sunnudagur, apríl 10, 2005

Free haircut

Síðasta þriðjudag í skólanum kom Camilla að borðinu okkar í matsalnum og spurði "vill einhver fá fría klippingu?". Ég og Bjarni samþykktum það enda vantaði okkur klippingu og auðvitað væri ekki verra að fá hana frítt! Jafnvel þótt að það væru nemendur í skólanum sem myndu klippa okkur. Við komumst þó fljótlega að því að það voru ekki nemendur sem áttu að klippa okkur heldur alvöru klippikonur, og ekki nóg með að það ætti að klippa okkur heldur átti að gera það uppá sviði fyrir framan fullt af öðrum klippikonum!!! Þegar við fréttum þetta þá var of seint að bakka með þetta og það var líka alltí lagi því þetta var bara skemmtilegt.

Þetta var kynning á vörum frá fyrirtæki sem selur allskonar vörur fyrir hárgreiðslustofur og konurnar sem klipptu okkur voru frá því fyrirtæki og konurnar sem komu til að horfa á áttu allar eða unnu á hárgreiðslustofum víðsvegar um Jótland. Þetta tók allan daginn, frá hádegi til níu um kvöldið. Sú sem sá um mig var algjör pæja og mjög skemmtileg. Hún setti í mig smá ljósar strípur og þetta var í fyrsta sinn sem ég hef fengið lit í hárið! Svo klippti hún slatta af hliðunum og svo einhverja voða þríhyrninga og ferhyrninga efst á kollinn á mér en skildi samt slatta eftir þannig að ég er nú ekki orðinn stutthærður. Svo greiddi hún mig alveg svakalega þannig að ég leit út eins og John Travolta þegar hann var uppá sitt besta í dans og söngvamyndunum! Toppurinn alveg þvílíkt hátt upp og svona. En klippingin var fín og auðvitað get ég greitt það eins og ég vill. Það var nú kominn tími á að snyrta aðeins enda hafði ég ekki farið í klippingu síðan í október.

Síðustu tvær vikur í skólanum höfum við verið að vinna að sérstöku verkefni og var það að útbúa útlit á bók sem við munum gefa út í haust. Hver nemandi fær að hanna nokkrar síður í bókinn og verður það hans portfolio. Mér finnst þetta vera mjög spennandi verkefni og það verður gaman að hanna þessar síður. Við höfum allt sumarið til þess og þurfum ekki að skila inn okkar síðum fyrr en í byrjun september. Bókin verður svo send til þeirra fyrirtækja sem við sækjum um starfsnám hjá. Hugmynd hópsins míns um að hafa eina gegnsæja blaðsíðu (svipað og bökunarpappír) var valin og það var mikil ánægja með þá hugmynd. Það gefur fólki allskonar möguleika ef það lætur ímyndurnaraflið ráða ferðinni.

Þessi helgi var frekar róleg. Á föstudaginn spiluðum ég og Birna og Lárelva á Munkegade og spjölluðum svo framá nótt. Í gærkvöldi var svo eitthvað af fólki sem hittist á Munkegade og spilaði drykkjuleikinn Jónas sem vakti gríðarlega lukku! Það var ótrúlega gaman og mikið hlegið. Svo var haldið á Pitstop þar sem einn af skólabræðrum okkar sem kemur frá Afríku spilaði afríska tónlist. Það var töluvert öðruvísi en við bjuggumst við og því fórum við frekar snemma heim. Frábær helgi engu að síður. :)
Maggi.
blog comments powered by Disqus