halla systir og Biggi mágur eru að fara að eignast barn og ég er rosa spenntur! Það er ekki vitað hvers kyns það er, en það kemur í ljós fljótlega. Ég er á Íslandi í huganum. Það er barnaflóð í gangi því Bebba og Hjörleifur eignuðust litla prinsessu í byrjun mánaðarins. Til hamingju með það krakkar! Ég hlakka mikið til að heimsækja ykkur þegar ég kem heim.
Magnús Sveinn.

föstudagur, maí 20, 2005

GAUR!!!

Við komumst ekki einu sinni áfram. Það er það slappasta sem ég veit um. Allir spáðu okkur góðu gengi og við náðum ekki einu sinni uppúr forkeppninni! Úff hvað það er slæmt! Sjitturinn titturinn mellan og hóran! Það þýðir samt ekkert að beila á partýinu á laugardag, maður verður að halda í það minnsta eitt partý áður en maður flytur af Knud-Hansensvej. Það hefði samt verið miklu skemmtilegra hefði Ísland verið með í alvöru keppninni. Þetta er meira að segja nokkuð fyndið. Mér datt ekki einu sinni í hug að við kæmumst ekki í lokakeppnina! Hahaha, æi kannski er þetta ekkert svo fyndið. Vonandi getur Ísland rifið sig uppúr þunglyndinu sem sjálfkrafa skapast með því að klúðra Evróvisjón svona rosalega. Jæja, life goes on...
Maggi.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Evróvisjón upphitun

Í kvöld verður hitað upp fyrir Evróvisjón og horft á forkeppnina þar sem Ísland og Noregur munu berjast um efsta sætið! Það er ég viss um. Það verður gaman að sjá hvernig Noregur mun standa sig, ég held þeir muni gera góða hluti því lagið þeirra er alveg frábært og sviðsframkoman líka. Ég tók mig til í gær og breytti öllu skipulagi í stofunni þannig að sem flestir geti horft á sjónvarpið. Ég þurfti að færa öll húsgögnin nema stóru hilluna! Og ég þreif nottla íbúðina í leiðinni. Bara passlega vel samt því hvað er gaman við að þrífa allt hátt og lágt og þurfa svo að þrífa allt aftur eftir partýið! Eða í þessu tilviki partýin, því ég verð bæði með upphitun í kvöld og svo svaka partý á laugardaginn. Það er alltaf skemmtilegra í Júróvisjón partýjum þegar Ísland stendur sig vel þannig að við sendum Selmu heillaóskir! Þetta verður gaman.
Maggi.

mánudagur, maí 16, 2005

Súkkulaðihúðaðar amfetamíntöflur

Inngangur: Já það er nóg að gerast. Ég legg það nú ekki í vana minn að afsaka bloggleti en ég verð að gera það núna. Þegar það er mikið að gerast þá fær maður sig einhvernvegin ekki til að byrja að skrifa. Auðvitað á maður að skrifa á hverjum degi svo hugsanirnar og atburðirnir hrannist ekki upp, en stundum er maður einfaldlega latur.

Vökukeppnin
Ætli ég byrji ekki á að segja frá því sem gerðist fyrir tíu dögum síðan eftir að ég bloggaði síðast. Ég, Lára, Elva, Birna og Kolla tókum okkur til og ákváðum að halda vökukeppni. Við ætluðum að taka gott djamm, fara ekkert að sofa heldur vaka allann daginn og halda áfram allan næsta dag og fram á næsta morgun. Fyrir þessa þrekraun þyrfti auðvitað slatta af bjór og fengum við því bílinn hans Rúnars lánaðan og skruppum til Þýskalands. Það gekk ekki betur en svo að finna landamærabúðirnar að við keyrðum í góðan hring og enduðum aftur á landamærunum! Við ætluðum bara að snúa við og leita betur en við lentum í landamæralöggunni sem heimtaði passana okkar. Lára og Elva voru þær einu sem voru með passa en við hin vorum með ökuskírteinin okkar og töldum það vera nóg. En nei, allt kom fyrir ekki, okkur var skipað að fara heim til Kolding og sækja passana okkar og svo mættum við koma til Þýkskalands!

Við héldum nú ekki enda tekur klukkutíma að keyra aftur til Kolding. Við þorðum ekki að stelast aftur yfir með okkur ólöglega fólkið þannig að Lára og Elva skildu mig, Birnu og Kollu eftir í næsta bæ við landamærin sem heitir Padborg. Þar skoðuðum við þennan litla bæ sem lítið var nú varið í, og fengum okkur að borða og svona á meðan stelpurnar redduðu bjórnum. Seinna komst Starri svo að því fyrir okkur að samkvæmt einhverjum lögum sem voru samþykkt 2002 að ökuskírteinið er sko alveg nóg til að fara á milli landa sem eru í Schengen sambandinu! Bölvaðar þýsku löggur sem ekkert vita. :)

En svo var komið að maraþoninu! Við byrjuðum á fimmtudegi því það var mikil tónleikahátíð í gangi í bænum og nóg af fólki. Fyrr um daginn höfðum við rölt niður í Legeparken og þar var troðfullt af fólki, og allir frá 12 ára til sextugs voru á rúllandi rassgatinu. Við vorum mjög hissa að sjá hvað það voru ungir krakkar alveg pissfull og öllum virtist sama. Eftir djammið okkar á fimmtudagskvöldinu þar sem við fórum á Pitstop og Crazy Daisy enduðum við á Munkegade. Þá var Ívar vinur okkar úr IBA skólanum búinn að bætast í hópinn. Til að sofna ekki drifum við okkur út að rölta kl. 8 um morguninn og fórum í Legeparken þar sem tónleikarnir höfðu verið deginum áður. Birna fór á kostum uppá sviði sem söngvari og tryllti áhorfendur, alla fimm.

Við fórum svo hingað á Knud-Hansensvej þar sem ég þvoði þvott til að drepa tímann. Á þeim tíma var fólk orðið vægast sagt þreytt og margir voru nálægt því að þurfa að vera kisi á Pitstop, en það var refsingin við því að sofna fyrst/ur. "Ég vill ekki vera kisi á Pitstop." (sagt með mjög barnalegri röddu) var algengasta setningin þennan dag.

Eftir sturtupásu var svo haldið á Munkegade aftur þar sem ég og Ívar spiluðum Hacky sack með Snorra en stelpurnar höfðu enga orku í það. Þegar við komum svo upp aftur var tekin sú ákvörðun að hætta vökukepninni og að enginn myndi tapa því stelpurnar voru alveg búnar á því og þetta var ekki skemmtilegt lengur. Ég hefði getað haldið áfram en nennti því nú ekki einn. Því fór ég heim þar sem þreytan helltist yfir mig og ég gerði ekkert um kvöldið nema rotast á koddanum mínum. 36 tímar í vöku með einu góðu djammi var afrakstur þessarar keppni. Einn daginn verður hún kannski endurtekin því við gerðum nokkur mistök sem við getum forðast næst. Þá má sko enginn gefast upp.

Verkefnið
Við erum enn á fullu í lokaverkefninu okkar, og við ákváðum að flytja inn skyr til Danmerkur! Af hverju enginn er búinn að því skiljum við ekki og erum því að gera viðskiptaáætlun og heimasíðu tengt þessu. Það er gaman og gengur bara vel. Við skemmtum okkur vel alltaf þegar við hittumst og um daginn eftir umræðu um súkkulaðihúðaðar kaffibaunir fæddist hugmyndin um súkkulaðihúðaðar amfetamíntöflur! Ég hló mikið að því og það er önnur viðskiptahugmynd sem við gætum hrint í framkvæmd einn daginn.

Juelsminde
Ísak vinur okkar sem hefur komið reglulega í heimsókn síðan í mars býr núna í Juelsminde. Þar er hann í skóla fyrir fólk sem vill gerast sjálfboðaliðar í hinum ýmsu verkefnum í Afríku. Hann bauð okkur núna um helgina til að koma í heimsókn til sín og við þáðum það boð með þökkum. Þannig að núna á laugardaginn fórum við (ég, stelpurnar og Snorri) með lestinni í norð-austur átt og heimsóttum Ísakinn.

Við skoðuðum skólann hans sem er á geggjuðum stað við ströndina og þetta er heimavistarskóli þannig að Ísak er alla daga með frábært útsýni yfir sjóinn og ströndina. Um kvöldið héldum við svo niður að strönd þar sem var gerð misheppnuð tilraun til að kveikja bál. Terpentínan og dagblöðin loguðu fínt en greinarnar vildu ekki hlýða og því varð eldurinn mjög skammlífur. En þá lögðumst við bara í sandinn og horfðum á stjörnurnar og spiluðum svo á gítar og sungum hástöfum eins og Íslendingum er einum lagið. Þetta var alveg frábært í einu orði sagt. Undir lokin voru sumir svo sniðugir að skella sér í sjóinn en þökk sé snöggum björgunaraðgerðum varð engum meint af. :)

Daginn eftir var æðislegt veður og við kíktum aftur niður á strönd og sleiktum sólina aðeins. Svo fengum við lánuð hjól sem skólinn á og hjóluðum um Juelsminde. Þetta er lítill bær og virkilega fallegur. Rólegheitin í fyrirrúmi og það var ótrúlega þægilegt andrúmsloftið þarna. Við fengum okkur að borða og kíktum niður að sjó hinumegin í bænum þar sem við spiluðum Hacky sack og lékum okkur á hjólunum. Það voru hjól fyrir alla nema einn þaning að Lára fékk að sitja aftaná hjá mér. Ég veit ekki hvað það er langt síðan ég hef reitt einhvern á hjóli eða farið í hjólatúr með vinum mínum. Það var skemmtileg nostalgía í þessu. Við vorum svo flott á hjólunum okkar (sem voru öll alveg eins) að við stofnuðum hjólaklúbbinn Hannes og ætlum að vera næstu Hells Angels í Danmörku, nema töluvert friðsælli.

Á leiðinni aftur að skólanum keyptum við okkur ís og höfðum það svo gott uppí skóla í góða veðrinu. Okkur bauðst að fá smá rúnt á bát sem er við litla bryggju hjá skólanum og þar sem við voru búin að hafa augastað á bátnum alveg síðan við komum þáðum við það að sjálfsögðu. Ég fór þó ekki út á bátinn heldur slappaði af á brygjunni og horfði á dýraríkið í sjónum. Um kvöldið var Ísak svo góður að skutla okkur heim til Kolding og við stoppuðum á McDonalds á leiðinni. Þessi ferð var ótrúlega vel heppnuð og allir skemmtu sér konunglega. Ég vill þakka Ísaki fyrir góðar móttökur og ferðafélögum mínum fyrir frábæra helgi.

Bring it home...
Nú tekur svo vika af verkefnavinnu við (sem verður eflaust brotin upp á morgun með því að fara á quiz) og næstu helgi verður svo haldið Eurovision partý á Knud-Hansensvej! Já ég og Rebekka ætlum að halda okkar fyrsta og síðasta partý í þessari íbúð. Við erum nefnilega búin að segja henni upp og losnum líklegast við hana eftir akkúrat mánuð! Þannig að það er óvíst um hvar ég mun búa á næstu önn en það eru nokkrir möguleikar í spilunum. Eitt er víst að það verður á ódýrari stað og það verður gott að minnka aðeins greiðslubyrðina því maður er nú einu sinni bara á námslánum. En þá er þetta komið gott. Þetta er með lengri færslum á þessu bloggi. Ég þakka þeim sem nenntu að lesa alla leið. Góðar stundir.
Magnús Sveinn Jónsson.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Sigurgangan heldur áfram

Pub Quiz kryddar skemmtilega uppá þriðjudagnana hér í Kolding. Þá safnast saman slatti af fólki á pöbbnum Knuds Garage og Jerry hinn írski heldur spurningakeppni. Vanalega eru kringum fimmtán lið sem taka þátt og flest þeirra eru fastagestir sem mæta alla þriðjudaga. Við höfum verið nokkuð dugleg við að mæta og oft gengið vel. Í síðustu viku var síðasta quiz apríl-mánaðar og í loka-quizinu eru veitt spes verðlaun, heildarárangur mánaðarins verðlaunaður og liðin sem hafa mætt allan mánuðinn eiga sjens á að vinna verðlaun (verðlaun lesist bjór). Við lentum í öðru sæti yfir mánuðinn (munaði bara einu stigi á okkur og sigurliðinu!) og fengum 250 kr. úttekt á barnum.

Í fyrradag skiptum við svo liðunum aðeins öðruvísi, stelpur á móti strákum af okkur vinunum sem mæta reglulega. Liðin okkar lentu í efstu tveimur sætunum hvorki meira né minna, við strákarnir fyrir ofan. Þannig að við erum komin með ágætt forskot á hin liðin og stefnt er á að vinna mánuðinn. :)

Af skólanum er það að frétta að lokaverkefni þessarar annar er byrjað, og snýst það um að hjálpa fyrirtæki við að færa viðskipti sín meira á netið. Við strákarnir sem gerðum Elvis verkefnið saman, ég, Starri, Haukur og Rúnar ákváðum að halda hópinn enda gekk mjög vel síðast. Annars fer líka mikill tími í að nýta góða veðrið, og það er búið að vera nóg af því undanfarna daga. Að vísu var þrumuveður tvo daga í röð núna nýlega og ég gat ekki sofið heila nótt útaf því. En það var nú bara hressandi. :)
Maggi.

sunnudagur, maí 01, 2005

The Advanced HotDog Plate!

Á fimmtudag og föstudag fórum við í IBA skólann hér í bæ (International Business Academy) og gerðum sameiginlegt verkefni með þeim. Það snerist um nýksköpun og virkaði þannig að það kom yfirmaður frá fyrirtækinu Kappa sem er staðsett hér í Kolding en það gerir pappakassa! Eins spennandi og það hljómar. Við áttum að finna ný not fyrir pappa og voru engin takmörk sett nema að uppistaðan í því sem við gerðum átti að vera pappi. Ég var í hóp með einum strák úr mínum skóla og fjórum krökkum úr IBA. Við hugsuðum lengi vel og komum með fullt af hugmyndum en enga sem okkur þótti vera alveg frábær og ætti skilið að vinna. Það var nefnilega 1000 kr. í verðlaun fyrir sigurhópinn.

Á endanum ákváðum við að framkvæma hugmyndina mína um disk fyrir pulsur og pulsubrauð. Hann er svipaður og málarapalletta, því það er gat fyrir þumalputtann svo það sé auðveldara að halda á disknum. Á öðrum endanum eru svo rifflur þannig að það er pláss fyrir pulsur og brauð og það rúllar ekki útaf disknum. Hinum megin eru svo göt þar sem maður getur komið fyrir litlum skálum með sósu. Danir vilja nefnilega hafa pulsurnar og brauðið sér og dýfa því svo í sósuna í stað þess að láta hana á pulsuna. Svo gerðum við eina útgáfu sem var líka með plássi fyrir glas. Eftir hádegi á föstudaginn var afraksturinn svo sýndur í stórum sal í IBA. Það voru yfir 30 hópar af nemendum, yfirleitt sex saman í hóp, og nokkrir hópar með fínar hugmyndir. Mjög algengt var að fólk gerði borð með götum fyrir drykki og voru nokkrar útgáfur af þeirri hugmynd. Við gerðum svaka flotta útstillingu með myndum af Hróarskeldu sem sýndu hvað var mikið vesen að borða pulsur án þess að hafa diskinn flotta, og redduðum svo pulsum og pulsubrauði til að sýna hvernig þetta virkar.

Svo voru tilkynnt úrslitin, og viti menn! Haldiði ekki að við höfum unnið þetta barasta. Þeim leist best á okkar hugmynd og gáfu okkur þúsund krónur danskar. Það er alltaf gaman að vinna. Verst var að þurfa að skipta niður verðlaunaféinu því ég átti allan heiðurinn að þessari uppfinningu. Það er gallinn við að vera í hópavinnu. :) Eftir að búið var að tilkynna sigurvegarana þá fórum við niður á barinn sem er í skólanum og fengum pulsur og bjór. Ég var lengi þar og spilaði póker við fólk úr IBA og það var mjög gaman. Ég nennti svo ekkert heim heldur fór niður í bæ og spilaði Hacky Sack á Munkegade og svo borðuðum við saman risapizzu. Ísakinn og Elva tvö voru í heimsókn á Munkegade um helgina og það gerði góða helgi enn betri.

Í gær hélt Munkegade liðið svo partý með James Bond þema og þar var mikil stemmning. Lára setti met og tók yfir 400 myndir á myndavélina sína. Ég tók þrjár myndir á Polaroid-vélina mína. Hehe. Planið var að vera í partýinu alla nóttina og fara ekkert út, en það náðist bara til klukkan þrjú. Þá var haldið út og ég og Elva komum við á Tavlen áður en við fórum á PitStop. Frábær helgi að vanda.
Maggi.