föstudagur, nóvember 13, 2009

Föstudagurinn þrettándi

Klukkan er 21.21 föstudaginn þrettánda nóvember, tvöþúsundogníu.

Ég er hræddur um að Fjóla væri ansi reið ef ég myndi ekki blogga í dag, það eru komnir níu dagar síðan ég bloggaði síðast og hún var búin að heimta a.m.k. tíu mínútna blogg innan við tíu dögum síðar. Þannig að hér er bloggið Fjóla! :)

Í dag var ég að teikna í skólanum, og ég er ekki mjög góður í því. En það snerist sem betur fer minna um að teikna vel og meira um að teikna rétt. Við vorum í hand-drawn animation tíma. Það fóru ansi margar arkir í að teikna bolta sem skoppar og snæri sem sveiflast, allt eftir kúnstarinnar reglum. Við höfum reyndar lært svipaða hluti áður en nú fáum við meiri tíma til að spreyta okkur og með betri græjur en í skólanum okkar í Danmörku. Allir fengu sitt eigið hvíta hálfgagnsæja teikniborð og fyrir aftan það skein ljós þannig að auðvelt var að sjá síðustu teikninguna gegnum blaðið. Þannig teiknar maður hverja teikninguna af annarri og reynir eftir fremsta megni að setja rétt bil á milli og teygja, toga og sveifla hlutnum í rétta átt. Á morgun höldum við svo áfram með því að teikna öldur. Þegar öldurnar eru tilbúnar eigum við að teikna bát sem skoppar á öldunum. Ef við getum eigum við að teikna mann sem skoppar í bátnum. Ef það reynist auðvelt eigum við að láta hatt skoppa á hausnum á honum! Þannig að það eru orðin ansi flókin sambönd milli allra þessara hluta. Reyndar langar mig svolítið að gera flöskuskeyti frekar en bát, og láta skeytið hoppa uppúr flöskunni. Kannski fæ ég aðra hugmynd á morgun sem verður ennþá skemmtilegri.

Að flestu leyti er skólinn hérna skemmtilegur. Þótt við séum ekki bara í tímum sem okkur langar að vera í (suma þurftum við að taka til að fá nægilega margar einingar) þá eru verkefnin í þeim flestum alveg ágæt, og kennararnir mjög fínir. Það var mjög gaman að prófa að taka upp green-screen myndband, og gaman að vinna með þau vídjó. Það var ennþá meira gaman að gera stop-motion mynd með brúðu sem við bjuggum til. Hún var um fótboltakall sem var frekar óheppinn. Ég set þá mynd hér á bloggið þegar við erum búin að vinna alla eftirvinnsluna.

Ósk er að hlusta á jólalög! Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það, það er frekar kósí, en nóvember er ekki einu sinni hálfnaður og það er ekki farið að snjóa ennþá hjá okkur! Hún vildi meina að ég væri bara heppinn að hún væri ekki byrjuð fyrr, og kannski er það rétt hjá henni.

Við bökuðum muffins áðan. Nammmm þær eru góðar og eru fullkomið nesti fyrir morgundaginn þar sem við þurfum að vera í skólanum frá níu til fimm að teikna. Þetta er eini laugardagurinn alla önnina sem við þurfum að vera í skólanum. Næsta laugardag er svaka ball í skólanum, allir að dressa sig flott og svona. Það er haldið í kastalanum hér í bænum. Jebb, þótt bærinn sé ekki stór þá er kastali og allt. Áður en ballið er, á fimmtudaginn, er partý í skólanum. Það eru mjög reglulega skólapartý hérna, og iðulega er þema. Þemað núna næst er Ninjas vs. Pirates. Virkilega nördalegt, en ekki jafn nördalegt og síðasta þema. Þá var þemað "Hello World!". Þeir skilja sem hafa einhverntíman forritað eitthvað.

Fólkið sem býr á efri hæðinni er ekki búið að vera heima í marga daga, sem er ekki nógu gott því þá getum við ekki borgað leigu! Það er sonur hjónanna sem eiga húsið sem býr hér fyrir ofan með kærustunni sinni, og hann á að taka á móti leigunni frá okkur. Vonandi verður okkur ekki hent út fyrir að vera lélegir leigjendur.

Hahaha, Ósk var að segja mér að Fjóla hefði verið að minna á áskorunina á Facebook. Ég var byrjaður og allt saman áður en hún minnti á þetta! Ég stend við mitt. Núna er ég meira að segja búinn að röfla í heilar sextán mínútur! Ætli þetta sé ekki komið gott. Þessi færsla er farin að minna á þegar ég skrifaði eins langa og leiðinlega færslu og ég mögulega gat til að tjékka hverjir nenntu að lesa hana til enda. Ég fékk nokkur komment frá óánægðum lesendum sem þrjóskuðust til að lesa hana til enda! Haha! Ég get verið svo fyndinn.

Klukkan er 21:39, föstudaginn þrettánda nóvember, tvöþúsundogníu.

Jæja Fjóla, hver er næsta áskorun? ;)

Magnús bróðir.
blog comments powered by Disqus