laugardagur, desember 24, 2005

Gleðileg jól

Vonandi eigið þið öll gleðilega jólahátíð! Verið nú öll dugleg að borða matinn ykkar og munið að vera þakklát fyrir hvað þið hafið það nú gott. ;) Kær kveðja,
Magnús Sveinn.

mánudagur, desember 19, 2005

Kominn á klakann

Við náðum að klára verkefnið á fimmtudaginn, og vorum mjög ánægðir með útkomuna. Það kostaði margar andvökunætur, mikla þreytu og gremju, en það var alveg þess virði. Nú er bara að vona að kennararnir verði jafn ánægðir og við með þetta.

Ég og Snorri tókum lestina uppá Kastrup á föstudagsmorguninn, en rétt fyrir utan Köben, á Høje Taastrup, þá var öllum hent út úr lestinni. Ég komst seinna að því að það hafi verið vegna verkfalls. Við vorum svo heppnir að þeir splæstu í rútu handa fólkinu sem var að fara uppá flugvöll þannig að við náðum fluginu og allt gekk upp að lokum.

Á laugardaginn útskrifaðist Fjóla systir (til hamingju með það systa!) og auðvitað var því fagnað með svaka veislu. Maturinn var svo góður að ég borðaði yfir mig, en þannig eiga veislur líka að vera. Um kvöldið fór ég í Reykjavíkina og hitti Ósk og Arndísi og Danmerkurliðið og djammaði smá með þeim sem var bara mjög gaman. Á sunnudaginn keyrði ég svo norður á Akureyri með pabba, Möggu og Kristjönu og verð hér fram á miðvikudag.

Jólagjafainnkaupin ganga eins og í sögu! Ég er næstum búinn að kaupa allar gjafirnar þótt ég hafi eytt mjög litlum tíma í að versla. Það er samt ekki eins og ég hafi bara keypt eitthvað útí bláinn til að klára þetta, heldur rambaði ég bara alltaf á eitthvað sem var alveg fullkomið. Það verður gaman á jólunum, því eins og allir vita þá er sælla að gefa en að þiggja. Merkilegt nokk þá verður sá gamli frasi réttari með árunum. Er ég í alvöru orðinn svona gamall? Ekki svara þessu. :)

Það er ágætis plan framundan næstu daga, aftur suður á miðvikudaginn, litlu jól á fimmtudaginn og svo brestur á Þorlákur og jólin þar á eftir. Ekki mikið planað milli jóla og nýárs, en ég er viss um að ég muni ekki sitja auðum höndum! Alltaf nóg að gerast. Og hana nú! Þá er ég búinn að blogga. Núna geta sumir andað léttar. :p
Maggi.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Rímix

Skopparaboltar
Maður hlustar á tónlist allan daginn, og það liggur við að maður uppgötvi eitthvað nýtt á hverjum degi. Því ætla ég að byrja á því að skrifa meira um tónlist hérna á þessu bloggi og leyfa ykkur að sækja það sem ég er að hlusta mest á.

Byrjum á tveimur skemmtilegum lögum. Jose Gonzalez er, belive it or not, sænskur! Og hann gaf út ágætan debut disk sem heitir Veneer. Ég uppgötvaði hann í auglýsingunni um Sony Bavaria sjónvörp, þar sem einhverjir klikkaðir Sony gaurar hentu 250 þúsund skopparaboltum niður bratta götu í San Francisco. Þú getur skoðað auglýsinguna hérna og líka myndband um hvernig þeir gerðu hana. En nóg um það.

Ég er búinn að setja plötuna hans Jose vinar okkar á netið en ég mæli með því að þið sækið amk lagið Heartbeats, sem mér þykir besta lagið á disknum og er einmitt lagið sem er notað í Sony Auglýsingunni.

Jose Gonzalez
Diskurinn: Jose Gonzalez - Veneer

Lagið: Heartbeats

Þegar þið eruð búin að hlusta á Heartbeats nokkrum sinnum, þá mæli ég með því að þið sækið annað lag sem er stórskemmtilegt. Það er rímix af sama lagi með hljómsveit sem ég veit mest lítið um. Hún heitir The Knife og ég er sænsk alveg eins og Jose. Þetta er uppáhaldslagið mitt í dag! Ekki búast við því að þér þyki það skemmtilegt því það er frekar spes og ég held að aðal ástæðan fyrir því að ég fíla það svona er að ég er búinn að hlusta svo rosalega mikið á upprunalega lagið. En þið megið dæma um þetta sjálf. Hér er rímixið:

The Knife - Heartbeats


Starsailor - Four To The Floor
Annað lag sem ég vill benda á er lagið Four To The Floor með Starsailor. Það er reyndar ekkert merkilegt lag í sjálfu sér, en rímixið sem Daniel Desnoyers gerði af því er hinsvegar alveg frábært! Reyndar tekknó fílíngur í því sem leggst misvel í fólk, en mér er alveg sama, þetta er snilldar lag fyrir því. Endilega sækið báðar útgáfurnar.

Upprunalega: Starsailor - Four To The Floor

Remix: Daniel Desnoyers - Four To The Floor

Ef þið hafið ábendingar um einhverja tónlist sem þið voruð að uppgötva nýlega, ekki hika við að commenta! Á meðan ég skrifaði þessa færslu fékk ég hugmynd að tíu öðrum tónlistar-færslum í viðbót! Vonandi verð ég nógu duglegur til að henda fleiri lögum á netið og skrifa eitthvað um hvað ég er að hlusta á. Ef ykkur finnst þetta skemmtilegt og viljið meira svona, let me know! Annars gerist það ekki. :)
Maggarinn.

sunnudagur, desember 11, 2005

Lífið er...

...of stutt til að eyða því í samviskubit yfir því sem við ættum að vera að gera. Þetta skrifaði ungur drengur eitt sinn á blogginu sínu og ég held að þetta sé rétt hjá honum. Hvernig sem við losnum við samviskubitið er svo á okkar valdi, hvort sem við kæfum það með eigin sannfæringarkrafti eða förum einfaldlega að gera það sem við eigum að gera. Hið síðarnefnda er auðvitað besta leiðin, en af og til þá má líka nota sannfæringarkraftinn á sjálfan sig.

Franz Ferdinand var æði! Það er alltaf gaman að fara á tónleika með hressum rokkhljómsveitum og hoppa og láta eins og vitleysingur í tvo tíma. Franzinn á ansi magra fræga slagara og Danirnir, sem vanalega eru frekar slappir sem tónleikagestir, stóðu sig ágætlega og dönsuðu og hoppuðu og sungu með hljómsveitinni og okkur Íslendingunum. Eftir tónleikana fórum við niður í bæ, en í stað þess að djamma eins og planað hafði verið röltum við um í kuldanum og stóðum svo í leigubílaröð í klukkutíma áður en við fórum heim. Frekar slappur endir á annars góðu kvöldi.

Það styttist í að við þurfum að skila verkefninu því menn fara að týnast úr landi frá og með fimmtudeginum. Þolli er fyrstur til að kveðja en á föstudaginn förum við Snorri líka. Skýrsluskrif klárast í dag og á morgun, og við prentum skýrsluna á þriðjudag eða miðvikudag. Við fundum prent/ljósritunarstofu sem er með einhverja svaka græju sem ljósritar þetta allt í lit, báðum megin á síðurnar. Skýrslan verður aðeins minni en A5 blað í broti, og ansi margar síður. Svo ætlum við að binda hana inn og líma sjálfir, þannig að þetta verður eins og lítil bók. Svo er allskonar auka föndur í kringum það hvernig við ætlum að skila þessu inn. Við leggum næstum jafn mikla vinnu í hvernig við skilum verkefninu eins og verkefnið sjálft! En það mun líka hjálpa okkur mikið, kennurunum finnst skemmtilegra að hafa eitthvað flott design í höndunum og munu eflaust gefa okkur punkta fyrir það. Svo er líka miklu skemmtilegra að eiga eitthvað svona flott sjálfur! Ekki það að innihaldið sé eitthvað lélegt, alls ekki, enda miklir snillingar í þessum hóp. The Helligkorsgade Experience featuring Bjarni. En það er stíft prógramm framundan ef við eigum að ná að klára, þannig að ég kveð að sinni. Skemmtið ykkur vel í jólaundirbúningnum! :)
Maggi.

E.s: Við skulum rifja upp gamla og góða færslu sem gefur okkur þrjár leiðir til að sleppa frá samviskubitinu sem ég talaði um í byrjun færslunnar.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Franz og SF vesen

Já það leit út fyrir það um tíma að Kolla og Birna myndu fá íbúð í sama húsi og við (ég, Camilla, Elva og Lára), en það klikkaði að lokum. Þetta var eins og jójó, af eða á, en endaði því miður á vitlausum stað. En þetta reddast allt einhvernvegin!

Á morgun ætlum við að kíkja inn til Köben til að sjá Franz Ferdinand á tónleikum! Það verður hörku stuð, Jói og Kristjana ætla að slást í hópinn frá Horsens (reyndar var það Jói sem reddaði miðunum). Meira um það seinna! Later amigos.
Maggi.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Góðir straumar

Ég sendi Bryndísi Evu, Bebbu og Hjörleifi alla mína góðu strauma. Bryndís er veik og liggur á spítala. Ég vona innilega að allt verði í lagi, og ég er viss um það því hún er í góðum höndum og á frábæra foreldra.
Maggi.

sunnudagur, desember 04, 2005

Gúrkutíð í blogginu...?

Ekki mikið í gangi þessa dagana nema tölvugláp. Reyna að vinna þetta blessaða lokaverkefni og svona. Við höfum innan við tvær vikur eftir núna til að klára allt heila klabbið. Það hefur tafist að fá svör frá Sirkus, en við sendum þeim spurningalista sem komst loksins í réttar hendur fyrir helgi. Það klikkaði eitthvað fyrst útaf misskilningi með netföng (sem getur verið virkilega óþolandi). Þegar þessi svör fást getum við komist á gott skrið. Við erum nú samt búnir með ágætan slatta, og erum með virkilega góðar og spennandi hugmyndir sem verður gaman að koma frá sér. Á morgun ætla ég í skólann og láta kennara kíkja á það sem er komið úr skýrslunni okkar til að sjá hvort við séum ekki nokkurnvegin á réttri leið með hana. Ég veit að við erum með góða hugmynd, og öll tæki sem þarf til að hrinda henni í framkvæmd, þannig að það eina sem vantar er samstillt átak í að fylgja þessu eftir og klára þetta. Hehe, vá hvað þetta hljómaði eins og svar frá íþróttamanni að reyna að bulla sig útúr viðtali að loknum leik. Við verðum bara að gefa 110% í þetta! :p
Magnús.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Ekki lengi gert

Af hverju ætli það sé gaman að eiga eitthvað sem er eftirsótt? Þetta er sönnun fyrir því hvað það langar marga á tónleikana í Höllinni í janúar. Og ég á miða í stúku! Vííí. :p
Maggi.

Þetta er alveg málið

Það eru tónleikar í Laugardalshöll þann 7. janúar sem ég held að séu alveg vel þess virði að sjá. Flytjendur eru meðal annara:

Ham, Damien Rice, Lisa Hannigan, Magga Stína, Múm, Sigur Rós, Hjálmar, KK, Rass, Björk, Ghostigital, Damon Albarn og Egó.

Hvernig er hægt að missa af þessu!? Ég get það amk ekki og ég trúi að það séu fleiri sem eru sammála mér í því. Þess vegna verður það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna í fyrramálið að tryggja mér miða á þessa hátíð. Ég er strax farinn að hlakka til! :D Eins og það sé ekki nógu margt annað til að hlakka til! Það er gaman að þessu. Það er hægt að tryggja sér miða kl. tíu í fyrramálið (á íslenskum tíma) á midi.is. Sjáumst í Höllinni! ;)
Maggi.