laugardagur, september 20, 2003

Óstöðvandi


Já ég er formlega búinn að henda frá mér öllum fyrri yfirlýsingum um að ég sé að spara peningana mína. Mér fannst ég ekki geta verið að misbjóða þessari internet-tengingu af aðalsættum með minni arfaslöku eldgömlu tölvu, þannig að ég sópaði útúr henni innvolsinu og keypti mér nýtt. Ég er semsagt kominn með nýja tölvu. Eða svo gott sem, ég keypti allt nýtt sem skiptir máli, nema skjáinn sem er hinn ágætasti. Í þetta eyddi ég þó ekki gríðarlega miklum peningum og þótti ég fá nokkuð mikið fyrir peningana sem er auðvitað hið besta mál. Núna er ég semsagt með mjög góða nettengingu (kominn með 1500 strax) og feykinóg af diskplássi (eigum við að veðja hvað ég verð fljótur að fylla 120 GB?). Ekki veit ég hvert þetta stefnir en það barasta hlýtur að vera ólöglegt því það er svo skemmtilegt. Elísabet spurði mig í gær hvort ég væri kominn með ALSD, og það finnst mér ákaflega góður punktur, þetta er ávanabindandi, örugglega meira heldur en LSD. En ég er ákaflega þreyttur og framundan er vinnuhelgi þannig að ég held að það sé ráðlagt að koma sér í bólið.

Og já, ég verð nú að monta mig smá. Ég fór í pílumót, eða svona pílu'get-2-gether' með einhverjum gaurum sem ég hélt að væru miklu betri en ég. Búnir að stunda þetta nokkuð lengi. Ég hélt ég myndi skít-tapa þessu, en annað kom á daginn. Ég var bara ekkert síðri en þeir og þegar upp var staðið var ég búinn að vinna flesta leikina! Djöfull er maður nú seigur. Ég verð örugglega í þessu núna öll föstudagskvöld þannig að þið fáið að vita hvernig þetta gengur. Ég verð að reyna að halda þessu áfram fyrst þetta byrjaði svona vel.
..:: mags ::..
blog comments powered by Disqus