fimmtudagur, apríl 21, 2005

London, París, Róm

Það er aldeilis þeytingur á manni þessa dagana. Í gær fórum við í skólaferð til Århus og sáum þar listasafn sem sýndi verk Bill Viola sem er video-listamaður. Verkin hans voru flott en ég er nú samt ekki alveg að fatta svona nútímalist eitthvað. Ég fílaði samt upplifunina og það var gaman að sjá þetta. Eftir að hafa skoðað safnið röltum við niður í bæ og ég skoðaði Århus í fyrsta sinn því ég hef aldrei komið þangað áður. Við fengum okkur að borða og kíktum á kaffihús og röltum um miðbæinn. Þetta var mjög fín ferð og allir voru mjög hissa á því hvað hún gekk snuðrulaust fyrir sig! Að vísu átti hún að vera farin síðasta laugardag en henni var frestað á síðustu stundu og því var þetta nú ekki algjört success. Ég keypti loksins filmu sem passar í Polaroid myndavélina mína, en þá var hún með gulum bakgrunni og einhverjum asnalegum myndum á botninum! Ég veit ekki hvar þetta Polaroid ævintýri mitt endar.

Á eftir er ég svo á leiðinni til Hamborgar! Þar eru tónleikar með hljómsveitinni Bloc Party og ætlum við (ég, Aggi, Camilla, Tiina og Bodil) að freista gæfunnar og mæta á svæðið án þess að eiga miða. Vonandi komumst við inn, en hvort sem það tekst eða ekki þá verður eflaust gaman. Ég uppgötvaði þessa hljómsveit nú bara í þessari viku, en fíla þá í tætlur! Þeir spila líka á Hróarskeldu þannig að það er nú ekki hundrað í hættunni þótt við komumst ekki á tónleikana í kvöld. Við förum á Fiat druslunni hennar Camillu og við verðum bara að krossleggja fingur og vona að hún bili ekki á hraðbrautinni! :D Ekta road trip ævintýri. Við erum ekki einu sinni með gistingu, þetta verður bara að koma í ljós! Hehehe. Svo er frí í Danmörku á morgun því það er bænadagur, hvað sem það nú er. Þannig að þetta verður löng, og eflaust mjög skemmtileg helgi! Kveðja frá Kolding,
Maggi.
blog comments powered by Disqus