mánudagur, september 29, 2003

24


Þetta var nú ekki svo erfitt. Ég er núna heima hjá mér og var að koma úr vinnunni núna rétt áðan. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að ég fór í vinnuna seinnipartinn í gær. Ég vann semsagt í 24 tíma straight og það var bara alls ekki svo slæmt. Ég náði nú alveg að leggja mig svolítið í nótt, einu sinni í klukkutíma og einu sinni í tvo. Það verður samt afskaplega fínt að fá að halla sér á eftir.

Laugardagurinn var frekar misheppnaður verð ég nú að segja. Ég fór á Gaukinn og trallaði þar með verðandi vinsælustu hljómsveit Íslands, Underwater. Ég held ég kalli þá alltaf þetta þegar ég minnist á þá héðan af. Það var að vísu hörkufjör þegar þeir voru að spila en gleðin fór dvínandi eftir því sem leið á. Ég og Johnny erum eiginlega orðnar fyrstu grúppíur þessarar sveitar og erum bara stoltir af því! Þeir voru að hita upp fyrir Skímó. Við vorum nú voða stutt eftir að Skímó byrjuðu enda komum við gagngert til að sjá upphitunarsveitina sem stóð sig með prýði. Ég fékk meira að segja að hjálpa til að stilla upp trommusettinu þeirra áður en þeir byrjuðu, svaka gaman. En já, við fórum til að leita að meiri stemmningu en sú leit bar því miður ekki árangur. Hún fannst barasta hvergi og því fór restin af kvöldinu í að reyna að koma okkur heim sem tókst auðvitað á endanum.

Fréttir úr vinnunni. Ég er búinn að fá framlengdan samning fram að áramótum, en ég er ekkert viss um að ég kæri mig nokkuð um að vinna þarna áfram. Þeir eru búnir að setja á tvöfalt kerfi fyrir alla sem koma nýjir inn sem þýðir að á milli traffíka á ég að vera að vefja saman gömul heyrnatól! Það er nottla ekki mönnum bjóðandi þannig að ég fer eflaust að leita mér að nýrri vinnu. Að vísu er smá uppreisnarhugur í liðinu þarna uppfrá þannig að það gæti verið að eitthvað fari að breytast til batnaðar á þessum vinnustað. Kemur allt í ljós. But enough about me, how have you been?
..:: max ::..

föstudagur, september 26, 2003

Nothing man


Fríhelgi framundan. Og hvað gera óheitbundnir, ríkir ungir menn á fríhelgum? Ég er amk ekki að fara að spila Lúdó get ég sagt ykkur. Mig langar að kíkja í bæinn á morgun eftir pílusessjónið mitt (ég ætla að valta yfir þessa dúdda) og finna mér eitthvað techno. Ég er þannig (og hef eflaust minnst nokkrum sinnum á það hérna á blogginu) að öðru hverju, með nokkurra mánaða (helst vikna) millibili, þá verð ég að finna mér þvílíkt techno djamm og taka út uppsafnaða dans-flipp þörf mína fyrir þetta tímabil. Og núna er allt of langt síðan ég djammaði með almennilegri hardcore techno tónlist. Verð að bæta úr því. Verst hvað það eru fáir sem ég þekki sem fíla svoleiðis djamm. Hmmm... anyone? Svo er nottla ball í Stapa á laugardaginn, spurning hvort maður kíki ekki bara þangað líka. Þetta kemur bara allt í ljós. Held það sé amk fín stemmning fyrir þessu balli.

Í sambandi við þessa fyrirsögn og þessa mynd með þessari færslu. Núna frekar nýlega hefur tvisvar verið minnst á við mig að ég sé óflokkanlegur. Að allir hafi eitthvað sérstakt einkenni... eða hvernig ætti ég að orða þetta. Allavega, enginn virtist geta flokkað mig og því komst þetta fólk að þeirri niðurstöðu að ég væri bara normal. Ég hata það. Ég er ekkert normal! Það er frekar ömurlegt finnst mér bara. Ef við erum að tala um flokkun eins og rokkari/hnakki/arty-farty eða eitthvað annað, þá er ekki hægt að setja mig í neina katagoríu. Ekki það að það sé eitthvað hræðilegt, en ég þvertek fyrir að vera bara einhver melló gaur sem dýrkar ekkert og hatar ekkert. Einhver sem er bara. Lætur sér lynda við alla og enginn hefur sérstakt álit á. Bara svona nothing man. Ég held að Pearl Jam hafi verið að syngja um mig ef þetta er satt. Er þetta satt? Ef ekki, hvað er ég? Er ömurlegt að vera óflokkanlegur? Eða er það bara kúl? Endilega látið mig vita, ég er ekki sáttur við þetta.
..:: noone special ::..

þriðjudagur, september 23, 2003

Cookie dough


Það var rosalegt veður um helgina. Æðislegt að vera að vinna úti uppá heiði í svona roki. Ég reyndi að tala við einn vinnufélaga minn en það var ekkert hægt, orðin fuku bara burtu og lentu einhverstaðar annarstaðar. Stundum heyrði ég óvart eitthvað sem einhver sagði 200 metrum frá mér því orðin fuku burt frá honum og hittu ekki þann sem hann var að reyna að tala við. Það var svona hvasst.

Ég er næstum orðinn alveg lost aftur. Ég stefni enn á heimsreisu á næsta ári, en fyrirkomulag hennar verður ekki eins og ég er búinn að vera að plana það síðustu mánuði. Heimskspekingurinn (linka ekki á hann því hann er letibloggari, og nei ég er ekki letibloggari líka, i'm just going through a dry spell) er beiler, hann er hættur við að fara í mars eða apríl. Hann ætlar í ágúst eða eitthvað. Held að það sé bara til að losna við að fara með mér. Það er ekki sjens að ég fari einn. Ég hef bara enga löngun til þess. Ef maður ætlar að upplifa eitthvað svona (og þetta á við um flestar aðrar upplifanir) þá á maður að gera það með einhverjum öðrum. Ef þú sérð eða heyrir eitthvað æðislega flott þá langar þig að hafa einhvern til að deila því með og tala við. Þetta á amk við um mig.

En ekki er öll von úti enn. Fleiri vinir mínir hafa talað um að fara í heimsreisu og amk einn er nú þegar farinn að setja pening til hliðar. Þannig að út verður farið, þótt óráðið sé hvernig, hvenær og hvert. Þetta fer allt einhvernvegin.

Mér finnst að allir ættu að elska Scrubs jafn mikið og ég. Þessir þættir eru æðislegir! Endalaust fyndnir og enginn hlátur í dós. Þeir geta líka verið nokkuð djúpir og meika það alveg, en það er þessi kaldhæðnis/farsa húmor sem ég elska við þá. Allir karakterarnir eru frábærir, húsvörðurinn er snillingur og Dr. Cox er ekkert smá fyndinn. Ég er búinn að niðurhala báðum þáttaröðunum sem hafa verið gerðar. Núna í kvöld voru að hefjast sýningar á þeirri seinni í ríkissjónvarpinu. Allir að horfa á Scrubs á mánudagskvöldum! Nú eða niðurhala bara þáttunum af netinu. :)
..:: just me ::..

laugardagur, september 20, 2003

Óstöðvandi


Já ég er formlega búinn að henda frá mér öllum fyrri yfirlýsingum um að ég sé að spara peningana mína. Mér fannst ég ekki geta verið að misbjóða þessari internet-tengingu af aðalsættum með minni arfaslöku eldgömlu tölvu, þannig að ég sópaði útúr henni innvolsinu og keypti mér nýtt. Ég er semsagt kominn með nýja tölvu. Eða svo gott sem, ég keypti allt nýtt sem skiptir máli, nema skjáinn sem er hinn ágætasti. Í þetta eyddi ég þó ekki gríðarlega miklum peningum og þótti ég fá nokkuð mikið fyrir peningana sem er auðvitað hið besta mál. Núna er ég semsagt með mjög góða nettengingu (kominn með 1500 strax) og feykinóg af diskplássi (eigum við að veðja hvað ég verð fljótur að fylla 120 GB?). Ekki veit ég hvert þetta stefnir en það barasta hlýtur að vera ólöglegt því það er svo skemmtilegt. Elísabet spurði mig í gær hvort ég væri kominn með ALSD, og það finnst mér ákaflega góður punktur, þetta er ávanabindandi, örugglega meira heldur en LSD. En ég er ákaflega þreyttur og framundan er vinnuhelgi þannig að ég held að það sé ráðlagt að koma sér í bólið.

Og já, ég verð nú að monta mig smá. Ég fór í pílumót, eða svona pílu'get-2-gether' með einhverjum gaurum sem ég hélt að væru miklu betri en ég. Búnir að stunda þetta nokkuð lengi. Ég hélt ég myndi skít-tapa þessu, en annað kom á daginn. Ég var bara ekkert síðri en þeir og þegar upp var staðið var ég búinn að vinna flesta leikina! Djöfull er maður nú seigur. Ég verð örugglega í þessu núna öll föstudagskvöld þannig að þið fáið að vita hvernig þetta gengur. Ég verð að reyna að halda þessu áfram fyrst þetta byrjaði svona vel.
..:: mags ::..

sunnudagur, september 14, 2003

ADSL


Já, ég hefði nú getað sagt mér þetta sjálfur. Ég er orðinn algjör netfíkill, alveg uppá nýtt. Þetta gerðist bara á föstudagskvöldið þegar ég loksins settist niður til þess að prófa nýju tenginguna mína. Hún er nú svosem ekkert merkileg, bara venjuleg 256 kbit tenging (verður fljótlega 1500 kbit) en það er pínulítill munur frá gömlu 33.6 tengingunni minni. Og þegar ég segi pínulítill þá meina ég risastór! There is no turning back. Á föstudagsnóttina náði ég í 200 MB af dóti og það er ennþá slatti eftir á netinu sem ég get náð í. :)

Ég var nú samt helvíti duglegur í á föstudaginn. Ég og Johnny tókum okkur til og fórum tvær ferðir á haugana með drasl úr bílskúrnum og röðuðum öllu uppá nýtt. Þannig að nú er því ekkert til fyrirstöðu að skella þar inn svosem eins og einu borðtennisborði! Já, það er rétt, við erum loksins búnir að redda okkur borði og fáum það líklegast á morgun. Þá verður nú kátt í bílskúrnum.

Ég kíkti á djammið í bænum í gær. Byrjaði á að kíkja í partý til verðandi vinsælustu hljómsveitar Íslands, Underwater. Það er nýbúið að stofna hana og á hún eflaust eftir að gera góða hluti. Númi sundkall er í henni og spilaði hann á bassa þótt hann sé nú gítarleikari aðallega held ég. Svo röltum við með þeim á giggið þeirra. Þeir voru að spila á Vídalín... þeir segi ég. Það er nú ein stelpa í hljómsveitinni, söngkona úr Hafnarfirði held ég, syngur líka bara þrusuvel. Þau stóðu sig bara mjög vel og ég og Johnny vorum í því að draga fólk (þegar ég segi fólk þá meina ég stelpur) frá borðunum sínum og útá dansgólf og það var kominn slatti af liði, bara mjög gaman segi ég. Svo fórum við á röltið, ég fann eitthvað meira af vinunum og við héldum áfram að djamma. Fínasta djamm bara. Djambara.

En núna ætla ég að halda áfram að blasta tenginguna mína hér í þynnkunni. Ég fann góða leið með hjálp góðra vina til að svindla á kerfinu. Tjah, svindla og ekki svindla. Nebbla ef ég tengist hjá Háskólanum þá má ég downloda eins og vitleysingur frá útlöndum og enginn segir neitt! Það eru engar hömlur á því, þannig að þessi 100 mb sem ég er að borga fyrir eru engin hindrun núna! :) Enda duga þau ótrúlega stutt. Held ég hafi klárað þau á föstudagskvöldið! Well, c'est la vie.
..:: madsl ::..

þriðjudagur, september 09, 2003

Tíðindi úr mannheimum


Ljósanótt kom og fór, ágætis djamm það. Nennti ekkert að vera niðrí bæ um daginn, eða réttara sagt nennti enginn að hanga með mér niðrí bæ þannig að ég fór bara um kvöldið. Það var fínt, flugeldasýningin ekkert smá flott. Svo var bara allt of kalt þannig að ég fór bara í Stapann og var þar. Helvíti gott ball. Svo mörg voru nú þau orð.

Og hér eru fleiri. Ég er búinn að vera á leiðinni að kaupa mér DVD spilara í um það bil þrjú ár uppá dag. Undur og stórmerki gerðust í gær, ég fór og keypti mér spilara. Ég er líka búinn að vera á leiðinni að kaupa mér ADSL tengingu í tvö ár. Enn meiri undur og þeim mun meiri stórmerki gerðust í gær, ég fékk mér ADSL líka!! Alveg hreint magnað. Ég sem er að spara peninga. Enda keypti ég ódýrustu tenginuna (og það á tilboði) og ódýrasta spilarann (sem spilar öll kerfi) þannig að ég á nú alveg nokkrar krónur eftir. Nú er bara tvennt eftir á listanum yfir það sem ég ætla að leyfa mér að kaupa áður en ég fer í peningasvelti (eins og ég geti það eitthvað!). Það er pínulítil uppfærsla á tölvunni minni, og stafræn myndavél.

Johnny (a.k.a. Cookie) var svo góður að lána mér sjónvarp svo ég gæti nú sloppið við að deila nýju græjunni (DVD) með fjölskyldunni, því ég hef aldrei verið þeirra forréttinda aðnjótandi að vera með sjónvarp í herberginu mínu. Aðallega sökum þess að við höfum yfirleitt verið með afar fáar sjónvarpsstöðvar og því hef ég talið enga þörf á sjónvarpi bara fyrir mig. Núna erum við með tuttugu og eitthvað stöðvar og ég er að vinna í því að fá kapalinn inn í herbergið til að tengja við glænýja eldgamla 14'' sjónvarpið "mitt". Þannig að í herbergið mitt er komið sjónvarp með 20+ stöðvum, tölva með ADSL tengingu og DVD spilari. Ég mun semsagt vera þar þar til annað kemur í ljós, eflaust á árinu 2009 þegar mig fer að svengja. Þið megið því búast við afar einsleitum færslum næstu sex árin.

Nei nei, það er nú ýmislegt annað í gangi hjá mér. Ég er enn að reyna að redda mér borðtennisborði til að hafa útí bílskúr, þar sem ég er nýbúinn að koma fyrir píluspjaldi, skorborði, sófa og græjum. Spurning um að redda líka ísskáp og bretti af bjór og þá gæti maður flakkað milli herbergisins og bílskúrsins næstu sex árin. Þvílík afþreyingarárátta hjá mér þessa dagana. Kannski af því að ég vinn bara 15 daga í mánuði og er ekki búinn að mæta í sund í fleiri mánuði (stendur til að bæta úr því, jafnvel í dag) og er alveg laus við skóla og heimavinnu og slíkt vesen. Þetta verður örugglega ágætur vetur. Vill einhver kíkja í heimsókn? :)
..:: magchen ::..

fimmtudagur, september 04, 2003

Hindber


Ég er barasta alveg hættur að vera með samviskubit yfir því að fá einhvern til að vinna fyrir mig á laugardaginn. Ég fékk annan mann til þess sem ætlar að vinna fyrir minni pening, bara það sama og ég hefði fengið fyrir vaktina ef ég hefði unnið sjálfur, þannig að ég tek mér bara launalaust frí einn dag. Svo er ég búinn að vera svaka duglegur þessa dagana að vinna aukavinnu þannig að ég er löngu búinn að vinna upp þessa upphæð. Nú er bara að vona að veðrið verði sæmilegt og þá held ég að þetta kvöld geti orðið þrususkemmtilegt. Spurning hvort maður mætir á ballið eða verði bara niðrí bæ, það er ennþá allt inní myndinni.
..:: magchen ::..
:)


Ég fer á ljósanótt! Jay! Það hlaut að enda svona. En ég fer ekki á uppistandið, maður getur nottla ekki gert ALLT (akkuru getur maður ekki bara gert ALLT???) Ég er bara að vinna aukavaktir á fullu þangað til því ég þarf nottla að borga þetta. Að vísu var ég á deiti í kvöld sem gekk bara vel. Mjög casual og fínt eitthvað. Hmmm... ólíkt mér að gefa upp eitthvað svona hér á blogginu. Tjæja, aldrei að vita nema þig fáið að vita meira! ;)
..:: mags ::..

mánudagur, september 01, 2003

Fátt er svo með öllu illt...


...að ekki boði Ljósanótt. Það er ennþá vonarglæta fyrir niðurbrotinn mann. Ef ég er til í að punga út 10 þúsund kalli þá fæ ég örugglega einhvern til að vinna fyrir mig. Er með fégráðugan Pólverja í huga, spurning hvort maður tími þessu. Ef ég þekki mig rétt, sem ég tel mig gera, þá endar það með því að ég láti reyna á þetta. Fylgist spennt með hér á blogginu mínu.
..:: max ::..
Næsta helgi


Næstu helgi er rosalega mikið að gerast. Á föstudaginn er uppistand með Pablo Fransesco og það verða örugglega einhverjir íslenskir snillingar að hita upp, eflaust bara snilld. Fyrir þá sem ekki fara á það eru stórtónleikar í Keflavík þar sem Maus er aðal númerið. Á laugardeginum er ljósanótt, allir sem maður þekkir í heiminum niðrí bæ og frábær stemmning. Hafnargötufyllerí og ball í Stapa. Næsta helgi verður helgi sem maður mun eflaust minnast á næstu árin. Næstu helgi...

Næstu helgi verð ég að vinna. Næstu helgi er næturvakt hjá D-vaktinni. Næstu helgi verður það eina sem ég geri að vinna og sofa, jú og gráta. Ef ég hef tíma þá kíki ég kannski og hoppa niður af Berginu. Næstu helgi langar mig aldrei að minnast á aftur, sem er frekar erfitt því hún er ekki einu sinni liðin. Hún er að læðast aftan að mér smám saman, og ég hata hana. Ég er svekktasti maður í heiminum. Ekkert uppistand, engir tónleikar, engin ljósanótt, engin flugeldasýning, ekkert ball, ekkert fólk. Bara ömurleg vinna. Svekktari mann er erfitt að finna. Ef þið finnið hann, gerið honum þá greiða og bindið þá enda á þjáningar hans.

Ég á eflaust eftir að velta mér uppúr þessu alla vikuna, og ef ég skildi gleyma því í augnasekúntu, þá á ég góða vini sem eru alltaf til staðar og munu minna mig á það um leið. Ég er ekki að fara að gera neitt skemmtilegt næstu helgi. Alltaf gott að geta treyst á vini sína. Samúðarkveðjur eru þáðar með þökkum. Kaldhæðinn húmor er það ekki.

Mig langar að segja allir að taka þátt í nýrri könnun, en það ætla ég ekki að gera. Bara stelpur að taka þátt í nýrri könnun. Þetta ætti að verða áhugavert. Bannað að skrökva. Og ef einhver vill útskýra svarið sitt eitthvað nánar þá má nota komment kerfið í það.
..:: svekkti maðurinn ::..