miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Bloody fucking brilliant!


Það gátu nú allir sagt sér það sjálfir hvað það yrði gaman að sjá Foo Fighters í Höllinni, en samt trúir maður því varla eftirá hvað þetta var mikil snilld. Alveg frábærir tónleikar, og ef Dave Grohl stendur við orð sín og mætir hér árlega héðan í frá, þá læt ég mig sko ekki vanta.

Við vorum mættir snemma þannig að við þurftum að bíða svolítið til að fá að heyra fyrstu tóna kvöldsins sem voru frá Vínil. Allt í lagi svosem, en ég er ekkert að fíla þá alveg í botn. My Morning Jacket voru næstir og voru bara virkilega góðir. Ég bjóst svosem ekki við neinu enda aldrei heyrt neitt frá þeim, en nokkur laganna sem þeir tóku fannst mér bara mjög góð og á ég eflaust eftir að downloda einhverju með þeim áður en langt um líður. Fyndið að sjá söngvarann því hann var með rosalega mikið krullað hár og það hékk fyrir andlitinu á honum næstum allan tímann. Svolítið eins og að horfa á Chubaka (eða hvernig sem það er skrifað) syngja og spila á gítar.

Eftir dúk og disk var svo komið að aðalatriðinu, eða klukkan tíu (húsið opnaði sjö). Það er nú bara normið þannig að ég var ekkert hissa eða leiður á að bíða, það jók bara á spennuna. Dave Grohl steig á sviðið og ef hann hefði ekki þaggað niður í fagnaðarlátunum með því að byrja að tala þá held ég að lætin hefðu bara aldrei hætt. Hann sagði okkur hvað hann og hljómsveitin hans hefði verið að gera þessa tvo daga hér á Íslandi og lýsti yfir ánægju sinni með land og þjóð eins og flestir gera. Þeir höfðu étið á Stokkseyri og rambað þar í fylleríi sínu inná æfingarhúsnæðið hjá Nilfisk, ungri hljómsveit þaðan. Þeir fóru víst bara að djamma með þeim, Grohl á trommurnar og læti, og þeir urðu allir svo góðir vinir að Nilfisk spilaði eitt lag áður en Foo Fighters byrjuðu. Þvílíkur draumur örugglega fyrir þessa stráka maður. Maður gat ekki annað en öfundað þá því þetta er nottla algjör draumur. Fá að spila í troðfullri höllinni með eins dags fyrirvara og á undan ekki ómerkari sveit en Foo Fighters!

En svo byrjuðu þeir og tóku hvern hittarann á fætur öðrum þar til að maður var orðinn alveg mökk sveittur, reyndar var ekki þurr þráður á manni eftir svona tvö lög. Samt hoppaði maður eins og vitleysingur og öskraði með lögnum allan tímann eins og lög gera ráð fyrir. Engin smá stemmning allan tímann maður. Þetta voru alveg snilldar tónleikar. Áður en þeir hættu hélt Dave aðra ræðu sem fjallaði um að þeir hefðu fundið nýja uppáhalds landið sitt í heiminum og hann lagði líf sitt að veði um að þessi orð væru sönn, þannig að maður gat nú ekki annað en trúað honum. Hann lofaði líka að koma hingað árlega héðan í frá þannig að það verður ekki langt að bíða eftir álíka stemmningu í höllinni.

Og fyrir þá sem voru í stúkunni, þetta var ekki jafn slæmt og þetta leit út fyrir að vera. Svona á þetta að vera! Troðningur og hiti og læti allann tímann! Að vísu voru hrindingar í þessum rosalega troðning byrjaðar frekar snemma, löngu áður en Foo Fighters byrjuðu. Það var ástæðan fyrir því að ég nennti ekki að vera alveg fremst, en ég var á mjög fínum stað þar sem maður hafði passlega mikið pláss til þess að slamma og láta eins og fífl, en sá samt sviðið allan tímann. Ég sá hvað eftir annað að fólk var dregið upp úr þvögunni fremst og heyrði að það hefði liðið yfir einhverja. En vonandi beið enginn alvarlegan skaða af. Á tímabili var alveg manndrápshiti hjá okkur líka, en það var bara stemmning. Maður var farinn að festast við fólkið í kringum sig og svona. Skemmtileg aðferð til að skiptast á líkamsvessum við ókunnuga. Enda var það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim að hoppa í sturtu.

Þetta kvöld sýnir það og sannar að ef það eru rokktónleikar í Höllinni þá er bara bannað að missa af því. Það er alltaf svo ótrúlega gaman og fólk talar alltaf um svona hluti heillengi eftirá þannig að maður verður bara svekktari eftir því sem á líður að hafa misst af einhverju svona. Ég þekki amk einn mann sem getur sagt ykkur allt um það, nefni engin nöfn. En núna er ég farinn að sofa langþráðum svefni, lappirnar á mér eru komnar í verkfall. Sem betur fer er ég að fara á næturvakt og fer því ekki að vinna fyrr en seinni partinn á morgun. Góða nótt.
..:: magchen ::..
blog comments powered by Disqus