þriðjudagur, desember 01, 2009

Fjögur ár

Það er aldeilis að mér finnst gaman að setja tölur í titilinn á bloggfærslunum mínum. Í dag erum við Ósk fjögurra ára! Til hamingju með daginn okkar Óskin mín! ;) Það var 1. desember 2005 sem við byrjuðum saman þótt við værum sitt í hvoru landinu. Það er því kannski viðeigandi þótt það sé mjög svekkjandi að við séum ekki í sama landinu á þessum degi. Nei, það er ekkert viðeigandi, það er bara svekkjandi. En það líður ekki að löngu þangað til Óskin kemur aftur til mín og þá getum við fagnað saman. Ekki spillir fyrir að um leið og hún kemur heim þá á hún 25 ára afmæli sjálf! Það verður gaman og ég er farinn að hlakka mikið til.

Í dag fór ég til Linz í bíó þar sem voru sýndar stuttmyndir eftir nemendur í skólanum mínum í Hagenberg. Margar þeirra voru mjög flottar en því miður voru þær flestar á þýsku þannig að ég skildi ansi lítið. Við kíktum líka á jólamarkaðinn í miðbænum og á finnskan jólamarkað hvorki meira né minna! Við fórum þangað með finnskum vini okkar og hann spjallaði við allt sölufólkið á finnsku. Frekar súrealískt því maður býst ekki við svo norrænni stemmningu í Austurríki. Þetta er víst markaður sem ferðast um Austurríki (og kannski Þýskaland, man ekki alveg) en var að koma til fyrsta skipti til Linz. Ég smakkaði Gluhwein (heitt jóla-vín) og finnskan grillaðan lax sem var mjög gómsætur. Ég verð nú líka að koma því að að í dag keypti ég mér úlpu í dag, bara af því að hún var á 85% afslætti! Hún er reyndar mjög þægileg og ágætlega flott, en ég keypti hana aðallega útaf afslættinum. Gerir það mig að nýskupúka?

Maggi fjögurra ára og 10.000 daga gamli.
blog comments powered by Disqus