sunnudagur, desember 11, 2005

Lífið er...

...of stutt til að eyða því í samviskubit yfir því sem við ættum að vera að gera. Þetta skrifaði ungur drengur eitt sinn á blogginu sínu og ég held að þetta sé rétt hjá honum. Hvernig sem við losnum við samviskubitið er svo á okkar valdi, hvort sem við kæfum það með eigin sannfæringarkrafti eða förum einfaldlega að gera það sem við eigum að gera. Hið síðarnefnda er auðvitað besta leiðin, en af og til þá má líka nota sannfæringarkraftinn á sjálfan sig.

Franz Ferdinand var æði! Það er alltaf gaman að fara á tónleika með hressum rokkhljómsveitum og hoppa og láta eins og vitleysingur í tvo tíma. Franzinn á ansi magra fræga slagara og Danirnir, sem vanalega eru frekar slappir sem tónleikagestir, stóðu sig ágætlega og dönsuðu og hoppuðu og sungu með hljómsveitinni og okkur Íslendingunum. Eftir tónleikana fórum við niður í bæ, en í stað þess að djamma eins og planað hafði verið röltum við um í kuldanum og stóðum svo í leigubílaröð í klukkutíma áður en við fórum heim. Frekar slappur endir á annars góðu kvöldi.

Það styttist í að við þurfum að skila verkefninu því menn fara að týnast úr landi frá og með fimmtudeginum. Þolli er fyrstur til að kveðja en á föstudaginn förum við Snorri líka. Skýrsluskrif klárast í dag og á morgun, og við prentum skýrsluna á þriðjudag eða miðvikudag. Við fundum prent/ljósritunarstofu sem er með einhverja svaka græju sem ljósritar þetta allt í lit, báðum megin á síðurnar. Skýrslan verður aðeins minni en A5 blað í broti, og ansi margar síður. Svo ætlum við að binda hana inn og líma sjálfir, þannig að þetta verður eins og lítil bók. Svo er allskonar auka föndur í kringum það hvernig við ætlum að skila þessu inn. Við leggum næstum jafn mikla vinnu í hvernig við skilum verkefninu eins og verkefnið sjálft! En það mun líka hjálpa okkur mikið, kennurunum finnst skemmtilegra að hafa eitthvað flott design í höndunum og munu eflaust gefa okkur punkta fyrir það. Svo er líka miklu skemmtilegra að eiga eitthvað svona flott sjálfur! Ekki það að innihaldið sé eitthvað lélegt, alls ekki, enda miklir snillingar í þessum hóp. The Helligkorsgade Experience featuring Bjarni. En það er stíft prógramm framundan ef við eigum að ná að klára, þannig að ég kveð að sinni. Skemmtið ykkur vel í jólaundirbúningnum! :)
Maggi.

E.s: Við skulum rifja upp gamla og góða færslu sem gefur okkur þrjár leiðir til að sleppa frá samviskubitinu sem ég talaði um í byrjun færslunnar.
blog comments powered by Disqus