föstudagur, apríl 22, 2005

"Have you seen the Icelandic movie Fálkar?"

Ég trúi varla að við höfum bara verið rúman sólarhring í Hamborg. Ég, Aggi (Húsvíkingur með meiru), Camilla (finnsk, eigandi glæsilegs Fiat Uno), Tiina (önnur finnsk vinkona okkar) og Mathieu (þýskur vinur okkar úr skólanum) lögðum af stað kl. þrjú á fimmtudaginn til Hamborgar og var planið að fara á tónleika með Bloc Party. Það er bresk hljómsveit sem ég uppgötvaði fyrr í vikunni, sótti diskinn þeirra og er búinn að spila hann mikið og fíla þá í tætlur. Við áttum ekki með miða á tónleikana og vissum að það var alveg kol-uppselt. Því fórum við beint niður að tónleikahúsi við komuna til Hamborgar, en þá var klukkutími þar til húsið átti að opna. Mathieu fór innfyrir eitthvað band og inní húsið fyrir okkur til að tjékka hvort hann gæti reddað miðum en það tókst því miður ekki.

Þegar við vorum búin að standa þarna úti í 40 mínútur og öll von virtist úti um að ná að redda miðum, þá kom gaur útúr húsinu og tók Mathieu og Agga með sér og ég og Camilla og Tiina vissum ekkert hvaðan á okkar stóð veðrið. Svo komu þeir fljótlega til baka og sögðu að gaurinn hefði bara haft tvo miða til sölu og viljað of mikinn pening fyrir þá! Það var mikið svekkelsi því það virtist vera sem gaurinn ætlaði að redda miðum fyrir okkur. Við vorum farin að hugsa um að beila bara á þessu og kíkja niðrí bæ, þegar Aggi dregur upp fjóra miða á tónleikana!!! Við trylltumst auðvitað úr einskærri gleði og hamingju! Þá hafði þessi gaur sem dró strákana í burtu unnið fullt af miðum á einhverri útvarpsstöð og seldi strákunum fjóra miða á góðu verði. Aggi og Mathieu stóðust auðvitað ekki mátið að stríða okkur svolítið og halda okkur í myrkrinu. Ótrúlegt hvað þeim tókst að halda andliti lengi. :)

Mathieu yfirgaf okkur svo því hann kom með til að heimsækja foreldra sína yfir helgina. Við hin fórum á stúfana og fundum farfuglaheimili til að gista í yfir nóttina en við urðum að vera komin inn klukkan tvö um nóttina og yfirgefa svo svæðið klukkan hálf tíu morguninn eftir, þannig að við hættum við að gista þar og fórum beint aftur á tónleikana. Það var nægur tími fram að Bloc Party þannig að við náðum alveg annari upphitunarhljómsveitinni og hún var mjög fín, breskt hressingar-rokk. Einn hljómsveitar meðlimur var alveg á rassgatinu og hélt áfram að sturta í sig! Það var mjög fyndið að sjá. En þá var komið að Bloc Party! Þegar þeir byrjuðu vorum við ekki lengi að koma okkur fremst, og í einu orði sagt voru tónleikarnir FRÁBÆRIR!!! Þvílík spilagleði og æðisleg tónlist, góð stemmning og frábær tónleikastaður! Með þessa samblöndu hvað getur klikkað spyr ég bara? Við vorum fremst allan tíman og slömmuðum með Þjóðverjunum í rokkuðu lögunum og dilluðum okkur við þau rólegri. Ég mæli með þessari hljómsveit ef þið eruð rokk-þyrst, og fyrir ykkur sem eruð á leiðinni á Hróarskeldu þá fáið þið að sjá þá spila þar!

Eftir tónleikana var haldið niður í bæ. Agga langaði að finna einhvern bar sem hafði verði í íslenskri bíómynd (sem enginn hafði þó séð) og því spurði hann mann sem var að segja okkur til vegar "Have you seen the Icelandic movie Fálkar?" Það var ekkert smá fyndið, en þess má geta að Þjóðverjinn hafði ekki séð myndina frekar en við Íslendingarnir. Við komumst þó niður í bæ á endanum og skemmtum okkur bara vel. Við römbuðum meira að segja inná einn bar með netum í loftinu, og viti menn! Við vorum búin að finna hinn eina sanna bar sem var í Fálkum! Það var mikið hlegið að því, en ekki stoppað lengi því stemmningin var lítil. Stuttu eftir þetta íslenska djók var komið að finnska djókinu. Við gengum fram hjá skyndibitastaðnum Hesburger sem er finnsk keðja. Við urðum að fara þar inn til að borða að sjálfsögðu enda tvær finnskar stúlkur með í för. Maturinn þar var alls ekki góður og Aggi blótaði honum mikið. Eina sem stelpurnar höfðu að segja var "We told you to get the chicken-burger!". Ég fékk mér Steak-burger sem ég kláraði með bestu lyst en það var aðallega útaf svengd en ekki bragðgæðum.

Þar sem við vorum hvergi með gistingu urðum við að sofa í Fiat Uno-inum sem gengur undir nafninu Prinsessan. Fyrir þá sem ekki vita er Fiat Uno langt frá því að vera rúmgóð bifreið en þó náðum við fjögur að sofa þar í nokkra tíma, sumir betur en aðrir. Þegar við vöknuðum stóð fullt af fólki fyrir framan bílinn og hlógu að okkur! Þau voru í reykingapásu þó held ég en komu ekki sér ferð til að hlægja að okkur. Við áttuðum okkur fljótlega á því að við vorum lögð kol-ólöglega! 'Bannað-að-leggja' skilti allt í kringum okkur, og við vorum rosalega heppin að hafa ekki fengið sekt. Eftir að hafa fært bílinn á löglegan stað röltum við um verslunargötur Hamborgar og ég sem ekkert ætlaði að kaupa missti mig aðeins í stórri H&M verslun. Það var líka besta mál enda mjög langt síðan ég keypti mér föt! Fyrir innan við tíu þúsund íslenskar krónur keypti ég mér sex flíkur. Þar á meðal var langþráður jakki, en ég er búinn að vera á leiðinni að kaupa mér nýjan jakka í átta mánuði! Geri aðrir betur. Svo var haldið heim á leið með stuttum stoppum í Kiel og svo í landamærabúðunum.

Þetta var frábær ferð og þakka ég ferðafélögum mínum vel fyrir. Það var skrítið að koma heim úr ferðalagi á föstudegi, en það er bara fínt, öll helgin eftir. Í gærkvöldi (föstudag) fór ég þó ekki útúr húsi vegna þreytu enda tók þessi sólarhringur í Þýskalandi frá manni alla orku. Það er þó allt að koma enda náði ég góðum 13 tíma svefni. Í svona ferð væri ég vanur að taka 200 myndir að eitthvað álíka, en í þetta sinn tók ég tvær. Þetta er munurinn á því að eiga stafræna myndavél eða Polaroid vél þar sem hver mynd kostar kringum 130 krónur íslenskar. Kannski rætist úr myndavéla-leysi mínu fljótlega, hver veit. Over and out.
Maggi.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

London, París, Róm

Það er aldeilis þeytingur á manni þessa dagana. Í gær fórum við í skólaferð til Århus og sáum þar listasafn sem sýndi verk Bill Viola sem er video-listamaður. Verkin hans voru flott en ég er nú samt ekki alveg að fatta svona nútímalist eitthvað. Ég fílaði samt upplifunina og það var gaman að sjá þetta. Eftir að hafa skoðað safnið röltum við niður í bæ og ég skoðaði Århus í fyrsta sinn því ég hef aldrei komið þangað áður. Við fengum okkur að borða og kíktum á kaffihús og röltum um miðbæinn. Þetta var mjög fín ferð og allir voru mjög hissa á því hvað hún gekk snuðrulaust fyrir sig! Að vísu átti hún að vera farin síðasta laugardag en henni var frestað á síðustu stundu og því var þetta nú ekki algjört success. Ég keypti loksins filmu sem passar í Polaroid myndavélina mína, en þá var hún með gulum bakgrunni og einhverjum asnalegum myndum á botninum! Ég veit ekki hvar þetta Polaroid ævintýri mitt endar.

Á eftir er ég svo á leiðinni til Hamborgar! Þar eru tónleikar með hljómsveitinni Bloc Party og ætlum við (ég, Aggi, Camilla, Tiina og Bodil) að freista gæfunnar og mæta á svæðið án þess að eiga miða. Vonandi komumst við inn, en hvort sem það tekst eða ekki þá verður eflaust gaman. Ég uppgötvaði þessa hljómsveit nú bara í þessari viku, en fíla þá í tætlur! Þeir spila líka á Hróarskeldu þannig að það er nú ekki hundrað í hættunni þótt við komumst ekki á tónleikana í kvöld. Við förum á Fiat druslunni hennar Camillu og við verðum bara að krossleggja fingur og vona að hún bili ekki á hraðbrautinni! :D Ekta road trip ævintýri. Við erum ekki einu sinni með gistingu, þetta verður bara að koma í ljós! Hehehe. Svo er frí í Danmörku á morgun því það er bænadagur, hvað sem það nú er. Þannig að þetta verður löng, og eflaust mjög skemmtileg helgi! Kveðja frá Kolding,
Maggi.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Sumarið er tíminn

Koldingbúar leika við hvern sinn fingur í góða veðrinu og er þessi helgi er búin að einkennast af mikilli útiveru. Við erum búin að vera í Legeparken og sitja við Koldinghus, spila strand-tennis þótt engin væri ströndin, grilla úti í garði og ganga um bæinn. Ég er alveg hættur að taka strætó nema í skólann, og hjóla því um allar trissur sem er rosalega fínt. Vonandi verður þetta gott sumar. Danir eiga það nú skilið því veðrið í fyrrasumar var alveg hundleiðinlegt og veturinn mun harðari en þeir eiga að venjast.

Ég er búinn að bæta við einkar skemmtilegri nýjung á þetta blessaða blogg. Það er linkur á veðurstofuna í Danmörku þar sem þú sérð hvernig veðrið er hér í Kolding. Þannig að ef það er rigning og rokrassgat heima á Íslandi, þá getiði kíkt á bloggið mitt og huggað ykkur við það að sólin skín nú að minnsta kosti á Magnús. :D Ef spáin er hinsvegar leiðinleg fyrir Kolding (sem við vonum nú að gerist ekki oft) þá getiði sent mér góða strauma og vonað að ég fjúki ekki af hjólinu mínu eða rigni niður eða verði fyrir eldingu eða eitthvað. Kveðjur úr góða veðrinu í Danmörku.
Maggi.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

3ds max og Lego

Við erum farin að læra á þrívíddarforrit í skólanum. Það kom mér á óvart að það er tiltölulega einfalt að búa til hluti og láta þá hreyfast. Að vísu flækjast hlutirnir hratt ef maður vill búa til eitthvað meira og flóknara en maður verður þá bara að leggjast yfir þetta. Hérna geturu séð fyrsta verkefnið mitt sem ég gerði. Ef þú lætur vídjóklippuna lúppa þá sérðu þetta betur. Ég var mjög stoltur að geta gert þetta eftir tvær kennslustundir. Vatnið er að vísu pínu kjánalegt en við erum ekkert búin að læra að gera það ennþá! :)

Í dag fórum við til Billund að heimsækja höfuðstöðvar Lego. Þar lærðum við um fyrirtækið, hvernig það virkar (þó aðallega markaðsdeildina) og skoðuðum húsið, en þarna vinna 300 manns. Í næsta bæ við vinna 3000 manns í Lego verksmiðjunni, og allt í allt vinna 7000 manns fyrir Lego um allan heim! Þetta er ansi stórt fyrirtæki og það var gaman að forvitnast um hvernig það virkar. Þeir hafa átt í erfiðleikum undanfarið og vildu þeir meina að það væri vegna þess að þeir væru of mikið að vera í takt við tímann og gleymt því sem Lego snýst um, gömlu góðu kubbana. Þeir eru því komnir með svokallað "back-to-basics strategy" sem þýðir að þeir ætla að einbeita sér að einfaldleikanum aftur. Þetta virðist vera að ganga ágætlega hjá þeim og vonandi þurfum við því ekki að horfa framá að Lego fari á hausinn. Það væri mikil synd.
Maggi.

mánudagur, apríl 11, 2005

Fiskibollur í Kolding!

Ójá! Ég fékk íslenskar fiskibollur úr dós frá ORA í kvöld! Það var æðislegt! Ég er búinn að hugsa mér gott til glóðarinnar alveg síðan strákarnir komu í heimsókn því þeir komu hlaðnir gjöfum og ein þeirra var stór fiskibolludós. Í dag hringdi ég svo í mömmu og fékk uppskriftina af fiskibollum í tómatsósu og ekki var hún nú flókin. Ég gat nú auðvitað ekki setið einn að þessum kræsingum og bauð því Birnu, Láru og Elvu í mat, sauð helling af kartöflum og mixaði þessa líka ágætu tómatsósu fyrir fiskibollurnar! Þetta var nú ekki nákvæmlega eins og mamma gerir, en mjög gott samt. Takk kærlega fyrir mig Atli og Biggi!

Eftir átið var svo var skellt mynd í tækið, Fever Pitch með Drew Barrymore og Jimmy Fallon, leikstýrð af Farelli bræðrum. Hún var alveg ágæt en var þó oft trufluð af samræðum um Hróarskeldu og aðra hluti. Mér virðist á öllu að það þurfi ekki mjög margar ræður í viðbót um dásemdir Hróarskeldu til að sannfæra þessar stúlkur um að koma með. Ég stefni á að þekkja sex hundruð manns á næstu hátíð. Það er hellingur af fólki að fara sem ég þekki og ef ég fæ einhverju ráðið þá munu allir sem eru núna á "kannski" stiginu líka enda á hátíðinni. Enda er ekki fræðilegur möguleiki að einhver þeirra myndi sjá eftir því að fara. ;)
Maggi.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Free haircut

Síðasta þriðjudag í skólanum kom Camilla að borðinu okkar í matsalnum og spurði "vill einhver fá fría klippingu?". Ég og Bjarni samþykktum það enda vantaði okkur klippingu og auðvitað væri ekki verra að fá hana frítt! Jafnvel þótt að það væru nemendur í skólanum sem myndu klippa okkur. Við komumst þó fljótlega að því að það voru ekki nemendur sem áttu að klippa okkur heldur alvöru klippikonur, og ekki nóg með að það ætti að klippa okkur heldur átti að gera það uppá sviði fyrir framan fullt af öðrum klippikonum!!! Þegar við fréttum þetta þá var of seint að bakka með þetta og það var líka alltí lagi því þetta var bara skemmtilegt.

Þetta var kynning á vörum frá fyrirtæki sem selur allskonar vörur fyrir hárgreiðslustofur og konurnar sem klipptu okkur voru frá því fyrirtæki og konurnar sem komu til að horfa á áttu allar eða unnu á hárgreiðslustofum víðsvegar um Jótland. Þetta tók allan daginn, frá hádegi til níu um kvöldið. Sú sem sá um mig var algjör pæja og mjög skemmtileg. Hún setti í mig smá ljósar strípur og þetta var í fyrsta sinn sem ég hef fengið lit í hárið! Svo klippti hún slatta af hliðunum og svo einhverja voða þríhyrninga og ferhyrninga efst á kollinn á mér en skildi samt slatta eftir þannig að ég er nú ekki orðinn stutthærður. Svo greiddi hún mig alveg svakalega þannig að ég leit út eins og John Travolta þegar hann var uppá sitt besta í dans og söngvamyndunum! Toppurinn alveg þvílíkt hátt upp og svona. En klippingin var fín og auðvitað get ég greitt það eins og ég vill. Það var nú kominn tími á að snyrta aðeins enda hafði ég ekki farið í klippingu síðan í október.

Síðustu tvær vikur í skólanum höfum við verið að vinna að sérstöku verkefni og var það að útbúa útlit á bók sem við munum gefa út í haust. Hver nemandi fær að hanna nokkrar síður í bókinn og verður það hans portfolio. Mér finnst þetta vera mjög spennandi verkefni og það verður gaman að hanna þessar síður. Við höfum allt sumarið til þess og þurfum ekki að skila inn okkar síðum fyrr en í byrjun september. Bókin verður svo send til þeirra fyrirtækja sem við sækjum um starfsnám hjá. Hugmynd hópsins míns um að hafa eina gegnsæja blaðsíðu (svipað og bökunarpappír) var valin og það var mikil ánægja með þá hugmynd. Það gefur fólki allskonar möguleika ef það lætur ímyndurnaraflið ráða ferðinni.

Þessi helgi var frekar róleg. Á föstudaginn spiluðum ég og Birna og Lárelva á Munkegade og spjölluðum svo framá nótt. Í gærkvöldi var svo eitthvað af fólki sem hittist á Munkegade og spilaði drykkjuleikinn Jónas sem vakti gríðarlega lukku! Það var ótrúlega gaman og mikið hlegið. Svo var haldið á Pitstop þar sem einn af skólabræðrum okkar sem kemur frá Afríku spilaði afríska tónlist. Það var töluvert öðruvísi en við bjuggumst við og því fórum við frekar snemma heim. Frábær helgi engu að síður. :)
Maggi.

mánudagur, apríl 04, 2005

Veðurguðirnir...

...tóku heldur betur vel á móti Bigga og Atla um síðustu helgi. Það gerðum við líka, ég, Jóhannes Bjarni og Kristjana, og eyddum við helginni saman bæði hér í Kolding og í Horsens þar sem Jói og Kristjana eiga heima.

Á fimmtudaginn fór ég til Þýskalands með Camillu, Láru, Elvu og Rósu í bílnum hennar Camillu. Ætlunin var að kaupa bjór handa strákunum og svo endaði það með því að allir keyptu sér hellings bjór og fullt af dóti. Ég keypti þrjá kassa af bjór á 100 kr. danskar og tólf hvítvínsflöskur fyrir sama verð! Það finnst mér hrikalega ódýrt. Það gerir 90 kr. íslenskar á flöskuna! Svo um kvöldið komu strákarnir og það var mögnuð móttöku-athöfn á lestarstöðinni. Við skelltum upp partýi fyrir strákana og fórum útá líifð. Mig langaði svo mikið að eiga myndir af kvöldinu með strákunum að ég asnaðist til að taka myndavélina mína með mér út á lífið. Til að gera langa sögu stutta er hún týnd og tröllum gefin. Svona er lífið. Enn er smá sjens að hún finnist en tel ég það ólíklegt. Ég hef aldrei þorað að taka myndavélina mína með á djammið því ég er hræddur um að týna henni, og svo núna í fyrsta sinn sem ég geri það þá hverfur hún. Kaldhæðni örlaganna. En ég get engum um kennt nema sjálfum mér og ég nenni ekki að vera fúll útaf þessu. Shit happens.

Á föstudeginum vöknuðum við á hádegi og drifum okkur niðrí bæ í góða veðrinu. Við fórum með nokkrum krökkum úr skólanum í Legeparken sem er eins og nafnið gefur til kynna Leik-garður hér í bæ. Þar eru leiktæki og bekkir og útigrill og svona, og við spiluðum Boccia og fórum í bílaleik og það var hörku stuð. Seinni partinn fórum við svo til Horsens og hittum fleiri íslenska kunningja okkar. Um kvöldið kíktum við út en vorum nú ekki lengi.

Á laugardeginum röltum við um Horsens og ég og Atli keyptum okkur skó! Seinni partinn fórum við svo aftur til Kolding og gerðum okkur tilbúin fyrir pönk-partý sem finnsku stelpurnar héldu. Að sjálfsögðu þýðir þemapartý að ég fer alla leið, og ég var algjör pönkari þetta kvöld með hárið sem gadda í allar áttir! Það var magnað og vakti mikla athygli niðrí bæ. Partýið og kvöldið allt var frábært.

Sunnudagurinn var svo rólegasti dagurinn enda vorum við búin að vera á fullu síðan strákarnir stigu útúr lestinni! Þó kíktum við seinni partinn niður að Koldinghus eftir að hafa borðað íslenskar SS pylsur og flatbrauð með hangikjöti! Og já ég gleymdi að minnast á það, á föstudeginum fengum við Jói og Kristjana hamborgaratilboð af Básnum sem strákarnir komu með!! Úff hvað það var gott! :D Flest þið sem þekkið mig ættuð að vita hvað ég elska það mikið. ;)

Um kvöldið fórum við fínt út að borða á veitingastað sem heitir Bone's og fengum okkur rif, nema Kristjana sem fékk sér Hot-Wings. Maturinn var algjört æði og við gátum vart talað um annað! Þvílík snilld! Ég mæli sko með þessum stað. Svo fífluðumst við eitthvað niðrí bæ því þetta var síðasta kvöldið og við vildum ekki fara strax heim. Tekin var önnur umferð í fótboltaspili og við lékum okkur með einnota myndavélina hans Atla eftir að filman var búin. Stun-Gun anyone? Svo var eitt atvik þar sem ónefndir menn, tjah, spældu Koldingbúa með strípihneigð sinni skulum við bara segja! Hahahaha, ég hélt ég yrði ekki eldri, ég gat ekki andað úr hlátri!

En helgin tók enda og eru allir sammála um það að hún var ekkert nema frábær. Við skemmtum okkur konunglega allan tímann og ég vill þakka krökkunum fyrir komuna! Endilega komið sem oftast. Og þið sem eigið eftir að heimsækja mig, þið ættuð bara að vita hvað það er gaman að koma í heimsókn til Kolding! Það er bara ein leið að komast að því hversu gaman það er. :)

Ég fékk myndirnar sem voru teknar á myndavélina hans Jóa og ég set eitthvað af þeim á netið. Því miður hurfu allar myndirnar sem voru teknar fyrsta kvöldið því Jói var ekki með sína vél þá og mín vél týndist eins og áður segir.

Maggi.