laugardagur, ágúst 23, 2003

Sumarfrí á enda...


Jæja krakkar mínir, núna er sumarfríið á enda og allir byrja í skólanum. Allir nema ég. Ég held áfram að vinna og vinna eins og hestur og skattarnir sem ég borga fara í að halda kennurunum ykkar við efnið og vonandi ykkur líka. Einhverjir hafa kvartað yfir bloggleysi undanfarinna vikna, jújú, fólkið vill fá bloggið sitt. Ég ákvað viljandi og óviljandi að taka mér smá frí, en til allrar hamingju er það búið. Ein af ástæðunum fyrir að ég tók mér pásu var að það vantaði einhvern ferskleika, og til þess að rífa hann upp þá hef ég breytt útliti síðunnar nokkuð. Gamla uppsetningin heldur sér að mestu en nýjir litir, nýtt nafn og nýr haus á síðuna setur vonandi örlítið nýjan brag á hana fyrir veturinn. Endilega segið mér hvað ykkur finnst um þetta í könnuninni hér til hægri. Þess má geta að metþáttaka var í síðustu könnun (líklega vegna þess að hún var uppi svo lengi) og í henni þóttust níu af fjörtíuogníu heita Jón. Af því dreg ég þá ályktun að 52.000 Íslendingar beri nafnið Jón. Þar sem helmingurinn er kvenkyns hlýtur því 36,5% íslenskra karlmanna að heita Jón. Það er nokkuð hátt hlutfall. Ég er að spá í að birta þessar niðurstöður í fjölmiðlum og sækja svo um vinnu hjá Gallup. Þeir myndu eflaust taka mér með opnum örmum.

Annars er ekkert mikið að frétta af mér. Ég fór eins og flest mannsbörn á Íslandi á menningarnótt og það var gaman. Ég týndi þó símanum mínum sem var ekkert gaman, hann var bara tveggja vikna gamall og getur því ekkert spjarað sig einn. Tvöhundruðogfimmtíu símanúmer missti ég þar líka og á eflaust ekki eftir að fá nema brot af þeim aftur. Tilgangslaust að svekkja sig á svona hlutum. Enda var þetta eflaust mér að kenna. Ég man nefnilega ekkert eftir miðnætti þessa nótt, og þá meina ég ekki neitt. Þeir sem geta veitt upplýsingar um hvað ég gerði þessa nótt mega hafa samband við lögregluna í Keflavík, eða bara skrifa hérna í shout-outið.

Ég ætla að reyna að vera duglegur að skrifa hérna hér eftir og um ókomna tíð, enda er fólk farið að byrja í skólanum og svona og þá fer netnotkun uppúr öllu valdi. Einhver verður að sefa múginn á þessum síðustu og verstu tímum. Góðar stundir.
..:: max ::..
blog comments powered by Disqus