miðvikudagur, nóvember 03, 2004

We're all living in America, America is wunderbar.

Það þarf svosem ekki þýska þungarokkhljómsveit til að segja okkur það, en við búum öll í Bandaríkjunum. Hvort þau séu wunderbar eða ekki má svosem deila um. En í raun ættum við öll að fá að kjósa í forsetakosningum þegar þær eru haldnar þar vegna þeirra gífurlegu áhrifa sem úrslitin munu á alla heimsbyggðina. Ef við fengjum öll að kjósa þyrfti ekki að spyrja að því hver hefði unnið kosningarnar sem voru haldnar í gær. John nokkur Kerry.

En, vegna fáfræði um stöðu mála og gífurlegs hræðsluáróðurs Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum kusu fleiri George Bush en John Kerry. Næstu fjögur árin hafa Bush og félagar frjálsar hendur til að herja stríð í þeim löndum sem þeim sýnist og reyna að mestum mætti að vinna heimsyfirráð. Spurning hvort þetta kjörtímabil nýtist þeim til að byrja á stærsta áfanganum í þeirri herferð, 'Liberation of China'. Eins og þeir hafa sagt væri Kína mun betur sett ef Bandaríkin réðu yfir þessu fjölmennasta landi í heimi.

Hvort sem þessi áætlun þeirra sé raunveruleg eða ekki (ég ef góða trú á því í ljósi augljósrar geðveilu þessarar stjórnar) þá neita ég að trúa öðru en að öll ríki heims sem Bandaríkin hafa fengið upp á móti sér með sínum aðgerðum muni gera það sem í þeirra valdi stendur til að minnka völd þessa ótrúlega valdamikla lands. Því fyrr því betra. Vonum bara að þriðja heimsstyrjöldin brjótist ekki út í leiðinni.

En við Íslendingar tökum ekki afstöðu á móti Bandaríkjunum. Við stöndum þétt að baki stóra bróður og biðjum hann um að passa okkur. Og fyrst stóri bróðir er ekkert annað en ofvirkt barn að leika sér með hlaðna byssu, erum við þá ekki eins og kornabarn sem lítur upp til stóra bróður? Okkur væri nær að vera sá fullorðni sem hefur vit fyrir barninu. En nóg af myndlíkingum. Ég vildi bara lýsa yfir vonbrigðum mínum með úrslit næturinnar. Vonandi hafa þau ekki jafn slæm áhrif og margir óttast.
Magnús.
blog comments powered by Disqus