Tíðindi úr mannheimum
Ljósanótt kom og fór, ágætis djamm það. Nennti ekkert að vera niðrí bæ um daginn, eða réttara sagt nennti enginn að hanga með mér niðrí bæ þannig að ég fór bara um kvöldið. Það var fínt, flugeldasýningin ekkert smá flott. Svo var bara allt of kalt þannig að ég fór bara í Stapann og var þar. Helvíti gott ball. Svo mörg voru nú þau orð.
Og hér eru fleiri. Ég er búinn að vera á leiðinni að kaupa mér DVD spilara í um það bil þrjú ár uppá dag. Undur og stórmerki gerðust í gær, ég fór og keypti mér spilara. Ég er líka búinn að vera á leiðinni að kaupa mér ADSL tengingu í tvö ár. Enn meiri undur og þeim mun meiri stórmerki gerðust í gær, ég fékk mér ADSL líka!! Alveg hreint magnað. Ég sem er að spara peninga. Enda keypti ég ódýrustu tenginuna (og það á tilboði) og ódýrasta spilarann (sem spilar öll kerfi) þannig að ég á nú alveg nokkrar krónur eftir. Nú er bara tvennt eftir á listanum yfir það sem ég ætla að leyfa mér að kaupa áður en ég fer í peningasvelti (eins og ég geti það eitthvað!). Það er pínulítil uppfærsla á tölvunni minni, og stafræn myndavél.
Johnny (a.k.a. Cookie) var svo góður að lána mér sjónvarp svo ég gæti nú sloppið við að deila nýju græjunni (DVD) með fjölskyldunni, því ég hef aldrei verið þeirra forréttinda aðnjótandi að vera með sjónvarp í herberginu mínu. Aðallega sökum þess að við höfum yfirleitt verið með afar fáar sjónvarpsstöðvar og því hef ég talið enga þörf á sjónvarpi bara fyrir mig. Núna erum við með tuttugu og eitthvað stöðvar og ég er að vinna í því að fá kapalinn inn í herbergið til að tengja við glænýja eldgamla 14'' sjónvarpið "mitt". Þannig að í herbergið mitt er komið sjónvarp með 20+ stöðvum, tölva með ADSL tengingu og DVD spilari. Ég mun semsagt vera þar þar til annað kemur í ljós, eflaust á árinu 2009 þegar mig fer að svengja. Þið megið því búast við afar einsleitum færslum næstu sex árin.
Nei nei, það er nú ýmislegt annað í gangi hjá mér. Ég er enn að reyna að redda mér borðtennisborði til að hafa útí bílskúr, þar sem ég er nýbúinn að koma fyrir píluspjaldi, skorborði, sófa og græjum. Spurning um að redda líka ísskáp og bretti af bjór og þá gæti maður flakkað milli herbergisins og bílskúrsins næstu sex árin. Þvílík afþreyingarárátta hjá mér þessa dagana. Kannski af því að ég vinn bara 15 daga í mánuði og er ekki búinn að mæta í sund í fleiri mánuði (stendur til að bæta úr því, jafnvel í dag) og er alveg laus við skóla og heimavinnu og slíkt vesen. Þetta verður örugglega ágætur vetur. Vill einhver kíkja í heimsókn? :)
..:: magchen ::..
Halló heimur!
Fyrir 2 árum