mánudagur, nóvember 07, 2005

Well that place was a ripoff...

Já við fórum til Gautaborgar síðasta fimmtudag. Ég, Lárelva, Kolla, Birna, Snorri, Elva Rut, Camilla og Ilari. Við lögðum af stað hálf tíu um morguninn en ég var búinn að búast við því alla vikuna að eitthvað stórt myndi klikka. Og viti menn, þegar við vorum hálfnuð til Kaupmannahafnar þá fór bíllinn að vera leiðinlegur! Vildi ekki fara yfir hundraðið þótt bensíngjöfin væri stigin í botn og dreif varla neitt uppí móti. Við hringdum á bílaleiguna og það endaði þannig að við keyrðum inn að Kastrup og fengum nýjan bíl! Það var frekar stressandi því við vissum ekki alveg hversu langan tíma tæki að keyra til Gautaborgar. En það reddaðist alveg, við vorum komin þangað um klukkan fimm og náðum auðveldlega að tjékka okkur inn á hostelið okkar og gera okkur reddý fyrir kvöldið.

Við fórum frekar snemma af stað á tónleikana því það átti eftir að redda miða handa Elvu Rut. Einhvernvegin þá reddast alltaf allt, og við náðum að kaupa miða af manni sem átti aukamiða því vinur hans hafði forfallast á síðustu stundu. Amina hitaði upp fyrir SigurRós og þær stóðu sig mjög vel. Skemmtileg, dreymandi, tilraunakennd tónlist sem þær spiluðu á allskyns skrítin hljóðfæri, meðal annars sög sem þær struku með fiðluboga.

En svo var komið að SigurRós. Þeir spiluðu fyrsta lagið (lagið Glósóli af nýju plötunni) bakvið hálf-gegnsætt tjald og þeir voru lýstir upp aftanfrá þannig að skuggamyndirnar af þeim vörpuðust á tjaldið. Það var mjög flott og gerði það að verkum að fólki sem var aftarlega hafði alveg jafn mikið að horfa á og fólkið sem var fremst. Ég og Camilla vorum á annari sætaröð, næstum alveg við sviðið, en restin af hópnum var frekar aftarlega. Þetta er tónleikahús og því eru engin slæm sæti, en ég neita því ekki að það var ótrúlega gaman að vera svona framarlega og sjá svipbrigðin á öllum sem voru að spila á sviðinu og sjá þá brosa til hvers annars þegar eitthvað fór ekki alveg eins og það var planað og svo framvegis.

Tónleikarnir voru æðislegir. Algjör unaður! Jónsi söng eins og engill, hitti á hverja einustu nótu sem hann reyndi við, sem er alveg magnað því þeir eru á miðju mjög ströngu tónleikaferðalagi. Hljómburðurinn var frábær, enda tónleikarnir haldnir í tónleikahúsi eins og áður segir. Og þeir voru ekkert að spara hávaðann! Þeir spiluðu næstum alla nýju plötuna, og það var rosalega gaman að þekkja hana svona vel fyrir tónleikana því ég er búinn að hlusta mjög mikið á hana síðan hún kom út. Auðvitað spiluðu þeir líka gamalt efni, en þetta voru fyrstu tónleikarnir mínir með þeim þar sem þeir spila ekki Svefn-G-Engla. Tónleikarnir voru líka mikið augnayndi, flottum myndum var varpað uppá risatjald bakvið hljómsveitina þegar skugga-tjaldið var ekki dregið fyrir, og það var mikið leikið með ljós til að skapa enn meiri stemmningu og auka áhrifin frá tónlistinni.

Þetta voru fimmtu SigurRósar tónleikarnir mínir og ég er hæst-ánægður með þá. Allir sem voru með í ferðinni voru líka mjög ánægðir, og sumir alveg í sjöunda himni! Ég held að það hafi orðið til nokkrir SigurRósar aðdáendur í þessari ferð okkar. Ég mæli með því að þið heima farið öll á tónleikana sem verða í höllinni núna í lok nóvember. Og ekki gleyma að hlusta vel á nýju plötuna fyrst. :)

Restin af ferðinni var mjög skemmtileg þótt djammið hafi nú klikkað all illilega. Við fundum ekki neina almennilega skemmtistaði, kannski af því að við vissum ekki hvar átti að leita, en það getur enginn sagt að við höfum ekki leitað! Mér fannst þetta þó ekki koma mikið að sök því það er alltaf gaman að vera með skemmtilegu fólki á nýjum stað.

Ég keypti mér tvö aukahluti fyrir iPoddinn minn ástkæra. Hleðslutæki svo ég þurfi ekki alltaf að stinga honum í tölvu til að hlaða hann, og ferðahátalara svo maður geti nú leyft fleirum að hlusta með sér. Þeir voru reyndar frekar dýrir, en ég keypti þá aðallega svo við gætum haft tónlist á hótelherberginu okkar á föstudagskvöldinu. Þeir eru samt mjög flottir og öflugir miðað við stærð þannig að ég er sáttur.

Á laugardaginn keyrðum við svo aftur til Kolding. Tókum brúna í þetta skiptið yfir til Danmerkur, höfðum tekið ferjuna á leiðinni til Gautaborgar. Þetta var mjög skemmtileg ferð, og ég held að það hafi aldrei verið farin ferð sem var eins uppfull af frösum eins og þessi! Tökum nokkur dæmi:

"This is not where I parked my car..."
"Well that place was a ripoff..."
"...eða eitthvað!"
"Luckyy!"
"Viltu vera Kisa!?"
"This is deffinetly where I parked my car!"

Gærdagurinn fór svo í að búa til portfolio svo við gætum sótt um að fara til San Fransisco. Ég slökkti á MSN og sökkti mér í þetta verkefni og það virkaði bara mjög vel! Ég var amk sáttur með útkomuna. Planið var að gera þetta allt í Flash, en það endaði með því að ég gerði valmyndina í Flash og mest allt annað í einföldu HMTL skjali. Ég setti inn helling af heimasíðum sem ég hef gert fyrir skólann, slatta af Flash dóti, smá slatta af ljósmyndum, og vídjóið sem ég gerði þegar David var að kenna okkur um vídijóvinnslu núna í október. Þannig að endilega kíkið á Portfolio-ið mitt! Það er að finna hérna. Þannig að þið sem haldið að við gerum ekkert í skólanum hérna úti getið séð það sjálf að við sitjum ekki auðum höndum. :)

Ósk benti mér á danska heimasíðu þar sem er hægt að senda SMS í dönsk númer! Þannig að ég hef bætt inn aftur þessum skemmtilega fídus sem var á síðunni fyrir ekki svo löngu, Senda Magga SMS! Það má bara senda fimm á dag þannig að þeir sem ætla að reyna að vera fyndnir og senda mér hundrað milljón SMS geta það ekki. Hehe. :)
Maggi.
blog comments powered by Disqus