mánudagur, desember 19, 2005

Kominn á klakann

Við náðum að klára verkefnið á fimmtudaginn, og vorum mjög ánægðir með útkomuna. Það kostaði margar andvökunætur, mikla þreytu og gremju, en það var alveg þess virði. Nú er bara að vona að kennararnir verði jafn ánægðir og við með þetta.

Ég og Snorri tókum lestina uppá Kastrup á föstudagsmorguninn, en rétt fyrir utan Köben, á Høje Taastrup, þá var öllum hent út úr lestinni. Ég komst seinna að því að það hafi verið vegna verkfalls. Við vorum svo heppnir að þeir splæstu í rútu handa fólkinu sem var að fara uppá flugvöll þannig að við náðum fluginu og allt gekk upp að lokum.

Á laugardaginn útskrifaðist Fjóla systir (til hamingju með það systa!) og auðvitað var því fagnað með svaka veislu. Maturinn var svo góður að ég borðaði yfir mig, en þannig eiga veislur líka að vera. Um kvöldið fór ég í Reykjavíkina og hitti Ósk og Arndísi og Danmerkurliðið og djammaði smá með þeim sem var bara mjög gaman. Á sunnudaginn keyrði ég svo norður á Akureyri með pabba, Möggu og Kristjönu og verð hér fram á miðvikudag.

Jólagjafainnkaupin ganga eins og í sögu! Ég er næstum búinn að kaupa allar gjafirnar þótt ég hafi eytt mjög litlum tíma í að versla. Það er samt ekki eins og ég hafi bara keypt eitthvað útí bláinn til að klára þetta, heldur rambaði ég bara alltaf á eitthvað sem var alveg fullkomið. Það verður gaman á jólunum, því eins og allir vita þá er sælla að gefa en að þiggja. Merkilegt nokk þá verður sá gamli frasi réttari með árunum. Er ég í alvöru orðinn svona gamall? Ekki svara þessu. :)

Það er ágætis plan framundan næstu daga, aftur suður á miðvikudaginn, litlu jól á fimmtudaginn og svo brestur á Þorlákur og jólin þar á eftir. Ekki mikið planað milli jóla og nýárs, en ég er viss um að ég muni ekki sitja auðum höndum! Alltaf nóg að gerast. Og hana nú! Þá er ég búinn að blogga. Núna geta sumir andað léttar. :p
Maggi.
blog comments powered by Disqus