sunnudagur, ágúst 31, 2003

Dansiball


Það var bara þrusuhelvítigaman á ballinu í gær. Alveg stappað af fólki, örugglega svona 600-700 manns, ég sem hélt að þeir ætluðu bara að selja 500 miða, þá er amk líft í Stapanum. En það var þá nottla bara meira af fólki til að hitta, og ég hitti alla örugglega átta sinnum. Var á fleygiferð til að hitta fólk, því það finnst mér skemmtilegast. Að vísu dansaði ég líka helling því það er gaman líka. Ég endurtók sem betur fer ekki leikinn á menningarnótt, því ég var bara rólegur í strumpameðalinu og er ekki einu sinni þunnur í dag. Ég er búinn að fá að vita hvað gerðist á mennningarnótt og sem betur fer þá man ég bara ekkert eftir því. En ég á góða vini sem björguðu lífi mínu, bókstaflega liggur mér við að segja því ég var kominn út af skemmtistað í miður góðu ástandi og hefði eflaust bara drepist þar hefðu þau ekki fundið mig. Úff, maður verður að passa sig á svona. Sem betur fer gerist þetta bara örsjaldan. Vonandi skemmtir þú þér vel í gær hver sem þú ert og hvað sem þú gerðir. Ég held ég skelli mér í sturtu núna, ekki veitir af.
..:: magchen in action ::..

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Flýgur fiskisagan...


Híhí, þetta finnst mér fyndið. Nóttina eftir Foo Fighters kíkti ég á bloggið hjá henni Betu og sá að hún var að skrifa eitthvað um hann Jónsa í Í svörtum fötum. Þar sem ég hafði séð hann fyrr um kvöldið þá skrifaði ég í komment kerfið hjá henni að ég hafði séð hann stela bland í poka úr sjoppu í Hafnarfirði, sem mér sýndist einmitt hafa gerst fyrr um kvöldið. Ég hafði alls ekkert ætlað að tala um þetta sérstaklega en fyrst þetta hitti svona vel á þá ákvað ég að segja Betu hvað ég sá. Hún tók þetta auðvitað nærri sér enda er maðurinn í guðatölu hjá henni.

En kraftur kjaftasögunnar er greinilega meiri en ég gerði mér grein fyrir hér á þessu skeri okkar. Núna er Jónsi greinilega búinn að frétta þetta og skrifa svaka yfirlýsingu um hvað gerðist (sem fjallaði að vísu líka um að hann sé ekki hommi, ég held að hann þurfi að kaupa sér barnalæsingar á skápinn sinn því fólk er alltaf að rífa hann út úr skápnum án þess að hann fái neitt við ráðið, en þess má geta að ég hef enga trú á að hann sé hommi og talaði ekkert um það í umræddu kommenti). Yfirlýsinguna frá Jónsa má lesa í komment kerfinu mínu undir síðustu færslu, eða á síðunni hjá Betu. Jónsi skilaði greinilega blandinu aftur í hilluna áður en hann labbaði út, og biðst ég hér með formlega afsökunnar á að hafa þjófkennt hann. Hehe, ég er mest hissa á þessu sjálfur, að þetta hafi náð svona langt. Enn ein sönnun þess hvað Ísland er pínu-pínu-lítið.

Annars er næst á dagskránni hjá mér Sálarball í Stapa um helgina! Djöfull hefði það verið fyndið og toppað allt saman ef það hefði verið Jónsi með sveitina sína að spila um helgina. Ég hefði eflaust pikkað í hann og sagt honum að það hefði verið ég sem var að slúðra um hann á netinu. Kannski hefði hann orðið rosalega svekktur, það er erfitt að vera frægur á Íslandi.
..:: max in black ::..

miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Bloody fucking brilliant!


Það gátu nú allir sagt sér það sjálfir hvað það yrði gaman að sjá Foo Fighters í Höllinni, en samt trúir maður því varla eftirá hvað þetta var mikil snilld. Alveg frábærir tónleikar, og ef Dave Grohl stendur við orð sín og mætir hér árlega héðan í frá, þá læt ég mig sko ekki vanta.

Við vorum mættir snemma þannig að við þurftum að bíða svolítið til að fá að heyra fyrstu tóna kvöldsins sem voru frá Vínil. Allt í lagi svosem, en ég er ekkert að fíla þá alveg í botn. My Morning Jacket voru næstir og voru bara virkilega góðir. Ég bjóst svosem ekki við neinu enda aldrei heyrt neitt frá þeim, en nokkur laganna sem þeir tóku fannst mér bara mjög góð og á ég eflaust eftir að downloda einhverju með þeim áður en langt um líður. Fyndið að sjá söngvarann því hann var með rosalega mikið krullað hár og það hékk fyrir andlitinu á honum næstum allan tímann. Svolítið eins og að horfa á Chubaka (eða hvernig sem það er skrifað) syngja og spila á gítar.

Eftir dúk og disk var svo komið að aðalatriðinu, eða klukkan tíu (húsið opnaði sjö). Það er nú bara normið þannig að ég var ekkert hissa eða leiður á að bíða, það jók bara á spennuna. Dave Grohl steig á sviðið og ef hann hefði ekki þaggað niður í fagnaðarlátunum með því að byrja að tala þá held ég að lætin hefðu bara aldrei hætt. Hann sagði okkur hvað hann og hljómsveitin hans hefði verið að gera þessa tvo daga hér á Íslandi og lýsti yfir ánægju sinni með land og þjóð eins og flestir gera. Þeir höfðu étið á Stokkseyri og rambað þar í fylleríi sínu inná æfingarhúsnæðið hjá Nilfisk, ungri hljómsveit þaðan. Þeir fóru víst bara að djamma með þeim, Grohl á trommurnar og læti, og þeir urðu allir svo góðir vinir að Nilfisk spilaði eitt lag áður en Foo Fighters byrjuðu. Þvílíkur draumur örugglega fyrir þessa stráka maður. Maður gat ekki annað en öfundað þá því þetta er nottla algjör draumur. Fá að spila í troðfullri höllinni með eins dags fyrirvara og á undan ekki ómerkari sveit en Foo Fighters!

En svo byrjuðu þeir og tóku hvern hittarann á fætur öðrum þar til að maður var orðinn alveg mökk sveittur, reyndar var ekki þurr þráður á manni eftir svona tvö lög. Samt hoppaði maður eins og vitleysingur og öskraði með lögnum allan tímann eins og lög gera ráð fyrir. Engin smá stemmning allan tímann maður. Þetta voru alveg snilldar tónleikar. Áður en þeir hættu hélt Dave aðra ræðu sem fjallaði um að þeir hefðu fundið nýja uppáhalds landið sitt í heiminum og hann lagði líf sitt að veði um að þessi orð væru sönn, þannig að maður gat nú ekki annað en trúað honum. Hann lofaði líka að koma hingað árlega héðan í frá þannig að það verður ekki langt að bíða eftir álíka stemmningu í höllinni.

Og fyrir þá sem voru í stúkunni, þetta var ekki jafn slæmt og þetta leit út fyrir að vera. Svona á þetta að vera! Troðningur og hiti og læti allann tímann! Að vísu voru hrindingar í þessum rosalega troðning byrjaðar frekar snemma, löngu áður en Foo Fighters byrjuðu. Það var ástæðan fyrir því að ég nennti ekki að vera alveg fremst, en ég var á mjög fínum stað þar sem maður hafði passlega mikið pláss til þess að slamma og láta eins og fífl, en sá samt sviðið allan tímann. Ég sá hvað eftir annað að fólk var dregið upp úr þvögunni fremst og heyrði að það hefði liðið yfir einhverja. En vonandi beið enginn alvarlegan skaða af. Á tímabili var alveg manndrápshiti hjá okkur líka, en það var bara stemmning. Maður var farinn að festast við fólkið í kringum sig og svona. Skemmtileg aðferð til að skiptast á líkamsvessum við ókunnuga. Enda var það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim að hoppa í sturtu.

Þetta kvöld sýnir það og sannar að ef það eru rokktónleikar í Höllinni þá er bara bannað að missa af því. Það er alltaf svo ótrúlega gaman og fólk talar alltaf um svona hluti heillengi eftirá þannig að maður verður bara svekktari eftir því sem á líður að hafa misst af einhverju svona. Ég þekki amk einn mann sem getur sagt ykkur allt um það, nefni engin nöfn. En núna er ég farinn að sofa langþráðum svefni, lappirnar á mér eru komnar í verkfall. Sem betur fer er ég að fara á næturvakt og fer því ekki að vinna fyrr en seinni partinn á morgun. Góða nótt.
..:: magchen ::..

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

Borðtennis


Mig langar í borðtennisborð. Ef þig langar að gefa mér svoleiðis eða veist um einhvern sem langar að losna við svoleiðis fyrir lítinn pening þá máttu alveg láta mig vita. Væri vel þegið. Ég fæ svona bakteríu í mig og bara verð að framkvæma! Er að spá í að hreinsa út úr bílskúrnum og spila þar borðtennis eins og brjálaður maður þar til ég losna við bakteríuna. Held að það taki samt nokkur ár. Um að gera að byrja strax! :)
..:: mag pong ::..
Draumfarir, fávitar og Fú fæters


Ég hef látið vita hérna á blogginu ef eitthvað mikið gengur á í draumaheimi mínum, og baráttu mína við að ná stjórn á draumum mínum. Um daginn var kjörið tækifæri fyrir mig til að taka í taumana og ráða atburðarásinni en ég var of heimskur til að sjá í gegnum þetta. Ég var á þjóðhátíð í eyjum og það var dagur. Ég man ekki með hverjum ég var en við vorum í sjoppu. Ég átti tíkall og fór í spilakassa. Mér tókst að vinna mig upp og endaði í þrjátíu og fimm þúsund kalli! Ég tók það út og var ekkert smá ánægður með alla þessa peninga. Ég sagði við fullt af fólki að mig væri búið að dreyma þetta svo oft (sem er satt) og loksins væri þetta að rætast! Þetta hlyti bara að vera í alvörunni, þetta var ekki fáránlega há summa, og það var allt svo raunverulegt.

Þarna hefði ég nottla átt að fatta að ég var ekki að vinna neinn pening í alvörunni og vaknaði stuttu seinna. Mætti halda að ég væri spilafíkill því mig dreymir stundum svona "stóri vinningurinn" drauma og það er alltaf spilakassi, aldrei lottó eða neitt svoleiðis. Þetta var í fyrsta skipti sem það var ekki einhver risa summa sem ég vann þannig að ég trúði þessu. Jæja, ég fatta þetta bara næst og læt eitthvað magnað gerast.

Beta er eitthvað að velta sér uppúr gagnrýni frá öðru fólki. Sem betur fer er ég ekki frægur því ég myndi ekki höndla of mikla gagnrýni á það sem ég er að gera. Fólk er nefnilega fáránlega cruel stundum. Fólk hefur verið að segja við mig að fara í djúpu laugina bara uppá flippið því maður er síngúl og vitlaus. Ég myndi svosem alveg meika að gera mig að fífli fyrir framan alþjóð ef ég vissi það ekki að það væru þúsundir manna að gagnrýna mig heima í stofu. Maður gerir þetta sjálfur, dæmir fólk alveg á stundinni, en maður myndi aldrei vilja vera dæmdur svona sjálfur nema maður sé eitthvað fullkominn, sem enginn er (en sumir virðast halda).

Þegar maður dæmir heima í stofu þá er það svo auðvelt því maður þarf ekki að hitta fólkið, og það er eins með netið. Málið er bara að á netinu þótt þú sért í hæfilegri fjarlægð þá heyrir fólkið samt gagnrýnina og tekur hana örugglega inná sig ef maður segir eitthvað slæmt. Auðvitað er það nottla tilgangurinn hjá sumum, að særa annað fólk, en það er eins og ég hef áður sagt, algjörlega tilgangslaust. Með því að drulla yfir aðra þá ertu ekki að upphefja sjálfa/n þig eins og svo margir halda heldur að nudda sjálfum þér uppúr skítnum í leiðinni. En það er eins með þetta og annað, þótt ég myndi prédika þetta í hundrað ár myndi enginn breytast. Þess vegna eru þetta næstum tilgangslausar vangaveltur. Það er sem ég segi, Botnleðja sagði það best, fólk er fífl.

En á morgun er það Foo Fighters! Það verður gaman. Hversu gaman kemur í ljós hér á blogginu annað kvöld. Þá sem eiga ekki miða hvet ég til að hringja í Skífuna á morgun og tjékka hvort þeir selji ekki ósóttar pantanir á morgun. Gæti hafa verið í dag eða bara ekkert yfir höfuð, en það sakar ekki að reyna. Þannig komst ég á Rammstein, og fólk er ennþá að tala um Rammstein tónleikana. Maður má bara ekki missa af svona viðburðum. Sjáumst í höllinni á morgun! :)
..:: foo maggi ::..

mánudagur, ágúst 25, 2003

Rut fann illa kallinn aftur!


Þeir baggalúts menn eru alltaf góðir. Mér þykja samhverfurnar bestar. Prófaðu að lesa fyrirsögnina afturábak. Hvernig dettur þessum mönnum þetta í hug? Það er ég ekki alveg að fatta. Nema að setningar eins og Arafat sarð rök skörð Rastafara komi reglulega fyrir hjá þeim og þeir hafi bara allt í einu fattað að hún er alveg eins afturábak og áfram. Brilliant.
..:: max ::..

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Anna K...


Maður þarf greinilega að heimsækja vef amazon.com oftar. Úff maður. Ég veit ekki hvað það er við þessa manneskju, en það er greinilega eitthvað. U guys know what I'm talkin' about. Ég er bara heima núna hálf veikur. Fór ekki í vinnuna, ætla ekki að gera sömu mistök og síðast. Þá varð ég smá veikur en "harkaði það bara af mér" og mætti til vinnu en varð bara veikar og veikari og var svo heillengi að ná þessu úr mér. Svona er þetta. Maður verður að reyna að læra af mistökum sínum þótt það gangi stundum frekar illa. En núna, píla!
..:: magchen ::..

laugardagur, ágúst 23, 2003

Sumarfrí á enda...


Jæja krakkar mínir, núna er sumarfríið á enda og allir byrja í skólanum. Allir nema ég. Ég held áfram að vinna og vinna eins og hestur og skattarnir sem ég borga fara í að halda kennurunum ykkar við efnið og vonandi ykkur líka. Einhverjir hafa kvartað yfir bloggleysi undanfarinna vikna, jújú, fólkið vill fá bloggið sitt. Ég ákvað viljandi og óviljandi að taka mér smá frí, en til allrar hamingju er það búið. Ein af ástæðunum fyrir að ég tók mér pásu var að það vantaði einhvern ferskleika, og til þess að rífa hann upp þá hef ég breytt útliti síðunnar nokkuð. Gamla uppsetningin heldur sér að mestu en nýjir litir, nýtt nafn og nýr haus á síðuna setur vonandi örlítið nýjan brag á hana fyrir veturinn. Endilega segið mér hvað ykkur finnst um þetta í könnuninni hér til hægri. Þess má geta að metþáttaka var í síðustu könnun (líklega vegna þess að hún var uppi svo lengi) og í henni þóttust níu af fjörtíuogníu heita Jón. Af því dreg ég þá ályktun að 52.000 Íslendingar beri nafnið Jón. Þar sem helmingurinn er kvenkyns hlýtur því 36,5% íslenskra karlmanna að heita Jón. Það er nokkuð hátt hlutfall. Ég er að spá í að birta þessar niðurstöður í fjölmiðlum og sækja svo um vinnu hjá Gallup. Þeir myndu eflaust taka mér með opnum örmum.

Annars er ekkert mikið að frétta af mér. Ég fór eins og flest mannsbörn á Íslandi á menningarnótt og það var gaman. Ég týndi þó símanum mínum sem var ekkert gaman, hann var bara tveggja vikna gamall og getur því ekkert spjarað sig einn. Tvöhundruðogfimmtíu símanúmer missti ég þar líka og á eflaust ekki eftir að fá nema brot af þeim aftur. Tilgangslaust að svekkja sig á svona hlutum. Enda var þetta eflaust mér að kenna. Ég man nefnilega ekkert eftir miðnætti þessa nótt, og þá meina ég ekki neitt. Þeir sem geta veitt upplýsingar um hvað ég gerði þessa nótt mega hafa samband við lögregluna í Keflavík, eða bara skrifa hérna í shout-outið.

Ég ætla að reyna að vera duglegur að skrifa hérna hér eftir og um ókomna tíð, enda er fólk farið að byrja í skólanum og svona og þá fer netnotkun uppúr öllu valdi. Einhver verður að sefa múginn á þessum síðustu og verstu tímum. Góðar stundir.
..:: max ::..

miðvikudagur, ágúst 06, 2003

Tvöfaldur vodki í Húsavíkurjógúrt...!


Hehe, já það var sko gaman í Eyjum. Fór á fimmtudagskvöld og kom heim á mánudagskvöldi. Bara gaman, fjögur fyllerí og hvert öðru betra. Sunnudagurinn toppaði allt og það var þá sem þessi undraverði drykkur var fundinn upp. Ekki undraverður að því leiti að hann hafi verið góður, en hann var drykkjarhæfur og það kom mikið á óvart. Ég drakk hann að minnsta kosti með bestu lyst og enginn ældi sem smakkaði. Þetta var bara snilld. Ég nenni ekki að koma með díteilaða ferðasögu því ég nenni ekki að skrifa hana í fyrsta lagi og það nennir enginn (eða teljandi á einum fingri hægri handar) nennir að lesa svo langa færslu. Kem kannski samt með einhverjar djúsí sögur inná milli í komandi færslum. Er styttra og oftar annars ekki að virka vel í ykkur lesendur mínir báðir? Ég held það bara. :)
..:: max ::..