mánudagur, febrúar 27, 2006

Undraland

Það er margt skrítið í kýrhausnum, og það er líka margt skrítið í San Francisco. Þetta var partýhelgi, og partýin voru hvert öðru skrítnara. Á föstudaginn fór David með okkur í partý á skemmtistað, og þemað var space-dót. Til dæmis Star-Trek og Star Wars og bara allt skrítið dót úr geimnum. Sumir tóku þemað mjög alvarlega og voru í svaka búningum. Ég lét mér nægja að líma þriðja augað á mig. Lára setti inn slatta af myndum frá partýinu og þær segja meira en þúsund orð.

Í gærkvöldi (lau) ákváðum við svo að kíkja í partý sem við vissum lítið sem ekkert um með kunningja Camillu sem hún kynntist á netinu. Þetta var einkapartý og við vissum að þemað þar var Lísa í Undralandi, en við nenntum ekki að standa í neinu búningaveseni svona á síðustu stundu. Þegar við komum þangað þá kom í ljós að það var jafnvel enn ýktara en partýið frá kvöldinu áður! Þetta var Te-partý, og það voru einhver hamingju-aukandi lyf í te-inu, þannig að við héldum okkur frá því. Partýið var haldið í skuggalegu vöruhúsahverfi hérna í borginni og allt umhverfið var virkilega spúkí og eins og klippt útúr bíómynd. Til að komast inní partýið þurfti maður að skríða innum pínulitla hurð (eins og í Lísu í Undralandi) og það var búið að skreyta þvílíkt mikið og gera allt flott fyrir partýið. Það var svaka hljóðkerfi og dansgólf, frír bjór og allt til allt til að halda gott partý! Enda var hörku gaman innan um allt skrítna fólkið. Við hittum stelpu sem var búin að láta kljúfa á sér tunguna og gat hreyft hlutana tvo í sitthvora áttina. Því miður er hún ekki með tunguna útúr sér á þessari mynd. Þarna var líka fullt af "semi-frægu" fólki, t.d. gaurinn sem bjó til Mozilla vafrann og fleiri hörku forritarar og þannig fólk sem nördum þykir kannski áhugavert að rekast á. Við vorum bara heppinn að álpast inní svona elítu-partý. Við spjölluðum við einn af plötusnúðunum og honum þótti auðvitað geðveikt kúl að við værum frá Íslandi. Hann gaf mér geisladisk með einhverju setti sem hann spilaði, ég veit ekki alveg af hverju, ekki er ég að fara að ráða hann hehehe. Lára setti inn myndir af þessu partý líka. Það verður seint sagt að við sitjum aðgerðarlaus hér í þessari mögnuðu borg.

Annars er allt gott að frétta af mér. Hálsbólgan sem ég nældi mér í um daginn er á undanhaldi en veðurspáin er hundleiðinleg fyrir vikuna. Hitinn á daginn á að fara undir tíu stig og nálægt frostmarki á nóttunni! Þetta er nú ekki eitthvað sem maður bjóst við þegar maður ákvað að flytja til Californiu. En við erum Norður Evrópubúar og látum þetta ekkert á okkur fá. Gleðilegan Bolludag, Sprengidag og Öskudag! Syngið Fyrr var oft í koti kátt einu sinni fyrir mig. Kveðja frá Undralandi,
M.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

"Good Afternon, Elastic Creative. How May I Direct Your Call?"

Já það er ýmislegt sem maður lendir í um ævina. Þessa stundina líður mér eins og ritara hjá stóru amerísku fyrirtæki. Reyndar er raunin sú að ég er bara nemi hjá frekar litlu fyrirtæki, og hvorugt þeirra sem á að svara í símana eru við þannig að ég þarf að svara. "Drew is out at lunch. May I Direct you to his voicemail?"

Ég er semsagt byrjaður að "vinna" hjá hinu fyrirtækinu í starfsnáminu mínu, Elastic Creative. Ég er hérna tvisvar í viku, miðvikudaga og annað hvort þriðjudaga eða fimmtudaga eftir því hvenær þau þarfnast hjálpar minnar meira. Voandni fæ ég einhver skemmtileg verkefni hérna fljótlega, hingað til hef ég aðallega verið í skítverkunum, hella uppá kaffi og taka til og þannig lagað. Samt fínt að komast eitthvert annað af og til og prófa eitthvað nýtt. Það gengur mjög vel hjá okkur í MediaPosse. Við erum búin að taka upp nokkra stutta sjónvarpsþætti til að æfa okkur á því. Ég var gestur í tveimur þeirra og þáttastjórnandi í einum, þannig að ég er orðin sjónvarpsstjarna! Þetta er reyndar ekki til sýnis neinstaðar eins og er og það stendur ekki til held ég. En ég er amk búinn að losna við bróðurpartinn af myndavélafælni minni sem er ágætt.

Ég hef nú ekki verið mjög iðinn við að blogga þannig að það er frá nógu að segja. Hmmm... á hverju ætti ég að byrja. Heimilið okkar stækkar með hverri vikunni, núna erum við orðin sjö! Chistoffer frá Danmörku ætlar að gista hjá okkur þar til hann finnur sér stað til að búa á. Hann var í starfsnámi hér hjá David í fyrra og var einmitt líka hjá Elastic Creative. Þeim leist svo vel á hann að þeir eru búnir að ráða hann í vinnu! Þannig að hann er fluttur hingað út og ætlar að vinna hjá Elastic í þónokkurn tíma (amk 18 mánuði held ég). Heimilið okkar er farið að líkjast alvöru heimili, við erum komin með sjónvarp (sem ég keypti á 1500 kall íslenskar!), borðstofuborð sem er reyndar þythokkíborð (næstum eins og í Friends), ég er kominn með rúm, hillur, skrifborð og stól inní herbergi til mín, þannig að þetta er allt farið að taka á sig mynd.

Um daginn fórum ég, Camilla og Lára til Santa Cruz með Mauru, vinkonu Camillu sem býr í Palo Alto. Santa Cruz er í tæpra 2ja tíma fjarlægð frá SF, en við tókum lestina til Palo Alto og keyrðum restinna af leiðinni með Mauru. (Það er skrítið að skrifa Mauru. Hún heitir Maura, borið fram Moira.) Þar fórum við á "The Boardwalk", ekta lítinn amerískan skemmtigarð við ströndina. Við fórum í rússíbana, löbbuðum á ströndinni, ég fékk mér Corn-Dog (mjög gott by the way) og við skoðuðum mannlífið. Virkilega gaman að sjá þetta allt og manni leið eins og í amerískri bíómynd. Eftir þetta röltum við um miðbæinn sem var mjög afslappaður og fínn. Ég keypti mér geðveikt flotta Vans skó (æ nó, æ nó, mér finnst gaman að versla skó, voða fyndið, en í þetta skiptið vantaði mig skó) og við fórum á súrefnis-bar sem ég hef aldrei prófað áður. Ég fann varla fyrir neinu þótt það væri eitthvað meira súrefni en vanalega sem ég andaði að mér, en ég get amk sagt að ég hafi prófað súrefnis-bar.

Ég er búinn að vera á leiðinni í bíó núna ansi lengi. Það er ótrúlega langt síðan ég hef farið og mér finnst við ekki hafa gert neitt "venjulegt" hér í borginni. Bara verið að túristast eða hangið heima (þó aðallega verið að vinna). Við fórum reyndar um daginn í Stonestown Mall, sem er soldið langt í burtu. Það var fínt, við fengum okkur Haagen-Daas ís og röltum um í frekar dýrum og flottum verslunum. Annars er svo margt sem mig langar að prófa sem ég á eftir. Við eigum heima rétt hjá Golden Gate Park, sem er risastor garður með allskonar áhugaverðum hlutum (eflaust) en ég hef ekkert kíkt í hann. Eina helgina fljótlega ætlum við svo að leigja bíl og fara til Los Angeles, og kannski stoppa í Six Flags í leiðinni sem er svaka rússíbanagarður. Það verður ekki leiðinlegt.

Ég er að spá í að kaupa mér myndavél sem fyrst (fyrir þá sem hafa áhuga á slíkum hlutum). Ég fann eina góða sem heitir Panasonic FZ30 og ég held að hún henti mér vel. Þetta er samt alltaf mikill hausverkur, því ég get ekki ákveðið hvort mig langar í litla vél se ég get alltaf verið með eða hlunk sem tekur betri myndir. Og hvort sem ég ákveð þá þarf ég að ákveða hversu dýra vél ég fæ mér, hvort ég fari í SLR vél eða eitthvað lakara. Þessi sem ég er að spá í er lík SLR vélunum að mörgu leyti en er ódýrari, og hefur líka kosti umfram þær vélar að mínu mati. Þar ber hæst manual 12x Zoom og snúnings-skjár sem ég er alveg orðinn háður eftir að hafa átt G5 véina.

Það er búið að vera frekar kalt í SF undanfarið, og þá aðallega inní herberginu mínu! Úff hvað það getur verið hrikalega kalt. Það er engin kyndng og það blæs í gegnum gluggana. Hitinn úti fer stundum nálægt frostmarki á nóttunni og þar af leiðandi er ég kominn með hálsbólgu að anda að mér svona köldu lofti á nóttunni. Paw og Rasmus keyptu sér rafmagnsofn til að hita upp sitt herbergi og ég held ég þurfi að fjárfesta í einum slíkum. Það er ekki bara sól og blíða þótt maður eigi heima í Californiu! :) Bið að heilsa ykkur heima á klakanum. Vonandi er ekki svona kalt heima hjá ykkur.
Maggi.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Það sem ég sakna frá Íslandi...

Já það er ýmislegt sem maður saknar þegar maður er ekki á Íslandi. Bragðarefur, Draumur, kúlusúkk, og bara allt íslenskt sælgæti, rúnturinn, rúmið mitt, koddinn minn, bíllinn, djammið, íslenskan... eru dæmi um hluti sem ég sakna ekki neitt. Ég sakna fjölskyldu og vina. En umfram allt sakna ég Óskar. Hún er yndisleg. Hún er ástæðan fyrir því að ég get ekki beðið eftir að komast heim aftur.

Það er allt gott að frétta af mér. Nóg að gerast, nóg að segja frá. Aldrei að vita nema ég skrifi eitthvað um það fljótlega. :)

Kær kveðja frá köldu San Francisco.
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Klukk(u) mismunur

Vikan hjá MediaPosse hefur farið í að klára að setja upp stúdíóið og að testa allt sem testa þarf áður en hægt verður að taka upp eitthvað af viti. Það byrjar allt í næstu viku. Veðrið hefur verið með besta móti, betra en það er vanalega á þessum árstíma. Það er fínt þótt maður geti nú lítið notið þess. Maður kíkir aðeins út þegar það er pása og svona, fer í hakkí sakk og borðar hádegismat frá einhverjum af ótrúlegum fjölda veitingastaða sem eru í nágrenninu.

Ég og Camilla lentum í smá ævintýri í gærdag. Það fór einhver gaur að tala við okkur og hafði rosalegan áhuga á okkur því við vorum frá Norðurlöndunum og hann var einmitt að fara að túra þar með hljómsveitinni sinni eftir tvær vikur. Hann var á leiðnni á tónleika hér í SF það sama kvöld með Metallica, REM, Green Day og nokkrum fleirum af stærstu nöfnum í bransanum og hann ætlaði að bjóða okkur með sér! Þessi gaur leit ekki út fyrir að vera í neinni hljómsveit, hann var frekar gamall (örugglega vel yfir sextugt) og í frekar skítugum fötum. Við Camilla ákváðum að rölta með honum því hann var á leiðnni að ná í miða á tónleikana. Ég varð bara að heyra meira af þessari sögu hans. Hann talaði allan tímann á leiðinni á hótelið þar sem hann ætlaði að kaupa miðana, og vissi reyndar ýmislegt um tónlist og um Norðurlöndin, til dæmis Hróarskeldu. Svo gekk hann með okkur inná fínt hótel og að tíkallasímum þar inni, þar sem hann hringdi í umboðsmann sinn til að láta vita að við ætluðum með honum á tónleikana. Svo kom að því. Hann vildi fá pening fyrir miðunum.

Ég var búinn að pikka í Camillu á meðan hann var í símanum og segja henni að "við værum ekki með neinn pening". Það var það sem við sögðum honum, þótt við værum bæði með nægan pening. Hann vildi bara fá 10 dollara frá hvoru okkar og hann gat ekki lánað okkur fram á kvöldið þegar tónleikarnir byrjuðu því unnusta hans var með kreditkortið hans og var að versla. Ég vissi allan tímann að þetta væri svikahrappur en ég dáðist að því hvað hann nennti að hafa mikið fyrir því að ná af okkur 20 dollurum. Við skildum því við hann og "ætluðum að sækja pening". Til að fullkomna söguna þá röltum við Camilla að gatnamótunum þar sem tónleikarnir áttu að vera á en fundum ekki staðinn. Þar var reyndar gamalt hús í niðurníslu sem var líklega tónleika hús fyrir ansi mörgum árum. Það hefði ekki verið leiðinlegt að fara á tónleika með öllum stærstu rokkböndum heimsins í einu! En sumt er of gott til að vera satt, og þetta var gott dæmi um það. Ég býst ekki við að einhver nái að svíkja útúr mér pening aftur eftir mögnuðustu svik sem ég veit um, sem ég og Biggi lentum í útí Thaílandi sælla minninga. Það er reyndar bara góð saga eftirá, og við fengum flott jakkaföt útúr því. Kannski rifja ég þá sögu upp seinna.

En já, ég var víst klukkaður! Þannig að hér kemur listi yfir fjóra hluti af allskonar dóti. Veij! Enjoy! :)

4 störf sem ég hef unnið yfir ævina:
Kjötvinnsla (ilmur af hráu kjöti í fötunum manns)
Hellulagnir (sandur útum allllt)
Hlaðdeildin (á hnjánum að henda 50. kg töskum / vefja heyrnartól)
Nýjasta djobbið, vídjóvinnsla hjá MediaPosse í San Francisco! :D

4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
Being John Malcovich
Igby Goes Down
Lost In Translation
Kill Bill

4 staðir sem ég hef búið á:
Ísland (Ísafjörður, Akureyri, Keflavík)
Danmörk (Kolding)
USA (San Francisco)


4 sjónvarpsþættir sem eru í uppáhaldi:
Malcolm In The Middle
My Name Is Earl
Lost
Prison Break

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Hmm.... bara fjórir?
Thaíland
Ástralía
Brasilía
Kambódía

4 heimasíður sem ég skoða daglega:
Gmail.com
Óskí :)
Bebba og Hjölli
maggi.tk :p

4 máltíðir sem ég held upp á:
Bananakaka
Bananakaka
Bananakaka
Lasagna (helst frá Familien Dafgård í DK)

4 bækur sem ég les oft:
Catcher In The Rye
(hef engar aðrar bækur lesið oft)

4 staðir sem ég myndi vilja vera á núna:
hvar sem er með ósk
uppí bústað hjá ömmu og afa
Bora Bora
Koh Phi Phi

4 manneskjur sem ég ætla að klukka:
Einar þessi
Einar hinn
Jobu Kretz
Jói Bjarni Bjarna

Góðar stundir!

Maggi.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Hólar og hæðir

San Francisco er mögnuð borg að mörgu leyti. Hún er falleg, húsin eru litrík, skrítnar og skemmtilegar verslanir, mikið af almenningsgörðum, brekkur útum allt (sumar snarbrattar), og allskonar fólk sem gerir það sem það vill án þess að vera dæmt. Svo er fólk líka bara svo almennilegt og kurteist hvar sem maður kemur. Borgin hefur þó sína galla, því öll hverfin eru ekki góð og sumstaðar mikið um glæpi og eiturlyf. Maður heldur sig frá þeim stöðum. Heimilislausir eru líka ótrúlega margir um alla borg og betla stöðugt. Biðja um mat eða smápeninga. Maður verður bara að leiða það hjá sér þótt það geti verið mjög erfitt.

Helgin var góð. Við fengum fólk í heimsókn á laugardagskvöldið, aðallega til að monta okkur af íbúðinni okkar en hún er orðin rosalega fín eftir að við tókum eldhúsið í gegn. Það er allt annað að sjá það núna eftir að við máluðum og settum upp veggfóður og spónarplötur þar sem við átti. Það er mjög flott eins og má sjá á myndum á blogginu hjá bæði Láru og Camillu. Sjálfur á ég engar myndir enda á ég ekki myndavél. Ég verð að fara að gera eitthvað í því. En já ég var að segja frá laugardagskvöldinu. Við kíktum aðeins út eftir að fólkið hafði verið hér að sötra bjór, en það varð nú ekki neitt úr neinu djammi því við vissum ekki nákvæmlega hvert förinni var heitið. Við röltum þó Broadway (jább, ekki bara í New York) og sáum mikið af áhugaverðu fólki. Þrátt fyrir að margir í borginni geri það sem þeim sýnist þá er greinilega nóg af fólki sem er að rembast við að reyna að vera eitthvað sem það er ekki. Allir sem voru á djamminu á Broadway voru rosalega feik og greinilega að reyna að líkjast einhverjum öðrum, flestir með lélegum árangri.

Í dag hittumst við svo í hádeginu hjá David og hann fór yfir hvað við munum vera að gera. Aðal hlutverk mitt er animation, sem ég er mjög sáttur við og hlakka til að takast á við. Svo byrja ég tvo daga í viku hjá Elastic Creative um miðjan mánuðinn. Eftir þetta spjall fórum ég, Haukur og Starri í göngutúr, kíktum í Buena Vista Park og fengum ágætt útsýni yfir borgina. Gengum líka í gegnum Castro hverfið sem er samkynhneigðasta hverfi í heiminum. Það er alveg magnað að sjá hvað það er gay, allt í kringum mann er alveg æpandi samkynhneigt. Svo fórum við aftur til Davids og horfðum á Superbowl sem var nú bara skemmtilegra en ég bjóst við. Þetta var fjörugur leikur og gaman að horfa þótt ég kunni ekki reglurnar nema að litlum hluta. Á morgun byrjar svo alvaran. Mæting klukkan níu og við hefjum formlega starfsnámið okkar. Það verður bara gaman og ég er viss um að þessi tími verður ótrúlega fljótur að líða.

Ef ykkur langar að sjá hvar ég á heima þá getiði skoðað það á Goggle, hérna. Húsið heitir 1251 7th Avenue, og við erum búin að skýra það Area 51 (því númerið endar á 51, voða sniðugt). :p Kær kveðja frá sunny San Francsico.
Maggi.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Moving day

Í gær hjálpuðum við David að flytja allt tæknidótið hans úr íbúðinni hans og niðrí sjónvarpsstúdíó sem hann er nýbyrjaður að leigja. Það var mikið verk, mikið drasl, og svo þurfti líka að þrífa og skipuleggja niðrí stúdíói. En þetta var líka bara gaman. Nóg af skemmtilegu fólki og allir duglegir við að taka til hendinni. Því miður þýddi þetta samt að við gerðum ekkert í íbúðinni okkar í dag. Eldhúsið er ennþá algjörlega vanhæft í að taka við nokkrum matvælum, allt skítugt og viðbjóðslegt. Það þarf að þrífa mikið og mála þar áður en eitthvað matarkyns fær að komast þar inn.

Í dag verður gerð ferð í IKEA og eitthvað af dóti keypt fyrir heimilið. Stelpurnar ætla að sjá um það því það er ekki pláss fyrir alla í bílnum hjá vinkonu Camillu, enda stór fjölskylda á þessu heimili. Ég ætla að reyna að þrífa og mála og koma mér betur fyrir hér og jafnvel rölta aðeins um hverfið og kynnast því. Fátt leiðinlegra en að uppgötva einhverja snilld sem er rétt hjá manni þegar maður er alveg að fara að flytja burt. Vonandi leikur lífið við ykkur sem eruð heima á klakanum þrátt fyrir að handboltinn hafi ekki gengið eins og best var á kosið. Adios! :)
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

But wait, there's more!

Kannastu við að ætla að skrifa bloggfærslu en nennir varla að byrja því það er of margt búið að gerast? Aha, þú giskaðir rétt, þetta er ein af þeim færslum. En ég ætla að láta mig hafa það. Ætli ég þurfi ekki að fara á hundavaði yfir sumt til að einhver nenni að lesa þetta. :)

Vikan mín á Íslandi var virkilega góð. Ég fór á snjóbretti í fyrsta skipti. Tókst ekki að drepa mig þrátt fyrir ítrekaðar (óviljandi) tilraunir en uppskar í staðinn nístandi harðsperrur eins og við var að búast. Annars eyddi ég mestöllum tíma mínum með betri helmingnum mínum og það var æði. Það var erfitt að fara burt. Mjög erfitt meira að segja. En þrátt fyrir að árlegum kveðjustundum hafi fjölgað með þessari heimsókn er ég mjög ánægður með að hafa komið heim.

Á sunnudaginn var fórum ég, Lárelva, Kolla, Birna, Rebekka og Gústi uppí flugvél sem skutlaði okkur til Stóra eplisins, höfuðborgar Empire fylkisins, Nýju Jórvíkur, New York, New York. Þar stoppuðum við Lárelva í tvær nætur og náðum við að sjá ansi mikið á þessum eina og hálfa sólarhring. Nánari útlistun á því má finna á bloggsíðum Láru og Elvu en hápunktarnir að mínu mati voru Empire State byggingin, og að rölta um götur borgarinnar í mannmergðinni.

Á þriðjudaginn (sem var víst í gær! ég trúi því varla að við höfum bara komið hingað í gær, fúff, margt búið að gerast) flugum við svo hingað til San Francisco. David tók á móti okkur á flugvellinum og skutlaði okkur í íbúðina okkar. Við erum mjög ánægð með hana, og hún er að flestu leyti mjög fín. Hún er riiisastór (150 m2), en hún er líka riiisa-skítug. Eldhúsið er virkilega ógeðslegt, en við erum að reyna að lappa uppá þetta. Það fylgdu engin húsgögn fyrir allt þetta rými, en við erum með skápa og bráðabirgða rúm. Dönsku strákunum sem eru hér í starfsnámi með okkur (Paw og Rasmus) vantaði húsnæði og þar sem við erum með nægt pláss þá ákváðum við að leyfa þeim að vera hérna með okkur! Þannig að núna erum við orðin sex saman í einni íbúð. Þetta var ákveðið núna rétt áðan og þeir eru fluttir inn. Núna þurfum við bara að finna okkur slatta af húsgögnum og þrífa allt vel og þá erum við í virkilega góðum málum. Íbúðin er í mjög fínu hverfi, ekki of mikið af heimilislausu fólki hér nálægt (sem er aðal plágan hér í SF, endalaust mikið af betlurum). Annars lýst mér mjög vel á borgina, hún er virkilega falleg og litrík og fólkið er mjög almennilegt.

En það gengur semsagt allt mjög vel, og ég er ánægður með hlutina hérna úti. Við byrjum að vinna fyrir alvöru á mánudaginn og það verður spennandi að sjá hvernig verkefni við munum takast á við. Næstu dagar fara í að koma sér betur fyrir í íbúðinni okkar og hjálpa David við að færa allan búnaðinn hans í nýja sjónvarps-stúdíóið sem hann er að byrja að leigja og setja allt upp. Ég skal reyna að vera duglegur að blogga en ég ætla samt ekki að lofa of mikið uppí ermina á mér! Ég er kominn með símanúmer hér úti og það er +1 415-439-3043. Hafið samt í huga að tímamismunurinn er átta klukkustundir! Þið eruð á undan mér (en ekki segja mér hvað gerist). Stelpurnar eru allar búnar að blogga betur um það sem á daga okkar hefur drifið og setja inn myndir þannig að kíkið endilega á bloggin þeirra, nenni ekki að setja inn linka. :)
Kveðja frá San Francsico,
Magnús Sveinn.