sunnudagur, mars 25, 2007

Our House, in the middle of our street!

Hvað var Dr. House að gera á miðri götunni?

Einar Freyr var nokkuð nálægt því að finna lausnina á gátunni! Þar sem það var ekki til nein ákveðin lausn þá fær hann verðlaunin. Verðlaunin eru sú að hann fær ókeypis áskrift að blogginu mínu til ársins 2015. Til hamingju Einar! Lausnin hans Einars var:

Will heaven fix a knife for the tree to win?
No, heaven will fix 7654321 knives to win.

Önnur lausn hefði getað verið;

Will heaven fix a knife for the tree to win?
Yes, seven will six a five four the three two one.

En nóg af þessu bulli. Þetta er Ísland.




Ég bjó til vídjó sem mun spilast á undan fréttum í Vef-TV-inu á vf.is. Það er ekki enn komið í notkun en fylgist með og sjáið hvað mér tókst að galdra fram með After Effects.

Við týndum klukkutíma í dag! Þannig að núna erum við hér í Danmörku tveimur tímum á undan ykkur á Íslandi.

Þetta er ein samhengislausasta færsla á þessu bloggi.

Maggi

miðvikudagur, mars 21, 2007

Hint

Heaven, fix, knife, for, tree, to, win.

Maggi.

sunnudagur, mars 18, 2007

Gáta

Mér datt í hug kjánaleg gáta í gær. Hún hljóðar svona:

Will heaven fix a knife for the tree to win?

Ég veit hún hljómar ekki einu sinni eins og gáta, en það er samt til lausn á henni.

Þetta tókst hjá mér! Að blogga einu sinni á dag í eina viku. Reyndar fylgdi svo vika þar á eftir sem ég bloggaði ekki neitt. Vá hvað tíminn er fljótur að líða! Það er alveg ótrúlegt. Það er miður mars, það eru að koma páskar! Ég skil bara ekkert í þessu.

Síðustu helgi fórum ég og Biggi til Horsens í afmælið hans Jóa. Það var vel heppnað, mikið af fólki og góð stemmning. Ég gaf Jóa dónapúðann í afmælisgjöf. Þeir sem fatta djókinn fatta hann, hinir fatta hann ekki.

Annars er lítið að frétta. Nóg að gera í skólanum og á öðrum vígstöðvum. Við erum farin að hjóla í skólann og það er komið vor! :)
Maggi.

laugardagur, mars 10, 2007

Myspace

Myspace.com er ekkert sérlega falleg heimasíða. Á Myspace eru kringum 100 milljón notendur og eiga þeir hver sína síðuna. Maður hefði haldið að Myspace myndi hjálpa notendum að búa til síður sem líta ágætlega út en því miður, þvert á móti, þá eru síðurnar hjá þessum 100 milljón notendum virkilega ljótar. Myspace gefur notendum lausan tauminn við það að hanna síðurnar sína og þar sem fæstir þeirra eru vefhönnuðir þá er útkoman sú að þessar 100 milljón síður eru hver annari ljótari. Þetta er gríðarleg afturför á netinu, og minnir mann helst á árabilið 1998-2001 þegar fólk var að uppgötva að það gæti búið til heimasíður og tróð þær fullar af GIF myndum og öðrum óþverra.



Jájá, Myspace er æðislegt, og þú getur sýnt öllum heiminum að þú eigir átta þúsund vini og þröngvað uppáhalds laginu þínu uppá alla þá sem heimsækja síðuna þína sama hvort þeir vilji það eða ekki. En ég fatta þetta bara alls ekki. Maður á kannski ekki að dæma bók eftir kápunni en ég geri það hiklaust í þessu tilfelli. Mér finnst Myspace síður pirrandi, virkilega ljótar og illa upp settar og ég fer sjaldnast inná þær. Hver einasta síða lítur út fyrir að vera hönnuð af 12 ára stelpu sem reyndi að troða eins miklu rusli og hún gat inná hana og hefur ekki hundsvit á vefhönnun. Ef þú, lesandi góður, átt Myspace síðu sem er með þungum bakgrunni sem scrollast ekki niður með textanum, textinn á síðunni er í mörgum litum og vart læsilegur útaf bakgrunninum, og það spilast sjálfkrafa lag þegar maður kemur inná síðuna, gerðu þá öllum greiða og lagaðu þessa hluti á síðunni, eða lokaðu henni með öllu.
Maggi.

föstudagur, mars 09, 2007

Rétt slapp!

Já, það er vesen að setja sér eitthvað svona markmið og svo er maður næstum því búinn að klúðra því. Ég er nú bara farinn að sötra bjór því vinkonur Óskar og Arndísar eru í heimsókn og við ákváðum að gera okkur glaðan dag. Á morgun er svo planið að kíkja til Horsens í amælisveislu hjá Jóhannesi Bjarna Bjarnasyni vini okkar Bigga. Stelpurnar verða eftir til að skemmta hinum stelpunum en við Biggi mætum til Horsens og tryllum lýðinn. Það verður stuð. Vonandi verður helgin ykkar skemmtileg. :)
Maggi.

fimmtudagur, mars 08, 2007

Norsk hrísgrjón

Fyndið hvað maður dæmir vörurnar sem maður kaupir mikið af pakkningunum. Maður hefur kannski ekki hugmynd um gæði einhverrar vöru en ef pakkningin lítur vel út þá bara hlýtur þetta að vera eðal-vara. Við keyptum okkur hrísgrjón um daginn. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema af því að þegar kom að því að sjóða þau kom babb í bátinn.



Pakkinn leit mjög vel út, professinal pakkningar ef svo má að orði komast. En þegar kom að því að lesa leiðbeiningarnar aftaná var augljóst að það hafði ekki mikið verið vandað til verks. Það fer eftir því í hvaða landi maður er hversu lengi maður á að sjóða grjónin.

Í Svíþjóð skulu þau sjóða í 15 mínútur og malla undir loki í 5 mínútur. Í Danmörku hinsvegar eiga grjónin að sjóða í 10 mínútur og svo heilar 10-15 mínútur undir loki. Norðmennirnir eru hinsvegar á því að grjónin eigi að sjóða í 15 mínútur og malla svo í 3-5 mínútur undir loki. Svo er pæling með aðra hluti eins og hvort það eigi að vera akkúrat 1/4 teskeið af salti eða bara um það bil. Þetta geta norrænu þjóðirnar ekki verið sammála um.



Ég sauð að lokum bara hrísgrjónin þar til mér fannst þau vera tilbúin.
Maggi.

miðvikudagur, mars 07, 2007

House-Cola

Við Ósk vorum að horfa á þáttinn okkar, House, í dag og Ósk fattaði eitthvað í þættinum sem ég fattaði ekki. Hún sagði mér hvað það var og ég sagði "Vá hvað þú ert klár!". Þá sagði hún "Ég veit, enda er ég í háskóla!" Við litum á hvort annað og föttuðum brandarann á sama tíma... "House-Cola!"

Já svona erum við með góðan húmor. Ég vildi að það væri til House-Cola, ég myndi drekka það.



Mouse.

P.s: Við ætlum á Hróarskeldu! Ósk bloggaði um það.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Kaupmannahöfn

Hér er mynd af Kaupmannahöfn og inná hana er ég búinn að merkja hvar við eigum heima og hvar skólinn okkar er. Við erum 20 mínútúr niður í miðbæ með strætó, og svipað á leiðinni í skólann. Við erum mjög sátt við þessa staðsetningu og langar helst ekkert að fara frá Brønshøj.



Stutt og laggott í dag.
Maggi.

mánudagur, mars 05, 2007

In Theaters July 2007

Mér hefur alltaf þótt The Simpsons skemmtilegir þættir og um tíma var ég meira að segja aðdáandi og tók alla þætti sem ég gat upp á spólu. Ég átti einhverjar tíu fullar spólur af þáttum sem er nú ágætis slatti. En svo flutti Simpsons yfir á Stöð 2 og við vorum aldrei með Stöð 2 á mínu heimili. Ég reyndi stundum að sjá þættina hjá vinum sem voru betur settir í sjónvarpsmálum en að lokum hætti ég að reyna. Ef ég slysast til að sjá þátt þá þykir mér það skemmtilegt en ég sækist ekki í það eins og áður. Í sumar kemur hinsvegar hin langþráða Simpsons bíómynd og þá held ég að gamall aðdáandi vakni nú til lífsins og maður skelli sér í bíó, með popp í annari og kók í hinni og hlægi að öllum gömlu vinunum í Springfield. Sýnishornin sem búið er að gefa út lofa mjög góðu og mæli ég með að fólk kíki á þau hér.



Dagur tvö og enn blogga ég! Svei mér þá, þetta er nú ekki svo erfitt. Kannski ég taki tvö blogg á dag í næstu viku. Eða eitt blogg á klukkutíma! Eða ég eyði öllu mínum tíma að röfla hérna inná þannig að enginn nenni nokkurntíman að lesa alla þessa vitleysu!! AAAAAAAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA!!!

Nei, ok, ég lofa að gera það ekki.
Maggie.

sunnudagur, mars 04, 2007

Heit

Ég ætla að blogga á hverjum degi í þessari viku! Það er sunnudagur í dag og er hann að mestu búinn að fara í leti. Ég er að reyna að losna við þessa pest sem ég fékk og er því búinn að hanga uppí rúmi og sofa mikið og horfa á House. Ég og Ósk erum alveg búin að missa okkur í House, mjög fínir þættir. Fyrir þá sem ekki vita er House læknir sem er kaldhæðinn og leiðinlegur við fólk en hefur næstum alltaf rétt fyrir sér. Sem sagt alveg óþolandi, en maður elskar að hata hann af einhverjum ástæðum.

Ósk fór út í búð í gær og ég var eftir heima útaf veikindunum (aftur, ekki kindur sem segja vei (ég elska þennan brandara (ætli það sé löglegt að gera sviga innan sviga (kannski má allt þegar maður bloggar)))) og hún var svo sæt að kaupa handa mér blóm! Páskaliljur meira að segja enda styttist í páskana. Eggin komin í hillur búðanna og... já, eggin komin. Kannski ekki margt sem breytist þegar páskarnir nálgast. En maður getur átt von á því að fá blóm! Hér er mynd af blómunum því til sönnunar:



Hvernig ætli þetta gangi, að blogga á hverjum degi? Mun Magga takast ætlunarverk sitt? Er þetta dæmt til að mistakast? Fylgist spennt með. Hvatningarorð eru vel þegin í kommentkerfið.
Maggi ofurbloggari.

laugardagur, mars 03, 2007

Partý

Eyjólfur Ásberg er í heimsókn frá Íslandi og ætlum við því að bjóða fólki heim í kvöld. Því miður verð ég takmarkað með í gleðskapnum vegna veikinda. Nei, það eru ekki kindur sem segja vei, heldur óþverraskítur í hálsinum á mér og nefinu. Ég var slæmur þegar ég vaknaði í morgun, en er skárri núna. Það verður samt eflaust gaman að fá fólk í heimsókn.
Maggi.