þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Það styttist í heimkomu

Þann 16. desember flýg ég heim og skv. útreikningum mínum eru bara tvær og hálf vika í það! Merkilegt alveg. Það er allt að skýrast í sambandi við San Francisco. Í gær frétti ég að ég fæ að vera tvo daga í viku hjá fyrirtæki sem heitir Elastic Creative. Þeir eru í grafískri hönnun, þrívíddarhönnun, vídjóvinnslu og ýmsu öðru. Þetta er virkilega spennandi tækifæri og ég hlakka til að læra alveg helling á næstu önn. Aðra daga verð ég hjá Media Posse. Það er fyrirtækið sem David á sem kenndi okkur í haust. Þeir sem ég hef talað við segjast hafa lært meira á þessari önn í starfsnámi heldur en á hinum önnunum þremur til samans. Ég vona að það verði eins með okkur hin. :)

Ég, Elva, Lára og Camilla ætlum að búa saman í San Francisco. Við sóttum um íbúð um daginn og fengum jákvætt svar. Hún er á besta stað, kostar ekki mikið og lítur mjög vel út! Þannig að hún er næstum fullkomin. Eina vandamálið er að við erum fjögur en fólkið vill helst ekki hafa fleiri en þrjá í íbúðinni. Vonandi reddast það allt saman. Þetta er amk allt mjög spennandi. :)
Maggi.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Mugi

Mugison kom til Kolding og spilaði á Pitstop á fimmtudaginn. Staðurinn var stappaður af Íslendingum og það var mikil stemmning. Hún náði hámarki þegar Mugi tók Fatlafól og þurfti bara að syngja fyrsta orðið í laginu því salurinn tók við og kláraði lagið. Frekar súrealískt að vera á tónleikum í Danmörku þar sem 75% af fólkinu eru Íslendingar. Jói og Kristjana komu ásamt fríðu föruneyti Horsens-búa og fóru með okkur á tónleikana. Ég held að þau hafi skemmt sér mjög vel þótt það hafi verið ansi þröngt um þau í stofunni á Munkegade þar sem þau sváfu.

Annars snúast allir dagar í kringum lokaverkefnið á þriðju önninni okkar í skólanum. Við stefnum á að klára það 15. desember þannig að það er eins gott að bretta upp ermarnar. Við erum að gera mjög spennandi verkefni, endurhanna útlitið á sjónvarpsstöðinni Sirkus. Við fengum nær alveg frjálsar hendur með þetta verkefni og erum staðráðnir í að gera það vel og vera stoltir af útkomunni.

Fyrir þá sem ekki áttuði sig á því þá voru síðustu tvær færslurnar hér fyrir neðan tribute færslur til annarar bloggsíðu. Hún kallast The Dullest Blog in The World. Þar eru allar færslurnar álíka tilgangslausar en mér finnst þær mjög skemmtilegar. Hvet alla bloggara til að prófa að gera amk eina svona tilgangslausa færslu, það er nefnilega erfiðara en það sýnist. Að segja nokkrar setningar en gefa í rauninni ekki upp neinar upplýsingar um neitt. Sæl að sinni!
Maggi.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Blikkar augunum

Í dag varð þess var að ég var orðinn frekar þurr í augunum. Ég hóf því að hreyfa augnlokin mín niðurávið þar til þau huldu augun alveg. Skömmu seinna hreyfði ég augnlokin aftur uppávið þar til augun voru alveg opin. Reyndust augun ekki jafn þurr og þau voru áður en ég blikkaði. Þá hélt ég áfram daglegu amstri mínu.
Maggi.

Á gangi niður götu

Í dag gekk ég niður götu. Framundan sá ég að manneskja var að ganga beint í áttina að mér. Ég breytti stefnu minni örlítið til að rekast ekki á manneskjuna. Svo hélt ég áfram göngunni í áttina að áfangastað mínum.
Maggi.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Last day of skool...

Þá er síðasti skóladagurinn búinn! Eða svo gott sem. Í dag fengum við lokaverkefni annarinnar og nú tekur við fjögurra vikna törn í að klára það. Svo eru það jólin í lok Desember (svona fyrir ykkur sem voruð ekki alveg viss hvenær þau yrðu haldin þetta árið), og aftur út til Danmerkur til að taka próf. Í lok Janúar byrjar svo starfsnámið okkar.

Í fyrradag fékk ég þær fréttir að ég fengi að fara til San Fransisco! Þannig að ég ætla að sjálfsögðu að skella mér þangað í starfsnámið sem tekur tvo til þrjá mánuði. Það verður alveg frábært! Við erum næstum öll að fara, bestu vinirnir hérna í Kolding, þannig að við lærum bæði mikið á þessu og skemmtum okkur mjög vel! Það lítur amk út fyrir það.

Eftir San Fran fer ég svo aftur til Íslands til að vinna að lokaverkefninu mínu, því við missum íbúðina okkar hérna í Janúar. Í Júní þarf ég svo að fara aftur út til að taka próf og það er aldrei að vita nema maður skelli sér aftur á Hróarskeldu í leiðinni. ;) Svo ég haldi nú áfram að segja frá framtíðarplönum mínum þá eru ágætis líkur á því að ég flytji til Kaupmannahafnar næsta haust og haldi þar áfram í svipuðu námi og ég er í núna. Við strákarnir á Helligkorsgade erum allir að hugsa um þetta nám þannig að það er aldrei að vita nema við fáum okkur bara íbúð saman í Köben! Þannig að það er nóg að gerast, og spennandi ár framundan. :)
Maggi.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Jólin?

Mér finnst ekkert eins og það sé rétt rúmlega mánuður í jólin. Staðreyndin er samt sú að það er akkúrat mánuður þar til ég kem heim til Ísalands! Magnað. Ég hef lítið orðið var við jólaundirbúning hér í Kolding, en hef heyrt að það séu allir að missa sig í Køben. Ég man hvað mér fannst pirrandi heima hvað verslanirnar byrja snemma með jóla áróðurinn og því tek ég þátt í mótmælunum:



Jólin eiga nefnilega að byrja í Desember. Þannig er nú það.

Ég er búinn að leika mér smá í Flash og afraksturinn er nú ekki merkilegur svosem, en amk eitthvað nýtt sem var ekki hægt áður. Þú getur séð Flashið hérna en þú verður að vera með nýjasta Flash spilarann. Hann færðu hérna. Á myndinni í Flashinu erum ég og Biggi í Berlín. Ég þakka Láru fyrir afnot af myndinni. Jæja, best að prófa fleiri fídusa. :)
Maggi.

Flash 8

Jey! Það er gaman að læra á ný forrit, sérstaklega þegar þau eru svona mögnuð. Nýja útgáfan af Flash er þvílíkt kúl og það er hægt að gera ótrúlega hluti með henni! Vonandi læri ég það almennilega fyrr heldur en seinna. Og kannski fáiði að sjá hvað ég er að bralla.
Maggi.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Leyndarmál og forvitni

Stundum vildi ég að ég gæti haldið úti bloggvef þarf sem ég skrifa hvað sem mig langar til. Allt sem ég hugsa, allt sem ég geri, bara allt. En ég get það ekki því þá væri ég of berskjaldaður. Kannski ef enginn sem ég þekki læsi bloggið mitt? Kannski gæti ég stofnað annað blogg þar sem ég skrifa undir dulnefni og segi frá öllu sem er í gangi í hausnum á mér? Ef ég myndi segja þér að ég væri löngu búinn að því, og að það væri linkur á þessari síðu inná það blogg, myndir þú leita að honum?

En ef ég væri búinn að því þá myndi ég auðvitað ekki segja neitt svona. Nema að það væri of erfitt að eiga svona leyndarmál og að ég yrði að segja fólki frá því. Ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ég hef ekki gert þetta. Eða hvað.
Maggi.

föstudagur, nóvember 11, 2005

11.11 11.11

:)

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Stundum veit maður ekkert hvað færslan á að heita

Já, þegar maður sest niður við tölvuna og hugsar með sér "Tjah! Nú er kannski kominn tími á að blogga örlítið!" þá veit maður ekkert alltaf hvað maður ætlar að skrifa. Þannig að maður byrjar bara að skrifa og endar oft með allt öðruvísi færslu en maður ætlaði. Ég hef mjög oft breytt fyrirsögninni sem ég skrifaði fyrst því færslan varð um allt annað en það sem stóð efst! En núna ætla ég að halla mér. Það tók langan tíma að skrifa þessa færslu, ég tók mér pásu í henni miðri og núna eru tæpir þrír tímar síðan ég byrjaði. Hehe, þetta var mjög tilgangslaus færsla. Eða hvað?
Maggi.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Well that place was a ripoff...

Já við fórum til Gautaborgar síðasta fimmtudag. Ég, Lárelva, Kolla, Birna, Snorri, Elva Rut, Camilla og Ilari. Við lögðum af stað hálf tíu um morguninn en ég var búinn að búast við því alla vikuna að eitthvað stórt myndi klikka. Og viti menn, þegar við vorum hálfnuð til Kaupmannahafnar þá fór bíllinn að vera leiðinlegur! Vildi ekki fara yfir hundraðið þótt bensíngjöfin væri stigin í botn og dreif varla neitt uppí móti. Við hringdum á bílaleiguna og það endaði þannig að við keyrðum inn að Kastrup og fengum nýjan bíl! Það var frekar stressandi því við vissum ekki alveg hversu langan tíma tæki að keyra til Gautaborgar. En það reddaðist alveg, við vorum komin þangað um klukkan fimm og náðum auðveldlega að tjékka okkur inn á hostelið okkar og gera okkur reddý fyrir kvöldið.

Við fórum frekar snemma af stað á tónleikana því það átti eftir að redda miða handa Elvu Rut. Einhvernvegin þá reddast alltaf allt, og við náðum að kaupa miða af manni sem átti aukamiða því vinur hans hafði forfallast á síðustu stundu. Amina hitaði upp fyrir SigurRós og þær stóðu sig mjög vel. Skemmtileg, dreymandi, tilraunakennd tónlist sem þær spiluðu á allskyns skrítin hljóðfæri, meðal annars sög sem þær struku með fiðluboga.

En svo var komið að SigurRós. Þeir spiluðu fyrsta lagið (lagið Glósóli af nýju plötunni) bakvið hálf-gegnsætt tjald og þeir voru lýstir upp aftanfrá þannig að skuggamyndirnar af þeim vörpuðust á tjaldið. Það var mjög flott og gerði það að verkum að fólki sem var aftarlega hafði alveg jafn mikið að horfa á og fólkið sem var fremst. Ég og Camilla vorum á annari sætaröð, næstum alveg við sviðið, en restin af hópnum var frekar aftarlega. Þetta er tónleikahús og því eru engin slæm sæti, en ég neita því ekki að það var ótrúlega gaman að vera svona framarlega og sjá svipbrigðin á öllum sem voru að spila á sviðinu og sjá þá brosa til hvers annars þegar eitthvað fór ekki alveg eins og það var planað og svo framvegis.

Tónleikarnir voru æðislegir. Algjör unaður! Jónsi söng eins og engill, hitti á hverja einustu nótu sem hann reyndi við, sem er alveg magnað því þeir eru á miðju mjög ströngu tónleikaferðalagi. Hljómburðurinn var frábær, enda tónleikarnir haldnir í tónleikahúsi eins og áður segir. Og þeir voru ekkert að spara hávaðann! Þeir spiluðu næstum alla nýju plötuna, og það var rosalega gaman að þekkja hana svona vel fyrir tónleikana því ég er búinn að hlusta mjög mikið á hana síðan hún kom út. Auðvitað spiluðu þeir líka gamalt efni, en þetta voru fyrstu tónleikarnir mínir með þeim þar sem þeir spila ekki Svefn-G-Engla. Tónleikarnir voru líka mikið augnayndi, flottum myndum var varpað uppá risatjald bakvið hljómsveitina þegar skugga-tjaldið var ekki dregið fyrir, og það var mikið leikið með ljós til að skapa enn meiri stemmningu og auka áhrifin frá tónlistinni.

Þetta voru fimmtu SigurRósar tónleikarnir mínir og ég er hæst-ánægður með þá. Allir sem voru með í ferðinni voru líka mjög ánægðir, og sumir alveg í sjöunda himni! Ég held að það hafi orðið til nokkrir SigurRósar aðdáendur í þessari ferð okkar. Ég mæli með því að þið heima farið öll á tónleikana sem verða í höllinni núna í lok nóvember. Og ekki gleyma að hlusta vel á nýju plötuna fyrst. :)

Restin af ferðinni var mjög skemmtileg þótt djammið hafi nú klikkað all illilega. Við fundum ekki neina almennilega skemmtistaði, kannski af því að við vissum ekki hvar átti að leita, en það getur enginn sagt að við höfum ekki leitað! Mér fannst þetta þó ekki koma mikið að sök því það er alltaf gaman að vera með skemmtilegu fólki á nýjum stað.

Ég keypti mér tvö aukahluti fyrir iPoddinn minn ástkæra. Hleðslutæki svo ég þurfi ekki alltaf að stinga honum í tölvu til að hlaða hann, og ferðahátalara svo maður geti nú leyft fleirum að hlusta með sér. Þeir voru reyndar frekar dýrir, en ég keypti þá aðallega svo við gætum haft tónlist á hótelherberginu okkar á föstudagskvöldinu. Þeir eru samt mjög flottir og öflugir miðað við stærð þannig að ég er sáttur.

Á laugardaginn keyrðum við svo aftur til Kolding. Tókum brúna í þetta skiptið yfir til Danmerkur, höfðum tekið ferjuna á leiðinni til Gautaborgar. Þetta var mjög skemmtileg ferð, og ég held að það hafi aldrei verið farin ferð sem var eins uppfull af frösum eins og þessi! Tökum nokkur dæmi:

"This is not where I parked my car..."
"Well that place was a ripoff..."
"...eða eitthvað!"
"Luckyy!"
"Viltu vera Kisa!?"
"This is deffinetly where I parked my car!"

Gærdagurinn fór svo í að búa til portfolio svo við gætum sótt um að fara til San Fransisco. Ég slökkti á MSN og sökkti mér í þetta verkefni og það virkaði bara mjög vel! Ég var amk sáttur með útkomuna. Planið var að gera þetta allt í Flash, en það endaði með því að ég gerði valmyndina í Flash og mest allt annað í einföldu HMTL skjali. Ég setti inn helling af heimasíðum sem ég hef gert fyrir skólann, slatta af Flash dóti, smá slatta af ljósmyndum, og vídjóið sem ég gerði þegar David var að kenna okkur um vídijóvinnslu núna í október. Þannig að endilega kíkið á Portfolio-ið mitt! Það er að finna hérna. Þannig að þið sem haldið að við gerum ekkert í skólanum hérna úti getið séð það sjálf að við sitjum ekki auðum höndum. :)

Ósk benti mér á danska heimasíðu þar sem er hægt að senda SMS í dönsk númer! Þannig að ég hef bætt inn aftur þessum skemmtilega fídus sem var á síðunni fyrir ekki svo löngu, Senda Magga SMS! Það má bara senda fimm á dag þannig að þeir sem ætla að reyna að vera fyndnir og senda mér hundrað milljón SMS geta það ekki. Hehe. :)
Maggi.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Gautaborg, Epli, SigurRos...

Eg er i Apple bud i midbae Gautaborgar, med headphone a eyrunum ad hlusta a Wish You Were Here med Pink Floyd. SigurRos var otruleg, aedisleg, yndisleg og oll onnur god lysingarord. Nuna aetlum vid ad halda afram ad rolta um baeinn! iPoddinn er buinn ad standa sig vel, og eg var ad dekra vid hann og kaupa hledslutaeki. Hvad gerir madur ekki fyrir astvini sina. Later Amigos!
Maggi.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Komin með bílinn...

...allt klappað og klárt, og við erum á leiðinni til Gautaborgar! :D Ferðasagan seinna.
Maggi.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

LOKSINS!

Jæja, þá er iPoddinn minn langþráði kominn í hendur mínar. Ég fékk símhringingu frá TNT og skaust þangað uppeftir í strætó til að sækja hann svo ég gæti fengið hann fyrir Svíþjóðarferðina. Það var mikið strögl að komast að því af hverju hann vildi ekki spila vídjó til að byrja með, en ég fann lausn á því vandamáli að lokum. Í þessum töluðu orðum er ég að fylla hann af vídjóefni og tónlist fyrir ferðina! :D

Við leggum af stað í fyrramálið og komum aftur á laugardaginn. Við ætluðum að vera fram á sunnudag en við þurfum flest að vinna að því að koma Portfolio-inu okkar á netið fyrir mánudaginn svo við náum að sækja um í San Fransisco. Þannig að laugardagskvöldið og sunnudagurinn fara í það. Við erum níu manns að fara, en bara með átta miða á tónleikana. Vonandi reddast það þó þannig að allir geti séð sjóið. Það verður æðislegt að sjá SigurRós loksins aftur á tónleikum! Og nýji iPoddinn með í för! Þá sem langar að öfunda mig af þessum hlutum er frjálst að gera það. Stundum má maður monta sig. Og svo verð ég í annari sætaröð á tónleikunum, alveg ofaní hljómsveitinni, ekki spillir það fyrir! Og þetta er í alvöru tónleikahúsi, þannig að hljómburðurinn ætti að vera frábær! Oh, ég hlakka svo til. Víííí.
Maggi.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Jamm og jamm og júúúú

Það gengur bara vel hjá okkur í verkefninu í skólanum. Gærdagurinn og dagurinn í dag voru góðir og við náum líklegast að klára á morgun barasta! Sem er gott því að á fimmtudaginn hrúgum við slatta af fólki uppí bíl og brunum til Gautaborgar. Planið fyrir þá ferð er nú samt búið að breytast töluvert. Ísak þurfti að fara til Íslands og kemur ekki til baka í tæka tíð og bróðir hans fór líka og því getum við ekki gist hjá honum í Gautaborg. En það reddaðist, Elva Rut kemur með okkur í staðinn og við gistum á farfuglaheimili! Svo keyrum við til baka á laugardaginn í staðinn fyrir á sunnudaginn svo við höfum tíma til að klára portfolio-in okkar fyrir mánudaginn. Allt planað í þaula.

Elva Sara hringdi í mig áðan og ég heyrði hvað hún glotti mikið áður en hún byrjaði að tala. Hún er nefnilega búin að fá iPoddinn sinn í hendurnar þrátt fyrir að hún hafi pantað hann viku á eftir mér! Eins og gefur að skilja er ég ósáttur með þetta. Ástæðan hlýtur að liggja í því að ég keypti mér 60 GB en hún 30 GB. Það gæti líka verið að af því að ég keypti mér líka docking station að það sé að tefja fyrir ferlinu því það þurfti að senda það annarstaðar frá. Ég vona bara að ég fái hann á morgun svo ég geti tekið hann með til Svíþjóðar! Annars er gott að Elva fékk sinn því þá höfum við amk einhverja tónlist í græjunum á þessari löngu leið. Og vá, ég er næstum ekkert búinn að hugsa um það ég hef verið svo bissí, en ég er að fara á SigurRósar-tónleika á fimmtudagskvöldið!!! :D WoooHooooo!!! Það verður svo gaman! :D
Maggi.