mánudagur, maí 16, 2005

Súkkulaðihúðaðar amfetamíntöflur

Inngangur: Já það er nóg að gerast. Ég legg það nú ekki í vana minn að afsaka bloggleti en ég verð að gera það núna. Þegar það er mikið að gerast þá fær maður sig einhvernvegin ekki til að byrja að skrifa. Auðvitað á maður að skrifa á hverjum degi svo hugsanirnar og atburðirnir hrannist ekki upp, en stundum er maður einfaldlega latur.

Vökukeppnin
Ætli ég byrji ekki á að segja frá því sem gerðist fyrir tíu dögum síðan eftir að ég bloggaði síðast. Ég, Lára, Elva, Birna og Kolla tókum okkur til og ákváðum að halda vökukeppni. Við ætluðum að taka gott djamm, fara ekkert að sofa heldur vaka allann daginn og halda áfram allan næsta dag og fram á næsta morgun. Fyrir þessa þrekraun þyrfti auðvitað slatta af bjór og fengum við því bílinn hans Rúnars lánaðan og skruppum til Þýskalands. Það gekk ekki betur en svo að finna landamærabúðirnar að við keyrðum í góðan hring og enduðum aftur á landamærunum! Við ætluðum bara að snúa við og leita betur en við lentum í landamæralöggunni sem heimtaði passana okkar. Lára og Elva voru þær einu sem voru með passa en við hin vorum með ökuskírteinin okkar og töldum það vera nóg. En nei, allt kom fyrir ekki, okkur var skipað að fara heim til Kolding og sækja passana okkar og svo mættum við koma til Þýkskalands!

Við héldum nú ekki enda tekur klukkutíma að keyra aftur til Kolding. Við þorðum ekki að stelast aftur yfir með okkur ólöglega fólkið þannig að Lára og Elva skildu mig, Birnu og Kollu eftir í næsta bæ við landamærin sem heitir Padborg. Þar skoðuðum við þennan litla bæ sem lítið var nú varið í, og fengum okkur að borða og svona á meðan stelpurnar redduðu bjórnum. Seinna komst Starri svo að því fyrir okkur að samkvæmt einhverjum lögum sem voru samþykkt 2002 að ökuskírteinið er sko alveg nóg til að fara á milli landa sem eru í Schengen sambandinu! Bölvaðar þýsku löggur sem ekkert vita. :)

En svo var komið að maraþoninu! Við byrjuðum á fimmtudegi því það var mikil tónleikahátíð í gangi í bænum og nóg af fólki. Fyrr um daginn höfðum við rölt niður í Legeparken og þar var troðfullt af fólki, og allir frá 12 ára til sextugs voru á rúllandi rassgatinu. Við vorum mjög hissa að sjá hvað það voru ungir krakkar alveg pissfull og öllum virtist sama. Eftir djammið okkar á fimmtudagskvöldinu þar sem við fórum á Pitstop og Crazy Daisy enduðum við á Munkegade. Þá var Ívar vinur okkar úr IBA skólanum búinn að bætast í hópinn. Til að sofna ekki drifum við okkur út að rölta kl. 8 um morguninn og fórum í Legeparken þar sem tónleikarnir höfðu verið deginum áður. Birna fór á kostum uppá sviði sem söngvari og tryllti áhorfendur, alla fimm.

Við fórum svo hingað á Knud-Hansensvej þar sem ég þvoði þvott til að drepa tímann. Á þeim tíma var fólk orðið vægast sagt þreytt og margir voru nálægt því að þurfa að vera kisi á Pitstop, en það var refsingin við því að sofna fyrst/ur. "Ég vill ekki vera kisi á Pitstop." (sagt með mjög barnalegri röddu) var algengasta setningin þennan dag.

Eftir sturtupásu var svo haldið á Munkegade aftur þar sem ég og Ívar spiluðum Hacky sack með Snorra en stelpurnar höfðu enga orku í það. Þegar við komum svo upp aftur var tekin sú ákvörðun að hætta vökukepninni og að enginn myndi tapa því stelpurnar voru alveg búnar á því og þetta var ekki skemmtilegt lengur. Ég hefði getað haldið áfram en nennti því nú ekki einn. Því fór ég heim þar sem þreytan helltist yfir mig og ég gerði ekkert um kvöldið nema rotast á koddanum mínum. 36 tímar í vöku með einu góðu djammi var afrakstur þessarar keppni. Einn daginn verður hún kannski endurtekin því við gerðum nokkur mistök sem við getum forðast næst. Þá má sko enginn gefast upp.

Verkefnið
Við erum enn á fullu í lokaverkefninu okkar, og við ákváðum að flytja inn skyr til Danmerkur! Af hverju enginn er búinn að því skiljum við ekki og erum því að gera viðskiptaáætlun og heimasíðu tengt þessu. Það er gaman og gengur bara vel. Við skemmtum okkur vel alltaf þegar við hittumst og um daginn eftir umræðu um súkkulaðihúðaðar kaffibaunir fæddist hugmyndin um súkkulaðihúðaðar amfetamíntöflur! Ég hló mikið að því og það er önnur viðskiptahugmynd sem við gætum hrint í framkvæmd einn daginn.

Juelsminde
Ísak vinur okkar sem hefur komið reglulega í heimsókn síðan í mars býr núna í Juelsminde. Þar er hann í skóla fyrir fólk sem vill gerast sjálfboðaliðar í hinum ýmsu verkefnum í Afríku. Hann bauð okkur núna um helgina til að koma í heimsókn til sín og við þáðum það boð með þökkum. Þannig að núna á laugardaginn fórum við (ég, stelpurnar og Snorri) með lestinni í norð-austur átt og heimsóttum Ísakinn.

Við skoðuðum skólann hans sem er á geggjuðum stað við ströndina og þetta er heimavistarskóli þannig að Ísak er alla daga með frábært útsýni yfir sjóinn og ströndina. Um kvöldið héldum við svo niður að strönd þar sem var gerð misheppnuð tilraun til að kveikja bál. Terpentínan og dagblöðin loguðu fínt en greinarnar vildu ekki hlýða og því varð eldurinn mjög skammlífur. En þá lögðumst við bara í sandinn og horfðum á stjörnurnar og spiluðum svo á gítar og sungum hástöfum eins og Íslendingum er einum lagið. Þetta var alveg frábært í einu orði sagt. Undir lokin voru sumir svo sniðugir að skella sér í sjóinn en þökk sé snöggum björgunaraðgerðum varð engum meint af. :)

Daginn eftir var æðislegt veður og við kíktum aftur niður á strönd og sleiktum sólina aðeins. Svo fengum við lánuð hjól sem skólinn á og hjóluðum um Juelsminde. Þetta er lítill bær og virkilega fallegur. Rólegheitin í fyrirrúmi og það var ótrúlega þægilegt andrúmsloftið þarna. Við fengum okkur að borða og kíktum niður að sjó hinumegin í bænum þar sem við spiluðum Hacky sack og lékum okkur á hjólunum. Það voru hjól fyrir alla nema einn þaning að Lára fékk að sitja aftaná hjá mér. Ég veit ekki hvað það er langt síðan ég hef reitt einhvern á hjóli eða farið í hjólatúr með vinum mínum. Það var skemmtileg nostalgía í þessu. Við vorum svo flott á hjólunum okkar (sem voru öll alveg eins) að við stofnuðum hjólaklúbbinn Hannes og ætlum að vera næstu Hells Angels í Danmörku, nema töluvert friðsælli.

Á leiðinni aftur að skólanum keyptum við okkur ís og höfðum það svo gott uppí skóla í góða veðrinu. Okkur bauðst að fá smá rúnt á bát sem er við litla bryggju hjá skólanum og þar sem við voru búin að hafa augastað á bátnum alveg síðan við komum þáðum við það að sjálfsögðu. Ég fór þó ekki út á bátinn heldur slappaði af á brygjunni og horfði á dýraríkið í sjónum. Um kvöldið var Ísak svo góður að skutla okkur heim til Kolding og við stoppuðum á McDonalds á leiðinni. Þessi ferð var ótrúlega vel heppnuð og allir skemmtu sér konunglega. Ég vill þakka Ísaki fyrir góðar móttökur og ferðafélögum mínum fyrir frábæra helgi.

Bring it home...
Nú tekur svo vika af verkefnavinnu við (sem verður eflaust brotin upp á morgun með því að fara á quiz) og næstu helgi verður svo haldið Eurovision partý á Knud-Hansensvej! Já ég og Rebekka ætlum að halda okkar fyrsta og síðasta partý í þessari íbúð. Við erum nefnilega búin að segja henni upp og losnum líklegast við hana eftir akkúrat mánuð! Þannig að það er óvíst um hvar ég mun búa á næstu önn en það eru nokkrir möguleikar í spilunum. Eitt er víst að það verður á ódýrari stað og það verður gott að minnka aðeins greiðslubyrðina því maður er nú einu sinni bara á námslánum. En þá er þetta komið gott. Þetta er með lengri færslum á þessu bloggi. Ég þakka þeim sem nenntu að lesa alla leið. Góðar stundir.
Magnús Sveinn Jónsson.
blog comments powered by Disqus