miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Köben, here I come!

Þá er ferðinni heitið til höfuðborgarinnar aftur, í þetta sinn til að fara á tónleika með Interpol!!! Jeah baby! Það verður geggjað! Interpol!! Krakkarnir ("hópurinn") voru búnir að tala eitthvað um að fara líka þessa helgi og ákváðu það áðan, þannig að við förum á morgun og komum heim á laugardaginn! Það er töluvert ódýrara að taka lestina á þessum dögum heldur en á föstudögum og sunnudögum og það er skemmtilegra að gista tvær nætur í Köben fyrst maður er að fara á annað borð. Þannig að þetta er fínasta lausn.

Lítið að frétta af mér annars. Allt gengur sinn vanagang. Mikið rætt um jóla- og áramótaplön og óvíst hvernig það endar hjá minni fjölskyldu. Ég er farinn að halda að ég endi bara á Básnum og fái mér hamborgaratilboð á aðfangadaskvöld. Gæti verið verra. En ég hlakka samt mikið til að koma heim.
Magnús.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Þegar góða gesti ber að garði...

...þá er skylda að halda partý! Ég ætla semsagt að kíkja á mannfögnuð í kvöld vegna komu kærasta Birnu og tvíburasystur og bestu vinkonu Kollu. Eflaust mikið stuð á mannskapnum enda alltaf gaman að hitta fólkið sitt eftir einhverja fjarveru. Annars er minna en mánuður þar til ég kem heim! Vúppí! Það verður hrikalega skemmtilegt, og ég hlakka extra mikið til jólanna þetta árið. Farið öll varlega heima á skerinu! Lítill fugl hvíslaði að mér að það væri búið að snjóa ofurlítið hjá ykkur. Kveðja úr góða veðrinu,
Magnús.
It's true

You can be whatever you can imagine.

You can do whatever you can imagine.

You can have whatever you can imagine.

You just have to believe it,
and that's the tricky part.

God

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

D & D

Hjálmar eru einkar skemmtileg og hressandi hljómsveit. Mæli með plötunni þeirra sem heitir 'Hljóðlega af stað'. Íslenskt reggí! Hverjum hefði dottið í huga það gæti verið skemmtilegt? Jú, liðsmönnum Hjálma greinilega.

Ég er eitthvað latur þessa dagana. Fór að vísu á Knuds Garage í gær sem er vinsælasti pöbbinn í Kolding hjá nemendum NoMA. Ég fór þó ekki til að sötra bjór heldur til að taka þátt í Pub-Quiz sem er spurningakeppni sem er haldin þar á hverju þriðjudagskvöldi. Það er virkilega skemmtilegt og virkar þannig að fólk hópar sér saman í lið og svo eru lesnar upp 32 spurningar sem og liðin skrifa niður svörin sín á blað. Stjórnandinn er stórskemmtilegur Íri og maður getur bókað það að ef Írland er valmöguleiki við einhverri af spurningunum þá er það rétta svarið. Ég, Birna og Kolla vorum saman í liði eins og síðast þegar við mættum á Pub-Quiz en það gekk nú ekki alveg jafn vel og síðast. Þá lentum við í öðru sæti og flengdum strákana á öðru ári sem við vorum að keppast við, en þeir fengu skammarverðlaunin það kvöldið. Það var hinsvegar komið að okkur að hljóta skammarverðlaunin í gærkvöldi, en við lentum í neðsta sæti ásamt einu öðru liði. Sem betur fer voru strákarnir ekki mættir í gær enda hefði okkur eflaust verið nuddað uppúr tapinu ansi lengi.
Maggi.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Mánudagur til mæðu

Æðislega gaman að mæta örþreyttur í skólann á mánudagsmorgni og frétta þá að kennarinn er veikur og maður hefði getað sofið tveimur tímum lengur. Eða bíddu... NEI! Það er sko allt annað en skemmtilegt! Og nákvæmlega það sama gerðist síðasta föstudag nema þá var það annar kennari. Þeir eru eitthvað heilsulitlir greyin þessa dagana. Og ég var að lesa á mbl.is að aumingja grunnskóla-kennararnir heima á Íslandi væru voðalega slappir líka eitthvað og geta ekki mætt til vinnu. Eflaust komnir með legusár eftir þetta langa verkfall. Annars skil ég þá svosem alveg. En þetta er ömurlegt ástand fyrir alla sem koma að málinu. Vonandi finnst lausn á þessum leiðindum fljótlega.

En þrátt fyrir slappan mánudag þá var helgin mjög skemmtileg. Víí. Og á morgun er föstudagur því eins og allir vita eru bara tveir virkir dagar í Danmörku á móti tveimur helgardögum.
Maggi.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Sjaldan fellur óbarinn biskup langt frá eikinni

Stundum sest maður niður og hugsar, jæja, nú er best að blogga smá. Kannski hefur maður ekki hugmynd um hvað maður ætlar að fara að skrifa um, en þá er bezt að skrifa bara það fyrsta sem manni dettur í hug! Þá endar maður stundum með svona bull í færslunni sinni eins og núna.

Það er að koma helgi, og sem endranær þá er nóg um að ske í Kolding. Mamma og systir Rebekku eru að koma í heimsókn í dag og verða yfir helgina, Hekla ætlar að halda uppá afmælið sitt í kvöld og svo er Íslendingafélagið hér í Kolding að fara að hittast á einhverum bar hérna í bænum. Það væri eflaust skemmtilegt að kíkja á þann mannfögnuð og hitta enn fleiri Íslendinga sem eru búsettir hérna nálægt.

Ég er búinn að vera að leika mér í Flash í gær og í dag og er áhugi minn á þessu frábæra forriti að lifna við eftir einum of langan dvala. Ég setti að sjálfsögðu afraksturinn á netið svo þið getið skoðað herlegheitin ef ykkur langar til. Ég gerði eina stuttmynd sem er að finna hérna og eina aðra litla sem þú getur skoðað hér. Ég set örugglega meira svona sniðugt á netið fljótlega ef ég verð duglegur í Flashinu. Njótið helgarinnar! Hún kemur nefnilega bara einu sinni í viku. Kveðja frá Kolding,
Magnús Sveinn.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Próf og myndir

Við tókum smá könnun í skólanum í gær, bara til að sjá hvar við stöndum og svona. Mér gekk bara vel og vonaðist til að hafa náð öllum spurningunum rétt. Þetta voru bara 24 krossaspurningar úr öllum fögunum, eða sex úr hverju fagi. Við fengum svo útkomuna í dag og ég var með eina villu. Get varla verið ósáttur með það.

Ég setti loksins inn myndirnar úr afmælisveislunni í Randers síðasta föstudag þar sem Rebekka og Caroline héldu uppá tvítugsafmælin sín. Alltaf gaman að skoða myndir þannig að ég setti bara inn næstum allar myndirnar sem voru teknar. Endilega kíkið á þær hérna.
Maggi.

mánudagur, nóvember 08, 2004


Föngulegur hópur
Ammmmmmmmæli

Það var virkilega skemmtilegt á föstudaginn í afmælisveislunni hjá Rebekku og Caroline. Hún var haldin í stórum flottum sal og var mjög mikið af fólki, tæplega hundrað manns. Við fengum rosalega gott að borða og svo var bara setið og spjallað og drukkið fram eftir kvöldi. Það kom samt einhver kona og kenndi okkur kúrekadans og maður var nú alls ekki svo ryðgaður síðan við lærðum þetta í danstímum í FS. :) Svo kíktum við nokkur saman niður í bæ og fórum á Crazy Daisy í Randers, sem er miklu mun betri staður en Crazy Daisy hérna í Kolding. Hef ekki prófað staðinn í Köben. :) Þetta er semsagt skemmtistaða keðja hér um alla Danmörk. Eftir það fórum við svo uppí sveit og sváfum þar og fórum í smá göngutúr og fengum okkur að borða áður en við tókum lestina aftur til Kolding. Ég set inn myndir fljótlega af ferðinni.

Í gærkvöldi kíktum við svo í heimsókn til vina okkar og fórum niður í bæ eftir það og það var mjööög fróðlegt og skemmtilegt kvöld. Margar frábærar sögur til af því kvöldi og tekur því ekki að byrja á að segja frá því öllu. Ég sleppi því bara alveg.

Við vorum að horfa á fyrsta þáttinn í nýrri seríu af 'The O.C.' og hann var bara mjög fínn! Gúffuðum líka í okkur kalkún og kartöflum með svaka sósu og við borðuðum öll svo mikið að við gátum ekki fengið okkur eftirréttinn sem varð eftir síðast (borðuðum líka of mikið þá). Við erum miklir sælkerar en líka mikil svín.

Kannski ágætt að minnast á það að þegar ég segi 'við' í færslunum þá á ég oftar en ekki við hópinn okkar úr skólanum því við erum mjög mikið saman þessa dagana. Það er semsagt ekki bara við sem leigjum saman heldur ég, Lára, Elva, Gústi og Rebekka sem erum eins og fimmburar. Enda fólk komið með vænan skammt af einkennum hinna í hópnum. :) Vonum að við endum ekki á því að verða öll sama manneskjan.
Maggi.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Sprengidagur í nóvember?

Enn brennur í flugeldaverksmiðjunni og þessir gámar sem eru eftir virðast aldrei ætla að springa. Það síðasta sem ég heyrði var að þeir voru að hugsa um að senda skriðdreka á svæðið til að sprengja þá upp. Ekki veit ég meir um það, en það verður gott þegar þetta verður búið.

Á léttari nótunum, við erum að fara í afmælisveislu í kvöld til Randers. Rebekka og vinkona hennar Caroline ætla að halda saman uppá tvítugsafmælið sitt og stefnir allt í svaka veislu. Við erum þrettán krakkar héðan úr Kolding sem förum núna rétt á eftir með lest til Randers og í veisluna og svo gistum við öll þar í nótt. Það verður gaman að segja frá veislunni og sýna myndir. Stay tuned! Kveðja frá Kolding,
Magnús.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004


Af mbl.is
18 hours later

Það er eitt umræðuefni í Kolding í dag. Enda er það skiljanlegt þegar flueldaverksmiðja í íbúðahverfi í bænum ákveður að springa í loft upp. Það er enn verið að reyna að slökkva eldana og vonandi tekst það í dag. Þeir eru samt viðbúnir því að tveir aðrir risa gámar springi, og það gæti alveg eins gerst núna á hverri stundu.

Fjölmiðlar hér í Danmörku fjalla auðvitað um málið í öllum fréttatímum og á forsíðum blaðanna, og heima á Íslandi er víst farið að fjalla eitthvað um þetta líka þrátt fyrir að ótrúlega mikið sé í fréttunum þessa dagana. Mbl.is er með grein núna á forsíðunni hjá sér og er sú grein hérna. Sjónvarpsstöðvarnar hafa verið að sýna fullt af myndum af flugeldunum og eitthvað af klippum sem náðust af stóru sprengingunni. En á heimasíðunni hans Óla sem er á öðru ári í NoMA er vídjó af stóru sprengingunni sem hann náði útum eldhúsglunnann hjá sér og það er lang flottasta vídjó sem ég hef séð af stóru sprengingunni! Miklu flottara en það sem allar sjónvarpsstöðvarnar eru að sýna! Kíkið endilega á það. Heimasíðan hans er www.nakke.com og vídjóið er hérna.

Skrifa meira seinnna! það er verið að fara að rýma allt og sprengja gámana!!! AAAARRRGGH!!!! í alvöru! fokk.... bless í bili!.
MSJ

*** bætt við hálftíma seinna ***


False alarm...

Það var ekkert sprengt núna áðan. Við fengum samt hringingu frá Heklu sem var uppí skóla og þar voru allir reknir út því það átti að sprengja tvo gáma sem enn standa þarna nálægt eldinum. Við hlupum út til þess að sjá sprenginguna og taka myndir en um leið og við komum á staðinn fengum við aðra hringingu um að það hefði verði hætt við að sprengja, eða amk í bili. Þannig að við lékum okkur bara og tókum upp vídjó af hermönnunum og okkur sjálfum og ég náði þessari skemmtilegu mynd af tveimur hermönnum. Algjör tilviljun en fullkomin uppsetning! :D Vonandi fáum við fregnir af því þegar verður sprengt í dag þannig að við getum tekið myndir. En ég minni aftur á vídjóið hans Óla. Það er á QuickTime formati (.mov) þannig að þið þurfið slíkan spilara til að spila það. Alveg magnað. Ég læt vita þegar eitthvað fleira djúsí gerist. Kveðja,
Magnús.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004


Ótrúleg sjón!
Neyðarástand í Kolding!

Það eru nú aldeilis tíðindi frá Kolding á þessum miðvikudegi! Klukkan tvö í dag kveiknaði í flugeldaverksmiðju sem er hérna í Kolding, u.þ.b. 2 km. frá heimili okkar. Við létum nú vera að fara nær til að skoða en heyrðum læti þegar við fórum út. Klukkan kortér í sex þegar við vorum að horfa á sjónvarpið heyrðum við líka þessa rosalegu sprengingu. Við héldum að allar rúðurnar í blokkinni myndu springa! Við urðum auðvitað skelfingu lostin, hlupum út til að reyna að sjá eitthvað og um leið og við komum út heyrðum við aðra rosalega sprengingu! Við sáum hana nú samt ekki því blokkin skyggði á útsýnið. Ég, Rebekka og Elva tókum myndavélarnar okkar og fórum hjólatúr til þess að athuga gang mála. Við enduðum uppá hæð þar sem var ágætt útsýni og stóðum þar og göptum útaf þessari mögnuðu sjón. Verksmiðjan var þá búin að vera í ljósum logum í rúma fjóra klukkutíma og ennþá skutust flugeldar í allar áttir!

Slökkvuliðið ræður enn ekki við neitt og má alveg búast því að þetta verði löng barátta. Það er auðvitað rosalega erfitt að komast að þessu því það er svo mikið af sprengiefnum í geymslu þarna. Einn slökkvuliðsmaður er látinn og fréttir segja að sex til fimmtán aðrir séu slasaðir. Það logar núna í 15-20 húsum í kringum verksmiðjuna þegar þetta er skrifað. Vonandi ná þeir að bjarga restinni af hverfinu. Það er ágætis veður, lítill vindur, þannig að það ætti ekki að dreifast vegna hans í það minnsta. En þegar flugeldarnir skjótast í allar áttir er auðvitað erfitt að bjarga nálægum húsum.

Hérna erum komnar inn þær myndir sem ég náði af flugeldaverksmiðjunni. Ég er líka búinn að setja inn vídjó (á íslenskum server):
Vídjó 1: Tekið frá blokkinni þar sem við búum (2.4 MB).
Vídjó 2: Kominn nær og tala um hvað gerðist (4.7 MB).
Vídjó 3: Annað sjónarhorn (1.4 MB)
Vídjó 4: Sama sjónarhorn, nærmynd (2.8 MB)

Kveðja frá Kolding í uppnámi,
Magnús.
We're all living in America, America is wunderbar.

Það þarf svosem ekki þýska þungarokkhljómsveit til að segja okkur það, en við búum öll í Bandaríkjunum. Hvort þau séu wunderbar eða ekki má svosem deila um. En í raun ættum við öll að fá að kjósa í forsetakosningum þegar þær eru haldnar þar vegna þeirra gífurlegu áhrifa sem úrslitin munu á alla heimsbyggðina. Ef við fengjum öll að kjósa þyrfti ekki að spyrja að því hver hefði unnið kosningarnar sem voru haldnar í gær. John nokkur Kerry.

En, vegna fáfræði um stöðu mála og gífurlegs hræðsluáróðurs Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum kusu fleiri George Bush en John Kerry. Næstu fjögur árin hafa Bush og félagar frjálsar hendur til að herja stríð í þeim löndum sem þeim sýnist og reyna að mestum mætti að vinna heimsyfirráð. Spurning hvort þetta kjörtímabil nýtist þeim til að byrja á stærsta áfanganum í þeirri herferð, 'Liberation of China'. Eins og þeir hafa sagt væri Kína mun betur sett ef Bandaríkin réðu yfir þessu fjölmennasta landi í heimi.

Hvort sem þessi áætlun þeirra sé raunveruleg eða ekki (ég ef góða trú á því í ljósi augljósrar geðveilu þessarar stjórnar) þá neita ég að trúa öðru en að öll ríki heims sem Bandaríkin hafa fengið upp á móti sér með sínum aðgerðum muni gera það sem í þeirra valdi stendur til að minnka völd þessa ótrúlega valdamikla lands. Því fyrr því betra. Vonum bara að þriðja heimsstyrjöldin brjótist ekki út í leiðinni.

En við Íslendingar tökum ekki afstöðu á móti Bandaríkjunum. Við stöndum þétt að baki stóra bróður og biðjum hann um að passa okkur. Og fyrst stóri bróðir er ekkert annað en ofvirkt barn að leika sér með hlaðna byssu, erum við þá ekki eins og kornabarn sem lítur upp til stóra bróður? Okkur væri nær að vera sá fullorðni sem hefur vit fyrir barninu. En nóg af myndlíkingum. Ég vildi bara lýsa yfir vonbrigðum mínum með úrslit næturinnar. Vonandi hafa þau ekki jafn slæm áhrif og margir óttast.
Magnús.

mánudagur, nóvember 01, 2004


Leaf
Vegna fjölda áskorana...

...hef ég skipt aftur um bakgrunn. Skil ekki þessa fóbíu í fólki með ljóta bakgrunna. Stundum verður maður bara leiður á öllum formlegheitum og þarf eitthvað sem er ljótt og sker í augun svo maður kunni betur að meta seinna það sem fallegt er. Ef allt væri fallegt væri ekkert fallegt í raun. Eða hvað?

Ég er byrjaður á nýrri smásögu. Það er komin í gang smásagnakeppni á rithringnum og maður getur valið að skrifa eina málsgrein dag í sögunni. Þannig geta allir fylgst með framgangi sögunnar í heilan mánuð. Þetta þykir mér skemmtilegt og eru komnar nokkrar skemmtilegar sögur í gang. Sögurnar eiga að vera grínsögur. Ef þið viljið skrifa (eða bara lesa) þá mæli ég með því að þið kíkið í heimsókn á rithringinn.

Við erum komin af stað með nýja verkefnið okkar fyrir skólann. Það tókst að komast að niðurstöðu á sunnudaginn um hvaða fyrirtæki við ætlum að taka fyrir. Við eigum að velja okkur eitthvað fyrirtæki og gera síðu fyrir það án þess að hafa samband við fyrirtækið og auðvitað eigum við að skrifa svaka skýrslu um lausnina okkar og hvernig við unnum að henni. Ég skrifa seinna hér á síðuna hvaða fyrirtæki við völdum. :) En það er nóg að gera! Adios amigos!
Maggi.