miðvikudagur, nóvember 25, 2009

Á eftir 1000 kemur 700

Ég rak augun í það á Blogger að þessi færsla mín er númer 700! Það er svolítið mikið. Sjö hundruð sinnum hef ég sest niður og skrifað bloggfærslu fyrir þetta blogg. Ég var mun afkastameiri á árum áður, en það hefur nú oftast verið eitthvað líf á þessari síðu. Það eru 2581 dagar síðan ég stofnaði bloggið og skrifaði fyrstu færsluna. Hún hljómaði svo:

Hellúú. Ég ákvað að búa til mitt eigið blogg just 4 the fun of it! Gaman að þessu. Ætla að reyna að samtvinna þetta eitthvað við heimasíðuna mína og uppfæra reglulega (yeah right!). En hver veit, kanski býr í mér lítill athafnamaður sem langar að láta listræna útrás sína blómstra hér á þessari forlátu síðu. Sem verður uppfull af flash dóti áður en langt um líður! Sjáðu bara til!
Kveðja, Maggi.


Ég stóð við orðin mín og setti fullt af Flash-dóti inná síðuna, en það skraut var tekið niður fyrir löngu. Þegar þetta var skrifað var ég nýhættur í verkfræðinni í H-skólanum og farinn að velta því fyrir mér að kíkja í heimsspeki. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá! Heldur betur. Eftir rúmt hálft ár verð ég búinn með masters gráðuna mína og árið 2002 hefði ég ekki getað giskað á í hverju hún er! Reyndar geta flestir sem þekkja mig í dag ekki heldur sagt í hverju hún er, en það skiptir kannski ekki öllu máli. :)

Kannski fer ég með sögu bloggsins míns þegar ég er búinn með 1000 færslur eða bloggið verður tíu ára. En bloggið er nú bara sjö ára og færslurnar eru bara 700. Þess má til gamans geta að það hafa að meðaltali liðið 3.7 dagar á milli færslna hjá mér (eða reyndar 3.6871) þannig að mér finnst ég bara hafa verið nokkuð iðinn! Hundrað færslur á ári eða svo. Hvað ætli ég endist lengi hérna? Verð ég ennþá að blogga eftir sjö ár í viðbót? Verður fólk kannski búið að gleyma hvað blogg er eftir þann tíma? Maður spyr sig.

Maggi.
blog comments powered by Disqus