Salsa/Keilu kóngur Kolding
Það er aldeilis. Fjórir dagar síðan við kláruðum prófin! Þeir liðu alveg fáránlega fljótt. Enda var rosalega gaman. Partý (þrjú réttara sagt), afmæli, bjór, heimsóknir, salsa, keila og almenn hamingja lýsa þessum dögum best. Það var mjög gaman í partýinu á föstudaginn þar sem var strandþema og allir mættu með sólgleraugu og sumir hverjir í mjög sumarlegum klæðnaði í janúarfrostinu. Ég keypti mér heilan ananas og skar innan úr honum og notaði sem glas undir vodka blandaðan í ávaxtadjús og vakti það mikla lukku. Hin partýin voru líka skemmtileg en kannski ekki í frásögur færandi. Vinir hennar Láru, þeir Einar og Jenni, voru í heimsókn hjá stelpunum alla helgina og skemmtu sér með okkur. Stórskemmtilegir strákar og alltaf gaman þegar fólk gerir sér ferð af klakanum til að kíkja á okkur baunabelgina.
Í gærkvöldi (lau) var svo haldið á Pit-Stop að venju, en það er uppáhalds skemmtistaðurinn okkar í Kolding. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrirfram en það var Salsa-kvöld í gangi og það var sko ekki óhamingja með það hjá mér! Ég dansaði salsa allt kvöldið og skemmti mér konunglega. Fólkið sem var með mér var að fíla þetta mjög misjafnlega en maður á alltaf að gefa svona "nýjum" hlutum sjens, hlutum sem maður er ekki vanur. Mér fannst rosalega gaman að dansa við þetta amk, og fyrir utan eitt atvik þá gekk það bara mjög vel! :D
Í dag átti svo Kolla afmæli (til hamingju aftur Kolla!) og hún hélt smá afmælisboð þar sem var boðið uppá heitan rétt og köku. Kræsingarnar vöktu kannski einum of mikla lukku því fólk var farið að kvarta undan magaverkjum vegna ofáts milli þess sem það hélt áfram að gúffa í sig. Eftir það kíktum við uppí keiluhöllina hérna í Kolding og spiluðum pool í smástund áður en við tókum einn leik í keilu. Ég veit ekki hvað kom yfir mig en ég var alveg funheitur og jarðaði algjörlega gamla metið mitt! Ég skoraði 198 stig og efast um að ég geti nokkurntíman toppað það. Sex fellur og einhverjar feykjur og ég veit ekki hvað og hvað. Mjög skemmtilegt, og ég held að ég geti bara sleppt því að fara aftur í keilu. Það mun aldrei ganga svona vel aftur.
Á morgun er svo alvara lífsins, eða eins alvarlegt og það verður hérna í Baunalandi (sem er ekkert mjög mikill alvarleiki svosem). Skólinn byrjar aftur og það verður bara gaman. Við erum að fara í eitthvað Design dæmi í heila viku sem veitir ekkert af eins og prófin fóru hjá okkur. Svo verð ég nú að fara að henda inn myndum, hef ekki sett inn myndir síðan flugeldaverskmiðjan tók uppá því að springa. Það eru ár og öld síðan það var, og nóg til af myndum. Bið að heilsa öllum í landi íss og snjóa.
Maggi.