fimmtudagur, september 28, 2006

Crazy to do

Það er heldur betur búið að vera brjálað að gera undanfarið. Síðasta föstudag fengum við íbúðina okkar nýju afhenta og á þriðjudaginn hófust flutningar. Reyndar vorum við ekki að flytja dótið sem við eigum heldur að flytja endalaust af dóti úr búðinni og heim í nýju íbúðina! Við leigðum flutningabíl í einn dag og nýttum daginn mjög vel. Bíllinn var algjör skrjóður, enda ekki við öðru að búast af bílaleigu sem heitir Rent-a-Wreck. Þeir leigja semsagt bíla sem eru við það að hrynja en koma manni amk (vonandi) á leiðarenda. Það besta er auðvitað að það kostar mjög lítið að leigja hjá þeim.

Ég og Ósk fórum í skólann um morguninn og náðum einum tíma áður við þurftum að leggja af stað til að sækja bílinn. Það tók alltof langan tíma að sækja bílaleigubílinn því við fengum rangar upplýsingar hvað eftir annað. En það tókst að lokum og við gátum byrja að útrétta. Við byrjuðum á því að fara í genbrug verslun, sem er verslun sem selur notuð húsgögn á vægu verði. Þar biðu Arndís og Biggi eftir okku og við ætluðum að reyna að kaupa sem mest notað til að spara pening. Það gekk heldur betur eftir því við keyptum mjög mikið og fórum með tvo bílfarma af dóti heim. Þar á meðal voru þrjú rúm, þrír sófar, þrír hægindastólar, sófaborð, borðstofuborð og sex stólar, fataskápur, eldhúsborð og fleira. Þetta allt kostaði okkur kannski kringum 2500 danskar krónur eða um þrjátíu þúsund. Það er ekkert verð fyrir allt þetta dót! Allt var í mjög góðu ástandi, það sást ekki á rúmunum og sófarnir eru mjög þægilegir og þar af einn svefnsófi. Annar er leðursófi, mjög flottur og þægilegur en of stór til að komast á efstu hæðina hjá okkur því hún er undir súð. Það var mjög skrautleg tilraun gerð til að koma sófanum upp en allt kom fyrir ekki. Þriðji sófinn er grænn og mjög retro.

Eftir að hafa borið allt dótið sem við keyptum upp þröngan stiga uppá aðra og þriðju hæð langaði okkur mest að leggja okkur. En til þess að nýta bílinn fórum við í IKEA! Þar keyptum við heilan helling af dóti, eitthvað af húsgögnum (hillur, skáp og náttborð) en aðallega litlu hlutina sem hvert heimili þarf að eiga. Allt í eldhúsið, lampa, ljós og ljósaperur, sængurföt, rúmteppi og fleira. Eftir þrjá tíma í IKEA vorum við alveg búin á því en þurftum samt að gera einn hlut í viðbót. Keyra niðrí bæ og sækja fjóra kassa sem Sigrún vinkona mömmu geymdi fyrir mig síðan í janúar. Eftir það þurftum við að fara heim, skila af okkur dótinu og skila svo bílaleigubílnum.

Við villtumst í hvert skipti sem við þurftum að keyra eitthvert og það voru miklar vegalegndir milli allra staðanna. IKEA er lengst útúr bænum og bílaleigan er lengst í burtu líka. Þannig að þetta var erfiður dagur og við vorum ekki komin heim fyrr en eitt eftir miðnætti, búin að vera á fullu síðan átta um morguninn.

Ég og Ósk sváfum svo fyrstu nóttina á nýja staðnum í nótt og vorum hæst ánægð með nýja stóra rúmið okkar. Kannski af því að það voru bara einbreið rúm á hinum staðnum og ég þurfti að sofa á óþægilegri dýnu á gólfinu.

Annars er bara allt fínt að frétta. Skólinn gengur vel. Ég er að fara að flytja kynningu á fyrsta verkefninu mínu á eftir. Það gekk bara mjög vel og hópurinn minn ætlar að halda sér og klára þetta verkefni á önninni. Nú í byrjun var þetta hugmyndavinna til að koma sér af stað í lokaverkefnið. Verkefnið okkar snýst um að gera útgáfu af Bomberman þar sem maður stjórnar leiknum með því að ganga um leikborð og við notum motion-tracking til að tölvan viti hvar leikmennirnir eru. Hmm, kannski ekki hægt að útskýra hugmyndina í einni setningu. En ég á eflaust eftir að tala um verkefnið aftur hérna síðar. Bið að heilsa úr 18-22 stiga hita hér í Danmörku. ;)
Magnús, aka. Maggi.

mánudagur, september 18, 2006

Lífið er óútreiknanlegt

Í dag var Bryndís Eva, dóttir Hjörleifs og Bebbu, lögð til hinstu hvílu. Ég samhryggist innilega og sendi þeim hlýja strauma. Þau hafa staðið sig svo vel og vakið þjóðfélagið til umhugsunar um mjög mikilvæg málefni. Aðdáunarvert að geta látið gott af sér leiða þótt erfiðleikarnir séu miklir. Verum góð við hvert annað.
Maggi.

sunnudagur, september 17, 2006

Edelsmindevej 13

Hvar byrjar maður? Ég gaf fjölskyldu og vinum loforð þegar ég fór frá Íslandi (enn einu sinni) að ég myndi vera duglegur að blogga þegar ég kæmi út. Ég hef því miður ekki staðið við það en ég ætla nú að láta vita af mér stundum svo fólk fái að heyra hvernig gangi.

Það er bara allt gott að frétta af okkur. Stærstu fréttirnar eru að við erum komin með íbúð! Það gerðist bara í dag og við erum alveg himinlifandi með þetta allt saman. Íbúðin er hérna í Brønshøj, sama hverfi og við búum núna í tímabundnu íbúðinni okkar, bara tíu mínútna labb í burtu. Við erum búin að vera mjög sátt með þessa staðsetningu því ég og Ósk erum jafnlengi að komast í skólann og að komast niður í miðbæ. Íbúðin er 101 fermeter, 3ja herbergja, en reyndar tæknilega séð 4ra herbergja því við megum líka vera á hæðinni fyrir ofan, í risinu. Þar er auka klósett, mini-eldhús með ísskáp og pláss fyrir svona chill-out lounge. Það verður aðal stofan okkar en niðri ætlum við að reyna að koma fyrir einverri borðstofu þar sem við getum borðað saman. Við erum nefnilega búin að vera ansi dugleg að elda saman og höfum sparað hellings pening með því. Ekki veitir af því nú þurfum við að borga deposit og kaupa okkur húsgögn í nýju íbúðina okkar.

Á föstudaginn fórum við á tónleika með eðal bandinu Hot Chip. Það var algjör snilld! Þeir eru svo mikil nörd og þeir reyna það líka. Fimm gaurar á sviðinu, allir með hljómborð eða mixera og nokkrar bongó trommur og einhver lítil hljóðfæri sem framkalla hávaða. Þvílíkt dansvæn tónlist og geggjuð stemmning á litla Vega. Mæli með því að þú hlustir á þá ef þú hefur ekki heyrt í þeim ennþá. Mikil snilld hér á ferð. Svo hefur verið umræða hjá okkur um að kíkja á Muse í Berlín í nóvember. Flugið og miðinn á tónlekana kostar ekki nema rúman tíuþúsundkall og því er erfitt að finna ástæðu fyrir að fara ekki! :)

Best að fara að læra smá fyrir svefninn. Í þessari viku eigum við að klára skýrslu um verkefni sem verður mögulega lokaverkefnið okkar á önninni. Hópurinn minn ætlar að gera útgáfu af Bomberman þar sem leikurinn fer fram í heilu herbergi, og leikmennirnir færa sig á milli reitanna sem eru teiknaðir á gólfið. Svo er tölvuleiknum sjálfum varpað uppá vegg og þar sjá leikmennirnir hvar þeir eru staddir í leiknum. Veit ekki hversu vel mér tókst að útskýra þetta en þetta er amk frekar spennandi og gæti orðið mjög skemmtilegt lokaverkefni.

Kveðja frá Danmörku,
Maggi.

mánudagur, september 11, 2006

350s

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið jafn duglegur og ég ætlaði að vera í að blogga. En fyrst tíminn sem ég er í fer rétt að byrja ætla ég að hafa þetta voða stutt og laggott. Það gengur allt mjög vel hjá okkur. Skólinn er byrjaður og er fínn, pínu öðruvísi en ég bjóst við. Fjallar soldið mikið um tölvuleiki og motion capture (t.d. eins og EyeToy leikirnir sem eru í PlayStation fyrir þá sem þekkja það). Svo er mikil stærðfræði og forritun. Við erum líka byrjuð í verkefni sem á að taka þrjár vikur og ef það fæðist góð hugmynd á þeim tíma þá megum við halda áfram með hana út önnina og gera stórt verkefni úr því. Ég er í hóp með fimm öðrum strákum, fjórum dönskum og einum kínverskum. Hópavinnan gengur bara ágætlega og við erum með fína hugmynd sem ég lýsi fyrir ykkur síðar.

Við erum enn ekki komin með varanlegt heimilisfang en erum búin að fara að skoða eina íbúð niðrí miðbæ. Við höfum ekki enn fengið að vita hvort við fáum hana en höldum í vonina.

Tíminn er byrjaður! Hann heitir Light, the eye and the visual system. Meira seinna.

Maggi.